Ég kann ekki frönsku, bara svo það sé á hreinu. En þar sem eiginmaður minn var svo elskulegur að gefa mér nýlega The art of French cooking eftir Juliu Child hefur mig undanfarna daga dreymt um að tala frönsku. Bókin, sem er í tveimur bindum, er einstaklega fallega sett upp og uppskriftirnar bera allar franska titla, mér til mikillar gleði. Mikið óskaplega hljómar matur á frönsku fallega. Þessi frönsku ást mín hefur verið mér innblástur í eldhúsinu undanfarið þar sem einfaldleiki og klassík hefur svolítið ráðið ríkjum.
Í miðri franskri vímunni á dögunum datt ég svo inn á ákaflega girnilegt franskt matarblogg sem heitir Mais pourquoi est-ce que je vous raconte ça.. Dorian Cuisine.com. Þar má finna afar fallegar matarmyndir og uppskriftir sem flestar eru mjög einfaldar en alveg ofboðslega girnilegar. Það var einmitt þar sem ég rak augun í þessa súkkulaðimús.. og ég varð að prófa (svo var búið að þýða uppskriftina yfir á ensku svo ég þurfti ekki einu sinni google translate). Einfaldleikinn er í fyrirrúmi í þessari klassísku súkkulaðimús sem er draumi líkust svo góð er hún. Ef þið viljið slá í gegn í næsta matarboði er þessi sennilega lykillinn að því og ég held svei mér þá að hún sé örugglega besta mús sem ég hef smakkað.
La mousse au chocolat:
- 240 gr dökkt súkkulaði (ég mæli með að nota suðusúkkulaði og gott 70% súkkulaði til helminga)
- 60 gr smjör
- 4 eggjarauður
- 6 eggjahvítur
- 60 gr sykur
Aðferð: Bræðið súkkulaðið og smjörið í potti yfir mjög vægum hita eða í skál yfir vatnsbaði. Takið af hitanum og hrærið eggjarauðunum saman við. Hrærið vel með sleif þannig að allt blandist vel saman. Þeytið eggjahvíturnar með sykrinum þar til stífþeyttar. Blandið þriðjungi af eggjahvítunum vel saman við súkkulaðiblönduna. Bætið þá restinni af eggjahvítunum saman við og blandið varlega saman við með sleif eða sleikju. Kælið í a.m.k tvær klukkustundir í ísskáp, helst yfir nótt. Berið fram t.d með þeyttum rjóma eða jarðarberjum eða hvorutveggja..
Bára
Prófaðu næst að skella einum rótsterkum espresso út í súkkulaðiblönduna – fullkomið!
helenagunnarsd
Hef einmitt sett smá espresso duft 🙂 Það er ofsalega gott!