Það er löngu komin á sú hefð að prófa að minnsta kosti eina nýja smákökuuppskrift í aðdraganda aðventu. Þessar dúllur hittu lóðbeint í mark og eru jafn dásamlegar og þær hljóma. Athugið að ef þið vijlið getið þið vel sleppt því að nota Baileys í uppskriftina og notað í staðin rjóma. Það er alls ekki síðra.
- 150 gr mjúkt smjör
- 200 gr sykur
- 2 egg
- 2 tsk vanilluextract
- 160 gr hveiti
- 60 gr kakó
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk matarsódi
- 3 msk Baileys líkjör (eða rjómi)
Aðferð:
- Ofn hitaður í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Smjör og sykur þeytt mjög vel saman þar til ljóst og létt. Eggin fara út í og þeytt vel saman.
- Hveiti, kakó, salti og matarsóda blandað saman og bætt út í ásamt Baileys eða rjóma og blandað saman í deig og kælt í ísskáp í 10-15 mínútur.
- Deigið sett með tveimur teskeiðum á ofnplötu. Úr þessari uppskrift næ ég um það bil 60 kökum og miða við að setja 20 kökur á hverja ofnplötu.
- Bakið kökurnar í 7-9 mínútur. Takið út og kælið. Athugið að kökurnar eiga að vera mjúkar en ekki stökkar.
Baileys smjörkrem
- 150 gr mjúkt smjör
- 200 gr flórsykur
- 80 ml Baileys (eða 80 ml rjómi og 1 msk kakó)
- 1 tsk vanilluextract
Aðferð:
- Smjör þeytt mjög vel þar til ljóst og létt.
- Flórsykur fer út í og þetta þeytt aftur mjög vel saman. Kremið á að vera létt og loftmikið.
- Hellið Baileys og vanillu saman við á meðan þið þeytið, skafið vel hliðarnar og þeytið vel áfram.
- Sprautið kreminu á helminginn af kökunum og leggið köku ofan á til að mynda samloku.
- Kökurnar geymast vel í lokuðu íláti í ísskáp í nokkra daga en geymast líka mjög vel í frysti.
Endilega fylgið með mér á Instagram: @helenagunnarsd – og taggið mig ef þið prófið Eldhúsperlur í ykkar eldhúsi!
Skildu eftir svar