Það er fátt eins huggulegt á góðu föstudagskvöldi en að fá nokkrar íðilfagrar og að ég tali nú ekki um skemmtilegar skvísur í eilítinn hvítvínsdreitil og spjall. Mér finnst um að gera að nota tækifærið þegar ég á vona á svona ánægjulegum heimsóknum að bjóða upp á eitthvað einfalt og gómsætt sem gott er að narta á meðan maður dreypir á góðu hvítvíni.. eða bara sódavatni.Ég bauð einmitt upp á þessar rósmarín ristuðu hnetur og möndlur um daginn á svona ”málfundi” ásamt smá ostum og svo auðvitað bollakökunum. Hneturnar eru virkilega einfaldar og góðar og það er hægt að nota hvaða hnetur sem er. Ég gæti alveg ímyndað mér að valhnetukjarnar og pekanhnetur kæmu líka vel út. Þetta er alveg passlega sætt/sterkt/salt með ljúfum rósmarínkeim og alveg upplagt til að gæða sér á með glasi af léttu víni, bjór eða kokteil.
Ristaðar hnetur og möndlur með rósmarín: (Breytt uppskrift frá Inu Garten)
- 450 grömm hnetur (ég notaði cashew hnetur og möndlur)
- 2 msk saxað ferskt rósmarín
- 2 tsk gróft sjávarsalt (t.d Maldon eða Saltverk)
- 2 tsk púðursykur
- 1/2 tsk cayenne pipar
- 2 msk smjörAðferð: Ristið hneturnar og möndlurnar við miðlungshita þar til þið finnið góðan hnetuilm og hneturnar eru aðeins farnar að brúnast. Þetta er ekki gott að gera við háan hita því þá er hætta á að hneturnar brenni að utan og séu enn kaldar í miðjunni. Það viljum við ekki. Þegar hneturnar höfðu ristast tók ég pönnuna af hitanum og bjó til smá pláss á miðri pönnunni og setti strax 2 msk af smjöri á miðja pönnuna. Þegar það hafði bráðnað setti ég kryddin út í smjörið. Þá er öllu blandað vel saman þar til kryddin þekja hneturnar og þær verða gljáandi. Borið fram volgt eða stofuheitt.
Skildu eftir svar