Góð heimatilbúin súkkulaðimús er eitthvað sem ég á afar erfitt með að standast og ég veit ekki um marga eftirrétti sem komast með tærnar þar sem músin góða er með hælana. Engu að síður geri ég eiginlega aldrei súkkulaðimús. Fyrir utan að það gengur náttulega ekki að vera alltaf borðandi súkkulaðimýs þá hefur mér fundist eintómt vesen að búa hana til. Ég fór aðeins að grúska og fann út að það þarf alls ekki að vera svo mikið mál að gera þennann dásamlega eftirrétt. Þeyta egg og sykur, bræða súkkulaði og blanda öllu saman við þeyttan rjóma, þetta hljómar ekki mjög flókið og er það bara alls ekki. Það er mesti misskilningur að það þurfi að aðskilja eggjarauður og eggjahvítur og vera með eitthvað vesen í kringum það. Þessi uppskrift er ofsalega góð og maður þarf alls ekki stóran skammt til að svala súkkulaðiþörfinni.
Uppskrift:
- 150 grömm dökkt súkkulaði (56 – 70%)
- 2 msk smjör
- 2 heil egg og 1 eggjarauða
- 2 msk sykur
- 3,5 dl rjómi
- 1 tsk vanilluextract
- Salt á hnífsoddi
Aðferð:
Súkkulaði og smjör brætt yfir vatnsbaði eða í potti við vægan hita með ögn af salti. Tekið af hitanum og leyft að kólna. Á meðan eru eggin, eggjarauðan og sykurinn þeytt vel saman þar til ljóst og létt. Súkkulaðinu og vanillunni hrært saman við. Rjóminn stífþeyttur og honum blandað varlega saman við súkkulaði- og eggjablönduna. Músin færð í nokkrar litlar skálar, glös á fæti eða eina stóra skál og kæld í 1 klst eða lengur. Borið fram með ferskum berjum.
[…] á að nota í eitthvað gómsætt. Reyndar er ég alveg ákveðin í að útbúa þessa dásamlegu súkkulaðimús einhverntímann yfir hátíðina. Hún kemur í stað páskaeggs sem ég hef aldrei verið neitt […]