Dásamlegar súkkulaðibita spariskonsur
Ég hugsa að skonsur séu eitthvað það skemmtilegasta sem ég baka. Þær eru svo mikið einfaldari en allir halda að ég skil hreinlega ekki af hverju ég baka þær ekki miklu oftar. Lykillinn að góðum skonsum, að mínu mati er að hafa deigið dálítið blautt og aðalmálið, að vinna það eins lítið og mögulegt er, alls ekki hnoða það. Þá verða skonsurnar léttar í sér og bráðna í munni. Þessar skonsur eru svo góðar að þær má t.d. bera fram með jarðarberjum og þeyttum rjóma eins og einskonar bröns eftirrétt. Þær eru líka frábærar nýbakaðar einar og sér eða volgar með smjöri.
– Uppskriftin var unnin í samstarfi við Gott í matinn –
Ég nota bollamál í þessari uppskrift, en einn bolli er 2.5 dl
2 ½ bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
½ tsk salt (nota flögusalt)
1/3 bolli sykur
100 gr smjör, kalt
2 egg
1 tsk vanilludropar
¾ bolli rjómi
150 gr dökkt súkkulaði gróft saxað eða 1 ½ bolli súkkulaðibitar
3 msk perlusykur eða hrásykur
Aðferð: hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 190 gráður. Byrjið á að píska saman öll þurrefnin. Skerið smjörið í litla bita og vinnið það saman við hveitiblönduna með fingrunum þar til hveitið líkist rökum sandi en ennþá dálítið eftir af litlum smjörbitum. Pískið saman með gaffli, eggi, rjóma og vanillu og bætið saman við þurrefnin ásamt súkkulaðinu. Vinnið þetta mjög lítið saman með gafflinum þannig að deigið rétt loði saman. Hellið á borð og mótið hring úr deiginu sem er um 2 cm á þykkt. Ef degið er mjög blautt stráið þá smá hveiti á borðið. Skerið í átta jafnar sneiðar og raðið á ofnplötu. Penslið með dálitlum rjóma og stráið perlusykrinum yfir. Bakið í 18 – 20 mínútur.