Mér finnst svo frábært að baka skonsur ef ég á von á gestum í bröns eða bara til að gleðja heimilisfólkið um helgar. Það er einstaklega róandi að læðast fram á björtum morgni á meðan heimilisfólkið liggur fyrir, mylja saman smjör og hveiiti og finna ilminn af nýbökuðum skonsunum nokkrum mínútum seinna. Svo einfalt er að búa þær til. Galdurinn á bakvið svona skonsubakstur er að hafa smjörið ískalt, vinna deigið alls ekki of mikið eftir að vökvinn kemur út í og passa að smjörið sé ennþá í bitum á stærð við litlar baunir áður en vökvinn fer út í. Svo er bara að hnoða deigið illa þannig að það rétt hangi saman. Það er bæði hægt að vinna deigið saman með höndunum en ef þið eigið hrærivél er gott að nota K-hrærarann. Skonsurnar eru dásamlega góðar bornar fram volgar með smjöri og osti. Njótið.
Súkkulaðiskonsur
- 350 gr hveiti eða fínmalað spelt
- 1/4 tskt salt
- 2 tsk lyftiduft
- 3 msk hrásykur
- 75 gr kalt smjör skorið í bita
- 100 gr saxað dökkt súkkulaði eða litlir súkkulaðidropar
- 1-1,5 dl mjólk (byrjið á 1 dl og bætið meira út í ef ykkur finnst þurfa)
Aðferð: Byrjið á hita ofn í 170 gráður með blæstri. Blandið saman hveiti, salti, lyftidufti og sykri. Myljið smjörið saman við með fingrunum eða í hrærivélinni. Bætið súkkulaði út í og því næst mjólkinni. Blandið eins lítið og þið getið og hnoðið lauslega þar til deigið rétt loðir saman. Hellið því á borð og sléttið aðeins úr því með höndunum eða kökukefli þannig að deigið sé um 2 cm á þykkt. Skerið út í 8-10 litla hringi eða skerið deigið í sneiðar (eins og pizzu). Penslið skonsurnar með mjólk og stráið örlitlum hrásykri yfir hverja og eina, raðið á plötu og bakið í um 15 mínútur eða þar til skonsurnar hafa lyft sér og eru gullinbrúnar.
Skildu eftir svar