Mikil uppáhalds uppskrift sem hefur fylgt mér lengi. Ég setti hana fyrst hér inn á bloggið árið 2016. Hér er hún komin aftur örlítið uppfærð og breytt þó sú gamla standi nú algjörlega fyrir sér ennþá. Þetta er líklega eitt það besta sem ég veit og er í alvöru sáraeinfalt að elda. Aðalmálið að vera dálítið þolinmóður og leyfa þessu að malla í rólegheitum. Fullkominn helgarmatur!
Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu (fyrir fjóra)
- 4 vænir lambaleggir (350-400 gr stykkið)
- 2 laukar
- 1 stór gulrót
- 1 fennel
- 2-4 hvítlauksrif
- 2 msk tómatpurré
- 3-4 dl rauðvín
- 5 dl vatn
- 2 msk nautakraftur (Ég nota fljótandi Oscar kraft)
- 1 msk ferskt timían, gróft saxað (eða 1 tsk þurrkað)
- 3 þurrkuð lárviðarlauf
- Smjör, sjávarsalt og svartur pipar
Aðferð: Hitið ofn í 140 gráður (ég nota blástur). Kryddið kjötið vel með salti og pipar. Takið stóran pott, sem má fara í ofn og hitið á meðalháum hita á eldavél. Bræðið 1 msk af smjöri í pottinum, brúnið kjötið vel á öllum hliðum og takið það svo uppúr pottinu. Skerið grænmetið í frekar grófa teninga. Bræðið 1 msk í viðbót af smjöri í pottinum og steikið grænmetið þar til það mýkist aðeins. Setjið tómatpurré út í og steikið áfram. Hellið rauðvíninu yfir og skrapið vel botninn á pottinum. Leyfið að sjóða niður í eina mínútu.
Hellið vatninu og kraftinum saman við. Setjið kjötið út í pottinn og lok ofan á þannig að það sé örlítil rifa til að sleppa gufunni út. Hleypið suðunni upp og setjið svo inn í ofn í 2,5-3 klukkustundir, hafið örlitla rifu á lokinu áfram inni í ofninum.
Takið úr ofninum að loknum eldunartíma. Veiðið kjötbitana upp úr og geymið undir álpappír. Setjið pottinn á eldavélina, kveikið undir á háum hita og sjóðið sósuna niður þangað til að sósan er um það bil helmingi minni en var í upphafi eldunar. Smakkið ykkur til.
Ef ykkur finnst sósan of þunn má þykkja hana með örlitlum sósujafnara eða 2 tsk af hveiti stöppuðu saman við 1 msk af mjúku smjöri, pískað saman við sósuna á meðan hún sýður. Berið lambaleggina fram með góðri rótagrænmetis, blómkáls eða kartöflumús.
Skildu eftir svar