Hvernig ég gat gleymt að deila með ykkur yndislegu innbökuðu frönsku lauksúpunni sem ég eldaði fyrir Vikuna í haust, skil ég ekki. Ég hef eitthvað óvenju lítið verið í eldhúsinu undanfarna daga svo ég gladdist innilega þegar ég rakst á myndir af þessari dásemd á dögunum og er ákaflega glöð að geta nú, í uppskrifta skorti, sett inn þessa fínu uppskrift. Það eru til ótal útgáfur og tegundir af lauksúpum og nei, ég er sannarlega enginn sérfræðingur í sögu lauksúpunnar eða hversu frönsk eða upprunaleg þessi uppskrift er. Ég hef prófað mig áfram oftar en ég hef tölu á þar sem lauksúpa er eitt af því besta sem við á heimilinu borðum. Ég man líka eins og það hafi gerst í gær þegar ég smakkaði franska innbakaða lauksúpu hjá mömmu í fyrsta skiptið og þá var ekki aftur snúið. Eftir margar tilraunir og lestur hefðbundinna sem og óhefðbundinna uppskrifta að franskri lauksúpu er ég komin niður á útgáfu sem ég er bara ansi ánægð með þó ég segi sjálf frá.
Galdurinn að baki góðri lauksúpu er í fyrsta lagi að hafa næga þolinmæði til að láta laukinn malla hægt og rólega þannig að hann verði sætur, mjúkur og gullinbrúnn. Hljómar vel ekki satt? Eftirleikurinn er svo tiltölulega einfaldur og um að gera að smakka sig áfram þar til súpan er akkúrat eins og þið viljið hafa hana. Þannig verður matur auðvitað bestur. Súpan er svo borin fram rjúkandi heit með góðu rauðvínsglasi við kertaljós. Bullandi rómantík! Ég myndi ekki hika við að gera þessa á bóndadaginn..
- 1 kg laukur, skorinn í tvennt og svo í þunnar sneiðar
- 2 lárviðarlauf
- 2-3 greinar ferskt timian eða 2 tsk þurrkað timian
- 50 gr smjör
- 2 msk hveiti
- 1 glas hvítvín
- 1,5 – 2 l kjötsoð (t.d vatn og nautakraftur, fer svolítið eftir því hversu þykka eða þunna þið viljið hafa súpuna)
- Salt og pipar
- 2-3 msk koníak (má sleppa en er virkilega gott.. og sparilegt)
- Brauð, t.d baguette skorið í frekar stóra teninga, gott að nota dagsgamalt eða frekar þurrt brauð.
- Rifinn Ísbúi eða annar bragðmikill ostur
Aðferð: Byrjið á að skera laukinn í sneiðar og bræða smjörið í stórum potti við meðalhita. Steikið laukinn í smjörinu og bætið timian og lárviðarlaufum út í. Kryddið með smá salti og pipar. Steikið þetta við lágan-meðalhita í u.þ.b 40 mínútur eða þar til laukurinn hefur minnkað um helming og er orðinn fallega brúnn og karamelliseraður. Bætið þá 2 msk af hveiti saman við og steikið í um 5 mínútur. Hellið þá hvítvíninu og soðinu saman við og hrærið vel í á meðan suðan er að koma upp.
Leyfið að malla í a.m.k 30 mínútur og smakkið til með salti og pipar og ef til vill örlitlu koníaki. Takið lárviðarlaufin upp úr. Hitið grillið í ofninum á hæsta styrk. Setjið súpuna í skálar og dreifið brauðteningunum yfir og vel af rifnum osti. Bakið undir grillinu þar til osturinn er bráðnaður og aðeins farinn að dökkna. Það má líka elda súpuna í eldföstum potti, dreifa brauðinu og ostinum beint yfir súpuna í pottinum og setja hann svo undir grillið. p.s. – minni á leikinn í færslunni hér fyrir neðan….