• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Hunangs- chilli kjúklingasalat

maí 15, 2020 by helenagunnarsd Leave a Comment

Ótrúlega bragðgott kjúklingasalat sem er eitthvað svo sumarlegt. Það er um að gera að grilla kjúklinginn til að toppa stemmninguna. Sumar á diski! –

Til að gera salatið ketó/LKL vænt má vel skipta hunanginu út fyrir sykurlaust síróp og skipta brauðteningunum út fyrir t.d. ristaðar pekanhnetur, og svo annað hvort sleppa mangóinu eða minnka það.

Marinering og sósa:

½ dl hunang

½ dl dijon sinnep

½ dl ólífuolía

2-3 tsk chillimauk (t.d. Sambal oelek) eða 1 rauður hakkaður chilli

1 tsk sjávarsalt

Safi úr einni límónu

2 kjúklingabringur

Brauðteningar

2 vænar sneiðar súrdeigsbrauð

3 msk smjör og 1 msk ólífuolía

Salt og pipar

Salat

Einn poki salatblanda eða annað salat eftir smekk 

1 mangó

1 lárpera

Kirsuberjatómatar

Fetaostur

Aðferð

Pískið saman öllu sem fer í marineringuna. Leggið kjúklingabringurnar á disk, takið fjórar matskeiðar af sósunni og hellið yfir bringurnar. Látið marinerast í ísskáp í 2 klst eða á borði í 30 mínútur.  Geymið restina af sósunni til að hella yfir salatið.

Rífið brauðið í litla teninga. Bræðið smjörið á pönnu og hitið ásamt ólífuolíunni. Steikið brauðteningana þar til stökkir og kryddið með salti og pipar. Færið yfir á disk með eldhúspappír og látið bíða. 

Steikið eða grillið kjúklingabringurnar þar til eldaðar í gegn. Skerið allt sem á að fara í salatið niður og leggið á stórt fat. Sneiðið að lokum kjúklinginn í þunnar sneiðar, dreifið brauðteningunum yfir ásamt fetaosti og hellið sósu eftir smekk yfir allt saman. Berið fram strax. 

Filed Under: Eldhúsperlur

Jarðarberjaterta með vanillukremi

maí 10, 2020 by helenagunnarsd Leave a Comment

Ef mæðradagurinn væri terta væri hann örugglega þessi jarðarberjaterta. Hún er mjúk og dásamleg og pínu eins og að borða sumar. Hún er í alvöru einfaldari í bakstri en hún lítur út fyrir að vera. Ég flýti fyrir mér með því að nota Betty Crocker vanilluköku í botnana – en auðvitað má líka nota hefðbundna svampbotna. Vanillukremið er að vísu smá föndur en ekkert flókið ég lofa!

Ef þið prófið uppskriftirnar mínar megið þið endilega smella mynd og merkja mig á instagram @helenagunnarsd – Þar getið þið líka séð skref fyrir skref samsetningu á tertunni í highlights.

Botnar:

  • 1 pakki vanillukaka frá Betty Crocker (má líka nota hefðbundna svampbotna)

Aðferð: Bökuð samkvæmt leiðbeiningum í þremur hringlaga formum – eða einu hringlaga formi. Kæld, og ef bökuð í einu formi, kljúfið kökuna í þrjá jafna botna með stórum brauðhníf.

Vanillukrem:

  • 250 ml rjómi
  • 250 ml mjólk
  • Fræ úr einni vanillustöng
  • 75 gr sykur
  • 3 msk maíssterkja (Maizena mjöl)
  • 5 eggjarauður
  • 3 msk kalt smjör

Aðferð: Mjólk, rjómi og vanilla sett saman í pott og hitað alveg upp að suðu, ekki láta sjóða. Sykri, maíssterkju og eggjarauðum pískað vel saman í stórri skál þar til ljóst og létt. Heitri mjólkinni hellt mjög rólega saman við eggin og hrært vel á meðan. Eggja og mjólkurblöndunni svo hellt aftur í pottinn og hitað á meðalhita upp að suðu, hrært í allan tímann.

Þegar þið sjáið blönduna bubbla aðeins slökkvið undir og takið af hitanum. Hrærið köldu smjörinu saman við þar til alveg bráðnað. Hellið vanillukreminu í sigti og þrýstið í gegn með skeið þar til silkimjúkt. Setjið í skál og plastfilmu yfir þannig að filman snerti vanillukremið. Kælið alveg. Getið flýtt fyrir kælingunni með því að setja kremið á ofnskúffu og dreift vel úr því.

