Peruterta
Peruterta er uppáhalds terta margra og erum við fjölskyldan þar engin undantekning. Þessi hnallþóra er gerð fyrir öll afmæli og slær alltaf jafn mikið í gegn og yfirleitt sú terta sem klárast fyrst. Tertan á myndinni er með tilbúnum búðarkeyptum marengsbotni á milli svampotnanna ásamt þeyttum rjóma. Þá erum við búin að uppfæra tertuna á enn hærra plan og komin með náfrænku draumtertunnar. Það er þó ekki nauðsynlegt og stendur gamla góða útgáfan alltaf fyrir sér. Ég viðurkenni einnig fúslega að ég stytti mér oft leið og kaupi tilbúna svambotna sem eru ekkert síðri. Lykillinn er að bleyta vel í þeim með perusafanum.
– Uppskriftin er unnin í samstarfi við Gott í matinn –
Svampbotnar:
4 egg
200 gr sykur
130 gr hveiti
1 tsk lyftiduft
- Hitið ofninn í 175 gráður með blæstri
- Þeytið egg og sykur mjög vel saman þar til blandan er ljós og létt
- Sigtið saman hveiti og lyftidufti og hrærið varlega saman við með sleikju
- Setjið í tvö smurð og bökunarpappírsklædd kökuform og bakið þar til botnarnir eru gullnir að lit eða í u.þ.b. 12-15 mínútur. Kælið á grind
Súkkulaðirjómi:
150 gr suðusúkkulaði
5 eggjarauður
5 msk flórsykur
4 dl rjómi
- Bræðið súkkulaðið við vægan hita eða yfir vatnsbaði
- Stífþeytið rjómann og setjið til hliðar
- Stífþeytið saman eggjarauður og flórsykur þar til blandan er ljós
- Blandið bræddu súkkulaðinu saman við eggjablönduna.
- Hrærið að lokum rjómanum varlega saman við
Samsetning:
Ein stór dós perur
- Sigtið vökvann frá perunum og geymið. Leggið annan svampbotninn á disk og vætið vel í honum með helmingnum af perusafanum.
- Skerið helminginn af perunum í litla bita og hinn helminginn í sneiðar til að skreyta tertuna með.
- Setjið u.þ.b. 1/3 af súkkulaðirjómanum á botninn og dreifið perubitum yfir.
- Bleytið seinni svampbotninn með perusafa og leggið svo ofan á.
- Setjið restina af súkkulaðirjómanum ofan á tertuna, dreifið vel úr niður á hliðarnar og skreytið með perusneiðum
Ath. Ef þið viljið uppfæra tertuna er gott að setja marengs á milli svambotnanna. Þá legg ég tilbúinn marengsbotn ofan á súkkulaðirjómann með perubitunum (eftir lið 3). Set svo 3 dl af þeyttum rjóma ofan á marengsinn og seinni svampbotninn ofan á það. Toppa svo með nóg af kremi.
Skildu eftir svar