Horfði í gærkvöldi á myndina Julie og Julia á RÚV, yndisleg mynd sem ég get horft á aftur og aftur. Mundi þá eftir þessari uppskrift/aðferð sem ég skrifaði niður fyrr í haust og ætlaði alltaf að setja hérna inn en ekkert varð úr því. Hérna kemur hún allavega núna.
Verandi í námi bý ég svo vel að þurfa ekki alltaf að flýta mér út á morgnana. Stundum get ég verið heima við að vinna og hefur það einmitt verið svoleiðis undanfarin misseri þegar tvær ritgerðir voru í smíðum ásamt öðrum verkefnum og því nauðsynlegt að byrja daginn vel. Ég horfði einu sinni á myndband á Youtube þar sem Julia Child kennir snilldina sem býr að baki hinni fullkomnu eggjaköku og ég hef notast við þá aðferð síðan
Ég gríp oft í þessa klassísku eggjaköku á morgnana þegar tíminn er með mér og ég þarf ekki að hlaupa út í loftköstum. Hún er reyndar svo fljótleg að ég væri alveg til í að fara í keppni við einhvern sem fengi sér ristað brauð og er sannfærð um að ég myndi vinna! Eggin sjálf eru í 30 sekúndur að eldast og undirbúningurinn tekur kannski 2 mínútur. Í rauninni er þetta svo einfalt að það er varla hægt að kalla þetta uppskrift.. meira svona aðferð.
Það þarf:
- 2 egg
- 1 msk af vatni
- Salt og pipar
- 1 tómatur
- Smávegis af rifnum mozzarella
- 1 tsk smjör eða 1 tsk olía
Aðferð:
Eggin brotin í skál og hrærð saman með gaffli. Vatni bætt út í ásamt salti og pipar. Tómatur skorinn í smáa teninga.
Pannan hituð, ég set á hitastig 8 af 10 og leyfi pönnunni að hitna vel. Set þá smjörið eða olíuna á, leyfi að hitna í augnablik og helli eggjunum því næst á pönnuna. Ég leyfi eggjunum að bíða í ca. 10 sekúndur óhreyfðum á pönnunni og byrja þá að hrista pönnuna létt. Strái ostinum og tómötunum yfir og held áfram að hrista þar til eggjakakan brotnar saman (eins og í myndbandinu). Svo er að sjálfsögðu hægt að setja það sem maður vill inn í eggjakökuna eða hafa hana bara án fyllingar.
Þetta ferli tekur í heildina innan við eina mínútu og útkoman er ein besta ommeletta sem þið hafið smakkað. Bon Appetit!