Á milli:

  • 500 ml rjómi
  • 500 gr jarðarber

Samsetning:

Leggið fyrsta botninn á kökudisk. Hrærið aðeins upp í kældu vanillukreminu með písk þar til það verður silkimjúkt, skerið jarðarberin smátt (skiljið nokkur eftir til að skreyta með) og þeytið rjómann. Setjið um það bil einn þriðja af vanillukreminu á botninn ca. 1 cm. Dreifið smátt söxuðum jarðarberjum yfir og rjóma þar yfir, ca. 1 cm. Leggið næsta botn ofan á og endurtakið. Leggið þá síðasta botninn ofan á. Setjið síðasta lagið af vanillukremi á toppinn og smyrjið að lokum þeyttum rjóma yfir og sléttið úr. Skreytið tertuna með fallega sneiddum jarðarberjum og sprautið rjóma í hring meðfram köntunum.

Filed Under: Eldhúsperlur

Lúxusfiskur með mangó chutney og rjómaosti

maí 4, 2020 by helenagunnarsd Leave a Comment

Gleðilegan 4. maí! Væri ekki dásamlega viðeigandi á þessum fallega degi að nostra aðeins við mánudagsmatinn og bjóða upp á fiskrétt sem allir munu elska? Mæli með þessum af öllu hjarta.

Lúxusfiskur með eplum, mangó chutney og rjómaosti (fyrir 3-4)

600 gr ýsa, þorskur eða annar hvítur fiskur skorinn í bita

2 dl rækjur (má sleppa)

2 gulrætur

1 púrrulaukur

1 rauð og 1 græn paprika

1 grænt epli

2 msk smjör

2 tsk gott karríduft

200 gr hreinn rjómaostur frá Gott í matinn

1 dós 18% sýrður rjómi

1 dl mangóchutney

Rifinn bragðmikill ostur, t.d. Óðalsostur

Paprikuduft, salt og pipar

Aðferð: Skerið fiskinn í passlega bita og kryddið með salti og pipar, leggið til hliðar. Saxið grænmetið og eplið í frekar smáa bita. Hitið pönnu á meðalhita og bræðið smjörið. Steikið grænmetið í smjörinu þar til það mýkist aðeins (geymið eplabitana). Bætið karríduftinu saman við og steikið það með í 1-2 mínútur. Bætið rjómaostinum, sýrða rjómanum og mangó chutney út á pönnuna og bræðið þetta saman. (Þynnið með örlitlu vatni ef ykkur finnst þetta of þykkt, en athugið að það kemur líka vökvi úr fiskinum þegar hann eldast.)

Dreifið eplunum og rækjunum yfir og hrærið saman. Smakkið til með salti og pipar. Leggið svo fiskinn ofan á sósuna og grænmetið og leyfið þessu að malla þar til fiskurinn er nánast eldaður í í gegn. Stráið þá osti yfir ásamt smá paprikudufti og stingið inn í ofn undir grill í 5 mínútur eða þar til osturinn er gullinnbrúnn. Stráið yfir saxaðri steinselju og berið fram með góðu salati og brauði eða hrísgrjónum. 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fiskréttur, Karrífiskur, Sparifiskur, Ýsuréttur

Döðlu og súkkulaðiterta með bananarjóma

apríl 23, 2020 by helenagunnarsd 4 Comments

Gleðilegt sumar! Ég gerði þessa dásamlegu tertu fyrir Gott í matinn vefinn fyrir páska og tel fulla ástæðu til að birta hana hér líka. Hún á fullt erindi við hvert tilefni. Uppskriftin hefur fylgt mér lengi og ég hef birt áður aðra útgáfu af henni hér inni, þá með jarðarberjarjóma.

Uppskriftin sem ég gef hér er fyrir tveggja hæða tertu, ef þið viljið gera stóra þriggja hæða tertu er uppskriftin margfölduð með 1,5 og bætt aðeins við rjómann sem fer á milli.

