Já, þetta brauð er bara brauð-IÐ. Ég hef gert margar tilraunir gegnum árin til að baka brauð, úr geri. Þó ég geri alls ekki mikið af því langar mig samt að geta það skiljiði? Fólk er að baka gerbrauð hérna hægri vinstri og gerir það með einari. Af hverju gat ég það ekki líka? Ég hef boðið fólki í mat og gefið því brauðbollur með matnum sem hefðu sómað sér vel sem tennisboltar. Þið sem borðuð þær, þið vitið hver þið eruð. Þetta var eitthvað svona bullandi flókið brauð sem þurfti að hnoða og hnoða og það var hveiti út um ALLT í eldhúsinu. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki hrifin af svoleiðis óreiðu. Nei ég þurfti eitthvað einfalt sem virkaði bara.
Ég rakst svo sumsé á þessa aðferð/uppskrift á síðunni hennar Nönnu Rögnvaldar fyrir nokkru síðan. Þetta hefur bjargað orðspori mínu þegar kemur að gerbakstri og allir sem smakka þetta halda að maður sé klárari en Jói Fel. Barn gæti bakað þetta, svo einfalt er það, barn getur líka borðað mikið af því, því svo gott er það. Ekkert hnoð bull og hveiti út um allt og það þarf ekki að baka þetta í einhverjum forláta potti. Þetta er einfalt og virkar, ég lofa. Ég hef gert ýmislegt úr þessari uppskrift, venjulegt brauð, baguette, bollur, pizzabotn og meira að segja brauðbollukarl í 4 ára afmæli sonar míns.
Þessi aðferð að brauðbakstri gengur líka undir nafninu ”Artisan Bread in Five Minutes a Day”. og ef þið smellið á þennan link getið þið horft á indælisfólk gera svona brauð og séð hvað það er einfalt. Grunn uppskriftin er bara með hvítu venjulegu hveiti. Það er best að æfa sig bara á því eins og Nanna segir og þegar maður er kominn með lag á því má fara að breyta um korntegund og bæta við t.d fræjum og einhverri svoleiðis hollustu.
Uppskrift:
- 1 kg hveiti
- 1,5 msk ger
- 1,5 msk salt
- 750 ml vel volgt vatn
Athugið að þetta er stór uppskrift sem er auðveldlega hægt að helminga.
Allt hrært saman í stórri skál með sleif þar til maður er með þykkt en frekar blautt og klístrað deig og mest allt hveitið er horfið inn í deigið. Leggið viskastykki eða plastfilmu lauslega yfir og látið lyfta sér við stofuhita í tvo tíma. Að þeim tíma loknum má taka af því og baka eða geyma í ísskáp allt að tvær vikur og taka af því þegar þig langar að baka. Deigið er þá bara mótað, með vel hveitistráðum höndum eins og maður vill og það svo látið lyfta sér í hálftíma. Eftir þennann hálftíma skar ég í þessu tilfelli kross í brauðið svo það myndi lyfta sér betur í ofninum. Á meðan er ofninn hitaður í 220 gráður. Það er gott að horfa myndbandið á youtube, en galdurinn bakvið góðu skorpuna er að hafa fat með sjóðandi heitu vatni í botninum á ofninum.
Baksturstíminn fer svo nokkuð eftir stærð brauðsins. Þetta brauð tók um 30 mínútur að bakast og ég baka það bara á venjulegri bökunarpappírsklæddri bökunarplötu sem ég leyfi að hitna inni í ofninum meðan brauðið lyftir sér. Athugið að það er nauðsynlegt að leyfa brauðinu að standa og jafna sig við stofuhita í um það bil 15 mínutur eða lengur áður en það er skorið.