Ég held áfram leit minni að einföldu, hollu og góðu meðlæti sem ég get gert tilbúið áður en ég tek við að grilla eða elda þann mat sem á að vera á borðum eins og ég talaði um hér um daginn. Ég er kannski dálítið nýjungagjörn þegar kemur að salötum og meðlæti en mér finnst alltaf gaman að prófa nýja hluti og setja eitthvað nýtt og spennandi á matarborðið sem helst tekur ekki of langan tíma að útbúa. Þetta agúrkusalat er alveg ljómandi gott og passar alveg einstaklega vel t.d með grilluðum kjúklingabringum eða fiski sem létt og sumarleg máltíð. Syni mínum fannst alveg ótrúlega gaman að sjá hvernig agúrkan og gulræturnar breyttust í langa þunna strimla og fannst þar af leiðandi voða gaman að borða salatið.
Lauflétt agúrkuhrásalat (fyrir 2):
- 1 agúrka
- 3 meðalstórar gulrætur
- 1/2 hvítur laukur
- 1/2 hnúðkálshöfuð
Dressing:
- 2 msk hvítvínsedik
- 2 msk repjuolía eða ólífuolía
- 1 msk vatn
- 1 tsk grófkornasinnep
- 1 tsk hunang
- 1 tsk majónes
- Salt og pipar
- Örlítið af smátt saxaðri ferskri steinselju ef þið eigið hana til (má sleppa)
Aðferð: Setjið allt innihaldið í dressinguna í skál og þeytið vel saman með písk. Sneiðið agúrkuna og gulræturnar niður með flysjara þannig að þið fáið þunnar, langar sneiðar úr grænmetinu. Sneiðið laukinn og hnúðkálið í mjög þunnar sneiðar (með hníf ekki flysjararanum). Setjið allt grænmetið í skál og hellið dressingunni yfir og blandið saman.
Skildu eftir svar