Það hlýtur að vera við hæfi að baka hjónabandssælu svona í kjölfar bóndadags! Ég allavega bakaði þessa klassíska haframjöls hjónabandssælu á þessum hálfgráa notalega sunnudegi í dag. Ég hef ekki bakað hjónabandssælu oft áður, en þessi uppskrift sem ég studdist við er upphaflega komin frá henni Ree Drummond (Pioneer woman) og gengur þar undir heitinu Strawberry Oatmeal Bars. Innihaldið var þó afar svipað og í hinni ”íslensku” (kann annars einhver sögu hjónabandssælunnar?) hjónabandssælu og til þess að hún yrði alvöru skipti ég jarðaberjasultunni út fyrir rabarbarasultu. Ég get þó vel hugsað mér að gera hana næst með jarðarberjasultunni.. Útkoman varð alveg hreint ljómandi góð hjónabandssæla. Ég bakaði sæluna í ferköntuðu eldföstu móti (ca.22x33cm).
Hjónabandssæla uppskrift: (Breytt uppskrift frá Ree Drummond)
- 200 grömm smjör, skorið í litla teninga
- 4 dl spelt
- 4 dl grófir hafrar
- 2 dl púðursykur
- 3 msk súrmjólk
- 1 krukka rabarbarasulta
Ofn hitaður í 160 gráður með blæstri. Bökunarmótið smurt vel svo ekkert festist við það. Allt hráefnið í kökuna nema sultan unnið saman (ég notaði K-ið í Kitchenaid hrærivélinni) þar til það loðir vel saman. Rúmlega helmingnum af deiginu er þrýst í bökunarmótið, rabarbarasultunni dreift yfir og restin af deiginu mulin yfir sultuna. Bakað frekar neðarlega í ofni í u.þ.b 35 mínútur. Látið kólna alveg og kakan svo skorin í teninga.
Dáfín sunnudagskaka.. eða hvaða dags sem er kaka 🙂
Skildu eftir svar