Döðlu- og súkkulaðibotnar:

4 stk.egg
100 gpúðursykur
100 gsykur
200 gdöðlur, saxaðar
200 gsúkkulaði, saxað
125 ghveiti

Bananarjómi:

4 dlrjómi frá Gott í matinn
1 stk.stór banani, stappaður

Súkkulaðikrem:

150 gsuðusúkkulaði
1 dlrjómi frá Gott í matinn
1 msk.síróp

Aðferð:

Döðlu- og súkkulaðibotnar

  • Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Tvö hringlaga form smurð vel og bökunarpappír settur í botninn. 
  • Döðlur og súkkulaði smátt saxað og hveitinu blandað saman við. 
  • Egg og sykur þeytt mjög vel saman þar til blandan er ljós og létt.
  • Hveiti, súkkulaði og döðlum blandað varlega saman við eggjablönduna með sleif. 
  • Hellt í formin og bakað í 15-20 mínútur. 
  • Kælt aðeins, svo losað úr formunum og svo kælt alveg.

Bananarjómi

  • Leggið annan botninn á kökudisk. 
  • Þeytið rjómann og blandið stöppuðum banananum saman við rjómann. 
  • Smyrjið ofan á botninn og leggið hinn botninn ofan á.

Súkkulaðikrem

  • Bræðið allt saman í potti við vægan hita. 
  • Kælið aðeins og hellið svo yfir. 
  • Dreifið úr kreminu þannig að það leki aðeins niður hliðarnar á tertunni. 
  • Skreytið með litlum páskaeggjabrotum og liltu súkkulaðifylltueggjunum frá Cadbury.
  • Geymið tertuna í ísskáp í 2-3 klst. áður en hún er borin fram.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Afmæliskaka, Döðluterta, Rjómaterta, Súkkulaðikaka

Súkkulaðikossar með Baileyskremi..

nóvember 3, 2019 by helenagunnarsd Leave a Comment

Það er löngu komin á sú hefð að prófa að minnsta kosti eina nýja smákökuuppskrift í aðdraganda aðventu. Þessar dúllur hittu lóðbeint í mark og eru jafn dásamlegar og þær hljóma. Athugið að ef þið vijlið getið þið vel sleppt því að nota Baileys í uppskriftina og notað í staðin rjóma. Það er alls ekki síðra.

  • 150 gr mjúkt smjör
  • 200 gr sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanilluextract
  • 160 gr hveiti
  • 60 gr kakó
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 3 msk Baileys líkjör (eða rjómi)

Aðferð:

  1. Ofn hitaður í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Smjör og sykur þeytt mjög vel saman þar til ljóst og létt. Eggin fara út í og þeytt vel saman.
  2. Hveiti, kakó, salti og matarsóda blandað saman og bætt út í ásamt Baileys eða rjóma og blandað saman í deig og kælt í ísskáp í 10-15 mínútur.
  3. Deigið sett með tveimur teskeiðum á ofnplötu. Úr þessari uppskrift næ ég um það bil 60 kökum og miða við að setja 20 kökur á hverja ofnplötu.
  4. Bakið kökurnar í 7-9 mínútur. Takið út og kælið. Athugið að kökurnar eiga að vera mjúkar en ekki stökkar.

Baileys smjörkrem

  • 150 gr mjúkt smjör
  • 200 gr flórsykur
  • 80 ml Baileys (eða 80 ml rjómi og 1 msk kakó)
  • 1 tsk vanilluextract

Aðferð:

  1. Smjör þeytt mjög vel þar til ljóst og létt.
  2. Flórsykur fer út í og þetta þeytt aftur mjög vel saman. Kremið á að vera létt og loftmikið.
  3. Hellið Baileys og vanillu saman við á meðan þið þeytið, skafið vel hliðarnar og þeytið vel áfram.
  4. Sprautið kreminu á helminginn af kökunum og leggið köku ofan á til að mynda samloku.
  5. Kökurnar geymast vel í lokuðu íláti í ísskáp í nokkra daga en geymast líka mjög vel í frysti.

Endilega fylgið með mér á Instagram: @helenagunnarsd – og taggið mig ef þið prófið Eldhúsperlur í ykkar eldhúsi!

