Hér er á ferðinni mikil uppáhalds súpa. Hún rífur vel í og er upplagt að bjóða kvef- og flensuhausum upp á hana enda inniheldur hún ríflegt magn af chilli, engifer og hvítlauk. Ég nota einnig vel af kóríander í súpuna en honum má alveg sleppa fyrir kóríanderhatarana þarna úti, það er líka mjög gott að nota ferskt basil í staðin. Ég hvet ykkur til að prófa þessa!
Tælensk núðlusúpa með kókos og rauðu karrý (fyrir 5)
- 2 msk rifið eða smátt saxað engifer
- 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða rifin
- 1 msk chillimauk, t.d. Sambal oelek (má minnka magnið..)
- 1 msk red curry paste
- 1 búnt kóríander, stilkar/neðri helmingur skorinn frá og smátt saxað, blöð geymd þar til síðar
- 1 msk púðursykur
- 1 laukur, skorinn í strimla
- 800 ml kókosmjólk (2 dósir eða fernur)
- 1,5 l vatn
- 2 msk kjúklinga- eða grænmetiskraftur
- 1 límóna, safinn
- 3 kjúklingabringur, skornar í þunna strimla
- 100-150 gr þurrkaðar eggjanúðlur
- Salt og pipar
- Olía til steikingar, ég nota kókosolíu í þessa súpu.
Aðferð: Setjið 2 msk af olíu í stóran pott, steikið hvítlauk, engifer, chillimauk og curry paste í 1-2 mínútur, Bætið þá smátt söxuðum kóríander út í ásamt púðursykri og lauknum og steikið aðeins áfram. Hellið kókosmjólk og vatni saman við, hleypið upp suðu og kryddið með grænmetis- og/eða kjúklingakrafi, salti og pipar og kreistið safann úr límónunni út í.
Smakkið ykkur áfram með salti, pipar, chillimauki og krafti þar til súpan er eins og þið viljið hafa hana. Setjið kjúklinastrimlana hráa út í súpuna og látið sjóða í 5 mínútur, bætið þá núðlunum út í og sjóðið eins og þarf þar til þær eru eldaðar í gegn. Berið fram með ferskum kóríander og límónubátum.
Skildu eftir svar