Ég hef beðið dálítið lengi með að deila þessari uppskrift. Ástæðan er eiginlega bara sú að mér þykir þessi baka svo sparileg, dásamlega góð og sumarleg að ég hugsaði með mér að það væri fátt meira við hæfi en að deila uppskriftinni að henni í aðdraganda 17. júní. Hún er nú einu sinni í fánalitunum. Eða svona því sem næst. Bakan er alls ekki flókin en það tekur smá tíma og þolinmæði að gera hana. Þolinmæðin felst þó aðallega í biðinni eftir því að geta smakkað hana.
Uppskriftin sem ég studdist við er komin frá Andy nokkrum Bates sem hefur í nokkuð langan tíma verið með þætti á Food Network sem bera heitið ”Street Kitchen”. Virkilega skemmtilegir þættir þar sem Andy heimsækir ýmsa staði á Bretlandi og í Bandaríkjunum þar sem borinn er fram skyndibiti með þvílíkum metnaði úr úrvals hráefnum. Andy endar svo oftast þættina á því að elda sjálfur eitthvað ómótstæðilega girnilegt. Eins og þessa fallegu böku. Í upprunalegu uppskriftinni notar Andy eingöngu hindber ofan á bökuna, það er þó alveg hægt að nota þau ber sem hendi eru næst. Íslensku hindberin sem fást nú eru til dæmis alveg tilvalin ofan á og vel þess virði að fjárfesta í því góðgæti. Þau eru ólýsanlega góð! Ég mæli sterklega með því að þið prófið þessa himnesku sumarböku sem allra fyrst. Þó ekki væri nema bara til að fagna 17. júní með stæl!
Hvít súkkulaðibaka með ferskum berjum (lítillega breytt uppskrift frá Andy Bates):
-
Bökuskel:
- 260 g hveiti eða fínmalað spelt
- 85 gr flórsykur
- Örlítið salt
- 150 gr kalt smjör
- 1 egg
- 1 eggjarauða
-
Fylling:
- 300 gr hvítt súkkulaði
- 300 ml rjómi
- 60 ml mjólk
- 1 vanillustöng
- 2 egg
- 2 bakkar hindber og 1 bakki bláber (ca. 500 gr af berjum)
- Flórsykur til að sigta yfir
– Ég nota lausbotna 30 cm bökuform.
– Hægt er að útbúa bökuskelina með góðum fyrirvara t.d daginn áður og geyma óbakaða í ísskáp.
Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Vinnið allt innihaldið í bökuskelina nema eggið og eggjarauðuna saman með höndunum eða í hrærivél þannig að deigið líkist rökum sandi. Setjið eggið og eggjarauðuna saman við og hrærið létt þar til deigið rétt loðir saman. Ekki vinna deigið of lengi. Búið til flatan disk úr deiginu og pakkið því inn í plastfilmu og geymið í ísskáp í 30 mínútur. (Ég lét deigið ekki vera nógu lengi í ísskápnum svo það var dálítið lint, ekki gera eins og ég). Takið deigið þá út og fletjið út milli tveggja smjörpappírsarka eða á hveitistráðu borði. Leggið deigið því næst í bökumótið og þrýstið því vel út í kantana. Snyrtið auka deig í burtu t.d með því að rúlla kökukefli yfir bökumótið. Leggið smjörpappír á deigið og hellið hrísgrjónum eða baunum yfir. Þetta er gert til þess að bökuskelin lyfti sér ekki þegar hún er bökuð. Bakið deigskelina í 15 mínútur. Á meðan deigskelin er að bakast saxið súkkulaðið frekar smátt. Hellið þá rjómanum og mjólkinni ásamt kornunum úr einni vanillustöng í pott og hitið upp að suðu. Þegar froða byrjar að myndast hliðunum og mjólkin er alveg að fara að sjóða slökkvið undir. Hellið rjómanum svo yfir saxað súkkulaðið í gegnum sigti og hrærið saman þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Leyfið þessu að kólna í fimm mínútur. Hrærið eggin saman og hellið þeim svo út í súkkulaði blönduna og blandið vel saman. Takið bökuskelina úr ofninum og lækkið hitann í 160 gráður. Hellið fyllingunni varlega í bökuna. Það er gott að hafa bökuformið á ofnplötu svo auðveldara sé að flytja bökuna inn í ofn án þess að sulla upp úr. Setjið inn í ofn og bakið í 45 mínútur. Takið úr ofninum og leyfið að kólna í a.m.k klukkustund við stofuhita eða lengur í ísskáp. Takið bökuna úr forminu, skreytið með bláberjum og hindberjum og sigtið örlítinn flórsykur yfir.