Ég fæ flestar mínar hugmyndir gegnum matarblogg og uppskriftabækur. Hvað varðar innblástur og það sem ég elda svona dags daglega má að mestu leyti rekja til mömmu sem er snilldarkokkur. Ég var svona krakki sem þurfti að slá á puttana á við eldhúsbekkinn til þess að þeir lentu ekki hreint og beint undir hnífunum þegar mamma var að malla eitthvað, sumsé afar viljug þegar kom að því að aðstoða í eldhúsinu. Í seinni tíð hef ég farið að skoða mikið heimasíður, matarblogg, matreiðslubækur og blöð ásamt því að horfa á matreiðsluþætti. Þessi listi er svona það sem ég skoða hvað oftast eða eitthvað sem ég hef ratað á í rælni og fundist stórsniðugt. Listinn mun breytast og bætast með tíða og tíma.
Matarblogg og heimasíður:
- The Pioneer Woman – Fyrsta matarbloggið sem ég byrjaði að skoða og þá var ekki aftur snúið. Rómantísk Suðurríkja sveitastemming í hámarki!
- Simply Scratch – Einfaldar og góðar uppskriftir með fallegum myndum skref fyrir skref.
- Eldað í Vesturheimi – Fallegt íslenskt blogg sem gefur manni smá innsýn í lífið í New York.
- Konan sem kyndir ofninn sinn – Nanna Rögnvaldar. Klassískur snillingur og það þarf ekki fleiri orð um það. Lærði að baka brauð af þessari síðu en var gjörsamlega ófær um gerbakstur áður.
- Martha Stewart – Flest allar uppskrftir þarna inni eru margprófaðar og skotheldar. Hefur aldrei klikkað hjá mér að kíkja þarna inn ef mig vantar einhverja sérstaka uppskrift og þá sérstaklega þegar kemur að bakstri.
- Joy Of Baking – Algjörlega frábær síða með kennslumyndböndum. Ekki kannski sú nútímalegasta en þessi kennir þér að baka á no time!
- Bake at 350 – Skoða þessa reglulega. Hef reyndar ekki bakað eða eldað neitt af henni en maður minn hvað þessi kona gerir fallegar smákökur. Skrollið niður og skoðið dýrðina.
- Bakerella – Það mætti halda að ég væri algjör bakari og hefði gaman að því að dunda mér við að skreyta smákökur og föndra kökupinna. En svo er ekki! Þetta er samt kökupinnadrottning þeirra Bandaríkjamanna og ég hef agalega gaman af að skoða það sem hún gerir sem er listaverkum líkast.
- Smitten Kitchen – Fallegar myndir og góður matur.
- Joy the Baker – Ein af mínum uppáhalds. Mjög frumlegt og flott, þessi kona gaf líka út matreiðslubók árið 2012 sem er á lista hjá mér yfir bækur sem ég þyrfti endilega að eignast.
- Picky Palate – Ýmislegt sniðugt þarna, aðallega heimilismatur og bakstur. Skrifað af hinni svo mikið amerísku Jenny Flake.
- Ina Garten – Barefoot Contessa. Held að ég geti fullyrt að allar uppskriftir sem þessi kona sendir frá sér eru algjörlega fullkomnar og margprófaðar. Hún er líka ansi nákvæm svo það er auðvelt fyrir alla að fylgja uppskriftunum hennar og fá góða útkomu. Það má nálgast margar uppskrifta hennar á foodnetwork.com undir Barefoot Contessa.
- The Italian Dish – Ítalskur matur í hæsta gæðaflokki eldaður af bandarískri konu af ítölskum uppruna. Svei mér þá ef mér líst ekki vel á hverja einustu uppskrift þarna inni og ekki skemmir fyrir hvað myndirnar hennar eru ofur fallegar. Hver elskar ekki ítalskan mat?
- What Katie ate – Er með algjört æði fyrir þessari síðu. Þarna eru einhverjar fallegustu matarmyndir og ljósmyndir sem ég hef séð ásamt fallegum texta og snilldar uppskriftum. Snillingur þessi kona!
- Mais pourquoi est-ce que je vous raconte ça… – Rakst á þetta franska og fallega matarblogg um daginn og varð hugfangin! Matarbloggið heitir, lauslega þýtt yfir á íslensku: ”En hvers vegna er ég að segja ykkur þetta..”. Ég tala ekki frönsku og skil eiginlega ekki neitt heldur en maður minn hvað matur á frönsku er fallegur. Mig dreymir um að tala frönsku og ferðast um sveitir Suður Frakklands, drekka góð vín og borða alvöru heiðarlegan mat. Ég hef prófað uppskriftir af þessum bloggi, sem eru hver annarri betri. Uppáhalds uppskriftin mín er La mousse au chocolat. Besta súkkulaðimús sem ég hef smakkað.
Nokkrar uppáhalds matreiðslubækur: