Eru annars ekki að koma jól?? 🙂 Ég verð nú eiginlega að skella hérna inn einni smákökuuppskrift sem ég rakst á um daginn og varð að prófa, enda mynta og súkkulaði heilög jólatvenna í mínum bókum. Útkoman varð alveg hreint ljómandi góð og ef þið ætlið að baka eina aukasort um helgina, eða bara eina sort í það heila mæli ég eindregið með þessari. Þær eru svakalega jólalegar og góðar.
Jólasmákökur með myntu og hvítu súkkulaði (Breytt uppskrift af marthastewart.com):
- 225 gr smjör
- 1,5 bolli sykur eða hrásykur
- 1/2 tsk piparmyntu extract (fæst t.d í Kosti, líka hægt að sleppa og nota bara vanillu extract)
- 1 stórt egg
- 2 1/2 bolli hveiti eða fínt spelt
- 2 tsk vínsteinslyftiduft, eða venjulegt lyftiduft.
- 1 bolli litlir dökkir súkkulaðidropar
(Ég nota ameríska bollastærð sem er 2.4 dl)
Aðferð:
Ofninn hitaður í 180 gráður með blæstri, 190 gráður án blásturs. Smjör, sykur og piparmyntu extract þeytt þar til létt og ljóst, egginu bætt út í og hrært vel. Hveitinu og lyftiduftinu bætt út, hrært létt saman og síðast er súkkulaðidropunum hrært saman við. Ég sett deigið svo á plastfilmu rúllaði því upp í lengju og geymdi í ísskáp í þrjá sólahringa. Það var nú bara af því ég hafði ekki tíma til að baka þær strax. Það er í góðu lagi baka úr því strax og það er tilbúið!
Svo skar ég deigrúlluna í sneiðar og rúllaði kúlur úr deiginu. Setti þær á plötu með góðu millibili og þrýsti aðeins ofan á hverja kúlu með fingrunum. Þetta bakaði ég í 9 mínútur.
Eða þangað til að kökurnar litu svona út. Þá lét ég þær kólna alveg og útbjó það sem átti að fara ofan á þær.
Ofan á:
- 200 gr. Hvítt súkkulaði, brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni.
- 1/2 poki Bismark brjóstsykur, mulinn.
Ég notaði hvíta súkkulaðidropa sem ég fékk í Kosti og bræddi þá yfir vatnsbaði.
Muldi Bismark brjóstsykurinn.
Svo setti ég um það bil 2 tsk af hvíta súkkulaðinu á hverja köku og stráði svo smá muldum brjóstykri yfir. Ég gerð þetta ekki við allar kökurnar, sumar hafði ég bara svona allsberar og þær voru líka mjög góðar þannig.
Þetta er auðvitað bara algjört nammi ! Verði ykkur að góðu 🙂
Skildu eftir svar