Eins og svo margir sennilega, erum við Heimir miklir nautnaseggir, það er alveg óþarfi að fara leynt með það. Okkur finnst fátt betra á heitum sumardögum en að fá okkur ískaldan bjór og gæða okkur á grænum ólífum með. Það er svona ekta Spánarstemning. Ólífur og bjór er samsetning sem klikkar seint. Þ.e.a.s ef manni finnast ólífur góðar og drekkur bjór. Og þó, ég er ekki einu sinni viss um að manni þurfi að finnast þessir hlutir góðir í sitthvoru lagi til að finnast þessi samsetning góð.
Eftir þessar bjór og ólífupælingar mínar ákvað ég því að taka bóndadaginn snemma í ár og mallaði þennan dásamlega góða kjúklingarétt sem samanstendur, jú einmitt, að miklu leyti af ólífum og bjór. Þessi réttur er án efa á topp 5 listanum okkar yfir gómsæta kjúklingarétti, ef ekki bara í efsta sæti. Það er alls ekki bjórbragð af sósunni en bjórinn gefur alveg ofsalega gott bakgrunnsbragð. Ég notaði kjúklingalæri í þennann rétt því það er svo gott að leyfa honum að malla lengi og ég er ekki viss um að bringur myndu þola svoleiðis meðferð jafn vel og lærin. Auk þess eru lærin bæði ódýr og einstaklega ljúffeng í svona rétti og ég ætla ekkert að réttlæta þetta læraval mitt neitt frekar, þetta var rétt ákvörðun!
Það er mjög gott að bera þennann rétt fram með þessum rósmarínkartöflubátum en vegna þess að sósan er svo góð er áreiðanlega ekki síðra að bera réttinn fram með brauði til að moppa sósuna upp með 🙂
Rósmarínkartöflur:
- 3 bökunarkartöflur
- Salt, pipar, rósmarín og ólífuolía
Aðferð:
Kartöflurnar skornar í frekar þunna báta. Settar á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Ólífuolíu hellt yfir og kryddaðar með salt, pipar og rósmarín. Bakað í 200 gráðu heitum ofni í 40 mínútur. (Ég byrjaði á að gera kartöflurnar og setti kjúklinginn svo inn í ofn með kartöflunum þegar þær höfðu verið í 10 mínútur í ofninum. Þá er allt tilbúið á sama tíma)
Kjúklingur í ólífu- og bjórsósu (fyrir 3 – 4):
- 5 kjúklingalæri
- 1 laukur, frekar smátt saxaður
- 1 krukka hakkaðir tómatar (ég nota frá Sollu, finnst þeir langbestir)
- 1 lítill bjór (tæpur, það má taka frá svona 2-3 sopa)
- 1 lítil krukka grænar fylltar ólívur
- 1 dl rjómi
- 1/2 kjúklingateningur
- 3 litlir vorlaukar, smátt saxaðir.
Aðferð:
Ofn hitaður í 200 gráður. Byrjið á því að snyrta kjúklingalærin vel og þerra þau með pappír. Ég sker alltaf vel af fitunni frá sem er ”aftaná” lærinu. Hitið pönnu og setjið örlítið af olíu eða smjöri á hana. Saltið og piprið kjúklinginn vel og brúnið á pönnunni á báðum hliðum. Takið kjúklinginn af pönnunni og geymið á diski. Ef mikil fita hefur farið af kjúklingnum á pönnuna er gott að hella aðeins af henni. Laukurinn er svo steiktur á sömu pönnu þar til hann mýkist aðeins. Því næst er tómötunum, bjórnum, kjúklingateningnum og ólívunum hellt út á. Leyft að malla aðeins og sjóða niður í ca. 5 mínútur á góðum hita og smakkað til með salt og pipar. Kjúklingalærin eru svo sett út í sósuna og rjómanum hellt yfir.
Ég setti pönnuna svo inn í 200 gráðu heitan ofn og leyfði þessu að malla þar í 30 mínútur. Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn má einfaldlega hella sósunni í eldfast mót og raða kjúklingalærunum svo þar ofan á og svo inn í ofn. Þegar rétturinn er tekinn úr ofninum er vorlauknum stráð yfir. Þetta er svo að sjálfsögðu borið fram með ísköldum bjór.
[…] hefur ekki verið eldað mikið undanfarna daga. Svona af kvöldmat allavega. Varla neitt síðan bjórkjúklingurinn góði var eldaður (sem við erum reyndar enn að hugsa um og ætlum að elda aftur við fyrsta […]