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baileyskökur, Bakstur, Bestu smákökurnar, Jólabakstur, Smákökur, Súkkulaðikökur

Þrefaldar súkkulaði brúnkur

mars 23, 2019 by helenagunnarsd Leave a Comment

Internetið inniheldur engan veginn nógu margar uppskriftir af brúnkum svo ég tel það skyldu mína að bæta í safnið enda alltaf rými til að gera gott enn betra. Ég vil hafa þessa dásamlegu súkkulaðiköku vel mjúka og djúsí svo það gildir alls ekki að baka hana alveg í gegn, þá missir hún allan sjarma. Formið sem ég nota í þessa uppskrift er 20x20cm og ég bakaði hana í akkúrat 30 mínútur.. Ef þið setjið kökuna í stærra form, t.d. skúffukökuform sem er 20x30cm þarf að baka hana aðeins skemur. Nú skulum við öll sameinast og baka þessa dásemd því lífið er of stutt til að sleppa því!

  • 175 gr smjör
  • 175 gr dökkt 70% súkkulaði
  • 3 stór egg
  • 250 gr sykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 85 gr hveiti
  • 75 gr mjólkursúkkulaði, saxað
  • 75 gr hvítt súkkulaði, saxað
  • Dálítið sjávarsalt í flögum

Aðferð:

Hitið ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Bræðið saman smjör og súkkulaði. Setjið til hliðar og leyfið að kólna aðeins.

Pískið saman egg og sykur þar til blandan verður aðeins ljósari og sykurinn leysist upp. Nóg að píska með höndunum í 1-2 mínútur. Bætið vanillu út í ásamt súkkulaðiblöndunni og hrærið vel saman.

Sigtið hveitið saman við og blandið varlega saman við ásamt súkkulaðibitunum. Hellið í 20×20 cm form sem hefur verið klætt með bökunarpappír og bakið í 30-35 mínútur.

Kakan á að vera aðeins blaut í miðjunni þegar tekin úr ofninum. Leyfið að kólna í amk 30 mínútur áður en þið skerið kökuna.

Filed Under: Eldhúsperlur

Epla skúffukaka

febrúar 16, 2019 by helenagunnarsd 1 Comment

Ég lá í flensu á dögunum og til að stytta mér stundir datt ég inn í Great British Bakeoff á Stöðtvö Maraþon. Þvílíkir snilldar þættir! Fullkomið raunveruleikasjónvarp, samt laust við allt dramað sem fylgir oft svipuðum bandarískum þáttum. Ég mæli eindregið með þeim. Hið óhjákvæmilega þegar ég horfi á svona þætti er samt að eftir hvern þátt fyllist ég mikilli löngun í að baka.. Sem hefur vissulega sína kosti og galla. En þessi dásamlega mjúka eplakaka fékk semsagt innblástur frá þáttunum góðu, og því tilefni að maðurinn minn átti afmæli. Uppskriftin er upprunalega frá Mary Berry, dómara í British Bakeoff, og Helgu Sig þeirra Breta, en með smá tilfærslum. Vona að þið prófið og njótið.

Epla skúffukaka

  • 400 gr græn epli, skræluð og skorin í þunnar sneiðar (ég notaði tvö stór epli)
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 2 msk kanilsykur
  • 250 gr mjúkt smjör
  • 200 gr ljós púðursykur (eða hvítur sykur og dökkur púðursykur til helminga)
  • 4 egg
  • 250 gr hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk kanill
  • 1 dl mjólk

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Setjið eplasneiðarnar í skál, kreistið sítrónusafa yfir þær og stráið einni matskeið af kanilsykri yfir. Setjið til hliðar. Þeytið saman smjör og sykur þar til ljóst og létt og bætið eggjunum einu í einu út í og þeytið vel á milli. Pískið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti og kanil og bætið út í smjörblönduna ásamt mjólkinni. Hrærið vel saman en gætið þess að hræra ekki of lengi.

Smyrjið skúffukökuform að innan eða þekjið með smjörpappír. Setjið helminginn af deiginu í botninn og dreifið vel út því, raðið helmingnum af eplasneiðunum yfir. Setjið svo restina af deiginu yfir eplin og dreifið vel úr. Raðið að lokum eplum yfir og stráið 1 msk af kanilsykri yfir allt. Bakið í 30-40 mínútur eða þar til prjóni stungið í miðja kökuna kemur hreinn upp og eplin eru orðin mjúk. Sigtið dálítinn flórsykur yfir kökuna þegar hún hefur kólnað aðeins, berið fram volga með þeyttum rjóma.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bakstur, Eplakaka, Eplapæ, Eplaskúffa, Kanilkaka, Skúffukaka, Sunnudagskaka

Tælensk núðlusúpa með kókos og rauðu karrý

febrúar 10, 2019 by helenagunnarsd Leave a Comment

Hér er á ferðinni mikil uppáhalds súpa. Hún rífur vel í og er upplagt að bjóða kvef- og flensuhausum upp á hana enda inniheldur hún ríflegt magn af chilli, engifer og hvítlauk. Ég nota einnig vel af kóríander í súpuna en honum má alveg sleppa fyrir kóríanderhatarana þarna úti, það er líka mjög gott að nota ferskt basil í staðin. Ég hvet ykkur til að prófa þessa!

