Ef mæðradagurinn væri terta væri hann örugglega þessi jarðarberjaterta. Hún er mjúk og dásamleg og pínu eins og að borða sumar. Hún er í alvöru einfaldari í bakstri en hún lítur út fyrir að vera. Ég flýti fyrir mér með því að nota Betty Crocker vanilluköku í botnana – en auðvitað má líka nota hefðbundna svampbotna. Vanillukremið er að vísu smá föndur en ekkert flókið ég lofa!
Ef þið prófið uppskriftirnar mínar megið þið endilega smella mynd og merkja mig á instagram @helenagunnarsd – Þar getið þið líka séð skref fyrir skref samsetningu á tertunni í highlights.
Botnar:
- 1 pakki vanillukaka frá Betty Crocker (má líka nota hefðbundna svampbotna)
Aðferð: Bökuð samkvæmt leiðbeiningum í þremur hringlaga formum – eða einu hringlaga formi. Kæld, og ef bökuð í einu formi, kljúfið kökuna í þrjá jafna botna með stórum brauðhníf.
Vanillukrem:
- 250 ml rjómi
- 250 ml mjólk
- Fræ úr einni vanillustöng
- 75 gr sykur
- 3 msk maíssterkja (Maizena mjöl)
- 5 eggjarauður
- 3 msk kalt smjör
Aðferð: Mjólk, rjómi og vanilla sett saman í pott og hitað alveg upp að suðu, ekki láta sjóða. Sykri, maíssterkju og eggjarauðum pískað vel saman í stórri skál þar til ljóst og létt. Heitri mjólkinni hellt mjög rólega saman við eggin og hrært vel á meðan. Eggja og mjólkurblöndunni svo hellt aftur í pottinn og hitað á meðalhita upp að suðu, hrært í allan tímann.
Þegar þið sjáið blönduna bubbla aðeins slökkvið undir og takið af hitanum. Hrærið köldu smjörinu saman við þar til alveg bráðnað. Hellið vanillukreminu í sigti og þrýstið í gegn með skeið þar til silkimjúkt. Setjið í skál og plastfilmu yfir þannig að filman snerti vanillukremið. Kælið alveg. Getið flýtt fyrir kælingunni með því að setja kremið á ofnskúffu og dreift vel úr því.
Á milli:
- 500 ml rjómi
- 500 gr jarðarber
Samsetning:
Leggið fyrsta botninn á kökudisk. Hrærið aðeins upp í kældu vanillukreminu með písk þar til það verður silkimjúkt, skerið jarðarberin smátt (skiljið nokkur eftir til að skreyta með) og þeytið rjómann. Setjið um það bil einn þriðja af vanillukreminu á botninn ca. 1 cm. Dreifið smátt söxuðum jarðarberjum yfir og rjóma þar yfir, ca. 1 cm. Leggið næsta botn ofan á og endurtakið. Leggið þá síðasta botninn ofan á. Setjið síðasta lagið af vanillukremi á toppinn og smyrjið að lokum þeyttum rjóma yfir og sléttið úr. Skreytið tertuna með fallega sneiddum jarðarberjum og sprautið rjóma í hring meðfram köntunum.
Skildu eftir svar