Á haustin þykir mér fátt betra en að elda úr íslensku ný uppteknu grænmeti. Verslanir eru nú fullar af þessu góðgæti og það ætti enginn að láta fram hjá sér fara að njóta þess að útbúa hollan og góðan mat úr þessu frábæra hráefni. Það er varla hægt að líkja bragðinu af íslensku blómkáli og brokkolíi við það innflutta, að ég tali nú ekki um íslensku gulræturnar. Það er miklu auðveldara að gera svona böku en það lítur út fyrir að vera, alveg satt. Og ég segi þetta af því að einu sinni gerði ég aldrei bökur því ég hélt að ég gæti það ekki (lesist: nennti því ekki). Það er til dæmis ekkert flóknara að gera góða böku heldur en pizzu og það eru nú fjölmargir færir um að gera ansi góðar pizzur. Ég mæli eindregið með því að þið prófið þessa böku kæru vinir. Þetta er svona ekta haust matur, frábært að bera bökuna fram með góðu salati og kaldri sósu og þá er maður kominn með þessa fínu máltíð. Bökur geymast líka afbragsðvel í frysti, hitast vel upp og því upplagðar í nesti.
Botn:
- 250 gr spelt (Ég nota 150 gr. gróft og 100 gr. fínt)
- 100 gr kalt smjör
- 1/2 – 1 dl heitt vatn
- 1/2 tsk salt
Aðferð: Skerið smjörið í litla teninga, vinnið allt nema vatnið saman með höndunum þannig að úr verði sandkennd mylsna. Bætið vatninu smám saman út í og vinnið áfram með höndunum þar til deigið loðir vel saman án þess að vera klístrað. Leggið deigið á hveitistráð borð og fletjið út þannig að það nái að þekja botn og hliðar á forminu sem þið notið. Athugið að til þess að auðveldara sé að ná bökunni af botninum er sniðugt að hvolfa botninum á forminu við, sumsé snúa honum öfugt þannig að hægt sé að renna bökunni af botninum.Þrýstið deiginu vel í formið og pikkið botninn með gaffli. Ég notaði 28 cm lausbotna smelluform. Hitið ofninn í 180 gráður og bakið botninn í 10 mínútur.
Fylling:
- 3-4 gulrætur
- 1/2 blómkálshöfuð
- 1 lítið brokkolíhöfuð
- 1/2 sæt kartafla
- 2 hvítauksrif
- 1 msk olía og 1 msk smjör
- 6 egg
- 1 peli rjómi eða matreiðslurjómi (2.5 dl)
- 1 msk dijon sinnep
- 2 msk smátt söxuð steinselja
- 1 tsk salt
- 1 tsk pipar
- 1 væn lúka rifinn parmesan
- 1/2 fetakubbur, ca. 125 grömm
- 1 dl furuhnetur
Aðferð: Flysjið sætu kartöfluna og skerið í litla teninga. Skerið gulræturnar, blómkálið og brokkolíið í svipað stóra bita. Hitið pönnu við meðalhita og setjið á hana olíu og smjör. Steikið grænmetið í 10 mínútur þar til það hefur aðeins tekið á sig lit. Bætið þa smátt söxuðum hvítlauk á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur. Setjið þá lok á pönnuna, lækkið hitann og leyfið grænmetinu að malla aðeins undir lokinu þar til það er orðið nokkuð mjúkt. Hrærið saman eggin, rjómann, sinnep, parmesan, steinselju, salt og pipar og setjið til hliðar. Hellið grænmetinu yfir bökubotninn.Myljið helminginn af fetaostinum yfir.Hellið því næst eggja- rjómablöndunni yfir. Myljið restina af fetaostinum yfir og stráið yfir furuhnetunum. Bakið í 40 mínútur við 170-180 gráður, frekar neðarlega í ofni. Leyfið bökunni að standa í 15 mínútur. Losið hana þá út forminu og færið varlega yfir á stóran disk.