Tælensk núðlusúpa með kókos og rauðu karrý (fyrir 5)

  • 2 msk rifið eða smátt saxað engifer
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða rifin
  • 1 msk chillimauk, t.d. Sambal oelek (má minnka magnið..)
  • 1 msk red curry paste
  • 1 búnt kóríander, stilkar/neðri helmingur skorinn frá og smátt saxað, blöð geymd þar til síðar
  • 1 msk púðursykur
  • 1 laukur, skorinn í strimla
  • 800 ml kókosmjólk (2 dósir eða fernur)
  • 1,5 l vatn
  • 2 msk kjúklinga- eða grænmetiskraftur
  • 1 límóna, safinn
  • 3 kjúklingabringur, skornar í þunna strimla
  • 100-150 gr þurrkaðar eggjanúðlur
  • Salt og pipar
  • Olía til steikingar, ég nota kókosolíu í þessa súpu.

Aðferð: Setjið 2 msk af olíu í stóran pott, steikið hvítlauk, engifer, chillimauk og curry paste í 1-2 mínútur, Bætið þá smátt söxuðum kóríander út í ásamt púðursykri og lauknum og steikið aðeins áfram. Hellið kókosmjólk og vatni saman við, hleypið upp suðu og kryddið með grænmetis- og/eða kjúklingakrafi, salti og pipar og kreistið safann úr límónunni út í.

Smakkið ykkur áfram með salti, pipar, chillimauki og krafti þar til súpan er eins og þið viljið hafa hana. Setjið kjúklinastrimlana hráa út í súpuna og látið sjóða í 5 mínútur, bætið þá núðlunum út í og sjóðið eins og þarf þar til þær eru eldaðar í gegn. Berið fram með ferskum kóríander og límónubátum.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Engifer, núðlusúpa, Rautt karrý, sterk súpa, súpa fyrir veislu, Tælensk súpa

La mousse au chocolat – Hin fullkomna súkkulaðimús

desember 27, 2018 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_5449Ég kann ekki frönsku, bara svo það sé á hreinu. En þar sem eiginmaður minn var svo elskulegur að gefa mér nýlega The art of French cooking eftir Juliu Child hefur mig undanfarna daga dreymt um að tala frönsku. Bókin, sem er í tveimur bindum, er einstaklega fallega sett upp og uppskriftirnar bera allar franska titla, mér til mikillar gleði. Mikið óskaplega hljómar matur á frönsku fallega. Þessi frönsku ást mín hefur verið mér innblástur í eldhúsinu undanfarið þar sem einfaldleiki og klassík hefur svolítið ráðið ríkjum.

Í miðri franskri vímunni á dögunum datt ég svo inn á ákaflega girnilegt franskt matarblogg sem heitir Mais pourquoi est-ce que je vous raconte ça.. Dorian Cuisine.com. Þar má finna afar fallegar matarmyndir og uppskriftir sem flestar eru mjög einfaldar en alveg ofboðslega girnilegar. Það var einmitt þar sem ég rak augun í þessa súkkulaðimús.. og ég varð að prófa (svo var búið að þýða uppskriftina yfir á ensku svo ég þurfti ekki einu sinni google translate). Einfaldleikinn er í fyrirrúmi í þessari klassísku súkkulaðimús sem er draumi líkust svo góð er hún. Ef þið viljið slá í gegn í næsta matarboði er þessi sennilega lykillinn að því og ég held svei mér þá að hún sé örugglega besta mús sem ég hef smakkað.

