Internetið inniheldur engan veginn nógu margar uppskriftir af brúnkum svo ég tel það skyldu mína að bæta í safnið enda alltaf rými til að gera gott enn betra. Ég vil hafa þessa dásamlegu súkkulaðiköku vel mjúka og djúsí svo það gildir alls ekki að baka hana alveg í gegn, þá missir hún allan sjarma. Formið sem ég nota í þessa uppskrift er 20x20cm og ég bakaði hana í akkúrat 30 mínútur.. Ef þið setjið kökuna í stærra form, t.d. skúffukökuform sem er 20x30cm þarf að baka hana aðeins skemur. Nú skulum við öll sameinast og baka þessa dásemd því lífið er of stutt til að sleppa því!
- 175 gr smjör
- 175 gr dökkt 70% súkkulaði
- 3 stór egg
- 250 gr sykur
- 1 tsk vanilluextract
- 85 gr hveiti
- 75 gr mjólkursúkkulaði, saxað
- 75 gr hvítt súkkulaði, saxað
- Dálítið sjávarsalt í flögum
Aðferð:
Hitið ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Bræðið saman smjör og súkkulaði. Setjið til hliðar og leyfið að kólna aðeins.
Pískið saman egg og sykur þar til blandan verður aðeins ljósari og sykurinn leysist upp. Nóg að píska með höndunum í 1-2 mínútur. Bætið vanillu út í ásamt súkkulaðiblöndunni og hrærið vel saman.
Sigtið hveitið saman við og blandið varlega saman við ásamt súkkulaðibitunum. Hellið í 20×20 cm form sem hefur verið klætt með bökunarpappír og bakið í 30-35 mínútur.
Kakan á að vera aðeins blaut í miðjunni þegar tekin úr ofninum. Leyfið að kólna í amk 30 mínútur áður en þið skerið kökuna.