Það hefur verið mjög mikið að gera hjér mér undanfarið (og er enn) og því ekki gefist mikill tími til að fara út í búð eða yfir höfuð spegúlera mikið í því hvað á að vera í matinn svona á virkum dögum. Þessi réttur varð til á föstudaginn í síðustu viku, á síðustu stundu þegar við vorum alveg á síðustu bensíndropunum, svöng og alveg sæmilega pirruð bara já. Viðurkennum það bara. Í örvæntingu opnaði ég eldhússkápana og athugaði hvað ég ætti til. Þar voru til tveir opnaðir pakkar af Linguine (sem er eins og spaghetti, bara flatt) sem ég keypti hjá Frú Laugu fyrir löngu. Samanlagt passaði innihaldið akkúrat í matinn fyrir okkur þrjú á heimilinu og í afgang fyrir einn. Semsagt nóg handa fjórum.. 😉 Í skápunum leyndust líka tómatar í dós, kapers og svartar ólífur og í ísskápnum var einhvernsstaðar smá parmesanbiti og laukur og hvítlaukur. Þetta var því farið að líta ágætlega út.
Þessi réttur tekur jafn langan tíma að eldast og tíminn sem pastað tekur að sjóða. Semsagt heilar tíu mínútur. Í upprunalegu Pasta alla Puttanesca (eða pasta gleðikonunnar) eru þó notaðar ansjósur en ég var nú ekki svo heppin (?) að eiga þær. Ég er kannski ekki orðin nógu þroskuð ennþá til að eiga fyrir tilviljun ansjósur á dangli í eldhússkápunum.
Pasta alla Puttanesca – fyrir 3
- 2 msk góð ólífuolía
- 1 laukur saxaðaður smátt
- 2 hvítlauksrif smátt söxuð
- 1/2 tsk þurrkaðar chilliflögur (eða 1/2 ferskur chilli saxaður)
- 2 msk kapers, létt saxað
- 1 dós/krukka svartar steinalausar ólífur (ég skar sumar í tvennt og hafði sumar heilar)
- 1 dós saxaðir tómatar
- 250 grömm linguine, taglietelli eða spaghetti.
- Salt og pipar og smá pastasoð
Pastað er sett í stóran pott með sjóðandi vatni og soðið eftir leiðbeiningum. Á meðan er sósan búin til. Laukur, hvítlaukur og chilli steikt við meðalhita í olíunni. Þegar laukurinn er orðinn glær er öllu hinu skellt á pönnuna. Smakkað til með salt og pipar og leyft að malla meðan pastað sýður. Takið einn bolla af pastavatninu frá og sigtið svo pastað. Öllu blandað saman, smá pastavatni blandað samanvið þar til sósan verður eins og þið viljið hafa hana.
Borið fram með ferskum rifnum parmesan og ég lofa að heimilisfólkið tekur gleði sína á ný. Hér voru allavega allir sáttir og líka þessi fjögurra ára 🙂
Sunna
Mmmmmm 🙂 Þetta verð ég að prófa !
Hildur
Nammi namm! þennan rétt á ég pottþétt eftir að prófa!
Flott síða hjá þér Helena!