La mousse au chocolat:

  • 240 gr dökkt súkkulaði (ég mæli með að nota suðusúkkulaði og gott 70% súkkulaði til helminga)
  • 60 gr smjör
  • 4 eggjarauður
  • 6 eggjahvítur
  • 60 gr sykur

Aðferð: Bræðið súkkulaðið og smjörið í potti yfir mjög vægum hita eða í skál yfir vatnsbaði. Takið af hitanum og hrærið eggjarauðunum saman við. Hrærið vel með sleif þannig að allt blandist vel saman. Þeytið eggjahvíturnar með sykrinum þar til stífþeyttar. Blandið þriðjungi af eggjahvítunum vel saman við súkkulaðiblönduna. Bætið þá restinni af eggjahvítunum saman við og blandið varlega saman við með sleif eða sleikju. Kælið í a.m.k tvær klukkustundir í ísskáp, helst yfir nótt. Berið fram t.d með þeyttum rjóma eða jarðarberjum eða hvorutveggja..min_IMG_5450

Filed Under: Eldhúsperlur, Uncategorized Tagged With: Auðveldur eftirréttur, eftirréttur, Súkkulaði uppskriftir, Súkkulaðimús

Klesstar súkkulaðibitakökur

desember 5, 2018 by helenagunnarsd Leave a Comment

Ég vissi ekki hvað ég átti að láta þessa færslu heita. Vissulega eru þetta bara ósköp venjulegar, en samt afar góðar súkkulaðibitakökur, en aðferðin við baksturinn eru tímamót skal ég segja ykkur og tryggir dásamlegar, seigar í miðjunni, stökkar í köntunum kökur sem við öll elskum og dáum. Það eru engin geimflaugavísindi á bakvið aðferðina heldur snýst hún bara um að lyfta plötunni einu sinni til tvisvar á bökunartímanum og láta hana detta niður þannig að kökurnar falli. Þvert á allt sem okkur hefur verið kennt í bakstri. Þannig gulltryggir maður að kökurnar verði mjúkar í miðjunni og þunnar, að því gefnu að maður ofbaki þær ekki. Það er alveg bannað. Útkoman á kökunum verður einnig betri ef þær eru hafðar í stærri kantinum en ekki í brjóstsykursmolastærð eins og amma gerði alltaf. Ég hvet ykkur til að prófa þessar!

Klesstar súkkulaðibitakökur

  • 250 gr hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 225 gr smjör, mjúkt 
  • 250 gr sykur
  • 50 gr púðursykur
  • 2  egg
  • 2 tsk vanillu extract (eða vanilludropar)
  • 250 gr dökkt súkkulaði, gróft saxað eða súkkulaðidropar (og um 100 gr að auki til að dreifa yfir fyrir bakstur)

Aðferð:

Pískið saman hveiti, matarsóda og salti.

Þeytið smjörið og sykurinn þar til ljóst og létt. Bætið þá eggjunum út í ásamt vanillunni og þeytið vel saman.

Hellið hveitiblöndunni saman við og hrærið varlega saman.

Setjið súkkulaðibitana (250 gr) saman við og blandið öllu vel saman.

Setjið deigið í skál, plastfilmu yfir og inn í ísskáp í amk 1 klst. Deigið geymist vel í ísskáp í 1-2 daga en það má líka frysta í lengjum.

Hitið ofn í 190 gráður eða 170 gráður með blæstri.

Takið deigið úr ísskápnum og gerið vænar kúlur úr rúmlega 1 msk af deiginu með góðu millibili. Best er að baka kökurnar kaldar, eða beint úr ísskáp. Dreifið aðeins meira súkkulaði yfir og bakið í 5-7 mínútur eða þar til kökurnar eru byrjaðar að lyfta sér í miðjunni.

Takið þá í plötuna og lyftið henni örlítið upp og látið detta aftur niður í grindina þannig að kökurnar falli. Bakið áfram í 2-3 mínútur og endurtakið þá leikinn. Bakið í 1-2 mínútur til viðbótar eða þar til kökurnar eru fallega gylltar í köntunum en ennþá vel mjúkar í miðjunni. Endið á að láta plötuna detta einu sinni þegar þið takið kökurnar út. Ég setti svo aðeins meira súkkulaði yfir kökurnar þegar þær komu úr ofninum og voru enn heitar. Aðallega gert fyrir myndatökuna og þarf ekki 🙂

Færið og grind og kælið.

  • Ef deigið er fryst í lengjum má skera það í sneiðar og baka beint úr frystinum. Þá þarf að bæta 3-4 mínútum við bökunartímann.

Filed Under: Eldhúsperlur

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Page 2
  • Page 3
  • Page 4
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme