• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Góð súpa

Toscana súpa

ágúst 28, 2014 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_6480Mikið var nú gott að komast í eldhúsið aftur í rólegheitum, elda góðan mat og taka myndir. Ég verð hálf eirðarlaus ef það líður langur tími á milli svoleiðis dúllerís viðburða en tíminn hefur ekki verið mikill til slíks dundurs undanfarið. Ég var alsæl með útkomuna á þessari ljúffengu súpu. Súpan er (miðað við það sem ég hef lesið á öðrum bloggsíðum) upprunalega frá veitingastaðnum Olive Garden – ítalskri veitingastaðakeðju sem rekur nokkur hundruð veitingastaði víða um Bandaríkin. Hversu ítölsk veitingastaða keðjan er má nú deila um þar sem þar gætir vissulega bandarískra áhrifa. Veitingastaðirnir eru þó afar vinsælir og þessi súpa hefur um árabil verið einn af vinsælli réttum staðarins. min_IMG_6472Þessi útgáfa er þó aðeins breytt og aðlöguð að íslenskum aðstæðum þar sem eitt af aðal hráefnunum í upprunalegu uppskriftinni er ítölsk pylsa eða ”sausage”.. svoleiðis fíneri fékkst ekki hér síðast þegar ég gáði svo ég notaði einstaklega bragðgóðar grískar pylsur frá Kjarnafæði í staðinn sem kom vel út. Ég mæli með að þið skoðið úrvalið á pylsum í matvörubúð og prófið einhverjar nýjar og spennandi í þessa súpu. Eins er alltaf gaman að heimsækja Pylsumeistarann á Hrísateigi og prófa einhverja af gæðapylsunum þaðan. Þó ég leggi það nú ekki í vana minn að elda pylsur eða unnar kjötvörur reglulega má nú alveg gera einstaka undantekningar á því, það gerir regluna líka bara skemmtilegri. Þetta er algjör sparisúpa kæru vinir, og kannski ekki súpa sem maður myndi elda einu sinni í viku. En ég get næstum lofað að hún mun vekja lukku þar sem hún er borin á borð.

min_IMG_6474Toscana súpa (fyrir 6):

  • 150 gr beikon, smátt skorið
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 4 hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 350-400 gr góðar pylsur, t.d. grískar pylsur frá Kjarnafæði eða aðrar bragðmiklar pylsur, smátt skornar (tilvalið að kíkja t.d í Pylsumeistarann)
  • 500 gr kartöflur, skornar í tvennt og svo í sneiðar
  • 1 askja (ca. 15-18 stk) kirsjuberjatómatar, skornir í tvennt
  • 1 líter kjúklingasoð
  • 3 dl rjómi
  • 3-4 góðar lúkur af fersku spínati
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • Smávegis af fersku basil til að strá yfir að lokum

min_IMG_6461Aðferð: Byrjið á að hita stóran pott við meðalhita. Steikið beikonið þar til það er vel stökkt og færið þá upp á eldhúspappír. Steikið laukinn og hvítlaukinn í beikonfitunni (ef ykkur þykir of mikil fita af beikoninu hellið þá aðeins af henni). Bætið pylsunum út í og steikið þar til þær brúnast aðeins. Bætið þá kartöflusneiðunum og tómötunum út á og steikið aðeins áfram. Hellið soðinu og rjómanum yfir og hleypið suðunni upp. Smakkið til með salti og pipar og e.t.v kjúklingakrafti ef ykkur finnst þurfa. Sjóðið í um 10 mínútur eða þar til kartöflurnar hafa eldast í gegn. Bætið þá spínatinu út í og látið það sjóða með í um 2-3 mínútur. Berið fram strax með fersku basil og stráið stökku beikoninu yfir hverja skál.min_IMG_6483min_IMG_6470….Það meiddust engar risaeðlur við gerð þessarar súpu – þær voru bara staddar alveg óvart þarna í horninu.. 🙂

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta súpan, Besta súpuuppskriftin, Góð súpa, Góð súpa fyrir veislu, Góðar súpur, Rjómalöguð súpa, Súpur uppskriftir, Veislusúpa

Taco súpa

júní 12, 2014 by helenagunnarsd 20 Comments

min_IMG_5953Ef ég hef einhvern tímann sagt að súpur séu kjörinn vetrarmatur, sem ég hef örugglega gert, þá tek ég það til baka. Ég er hrifin af súpum allt árið um kring og fæ ekki nóg af að prófa nýjar útgáfur. Mér þykir þessi súpa meira að segja bara þræl sumarleg með þessum fallegu grænu og rauðu litum og ilmandi límónubátum. Þetta er svona maturinn sem ég elda þegar ég er kannski pínulítið stressuð og langar að slaka á í eldhúsinu og elda eitthvað rólegt og fallegt. Jafnast á við bestu íhugun að standa yfir gómsætri súpu, sjá hana umbreytast úr nokkrum hráefnum úr ísskápnum, smá kryddi og vatni yfir í þessa dásamlegu máltíð. Þessi tiltekna súpa er svona ”slá í gegn súpa”. Kjörin veislusúpa sem er auðvelt að gera mikið magn af og meðlætið gerir hana svo sparilega og sérstaka. Svo er hún auðvitað líka bara upplögð heima súpa fyrir fjölskylduna. Prófið þessa og leyfið mér að vita hvernig ykkur líkaði. Ég mæli innilega með henni!min_IMG_5961

Taco súpa:

  • 500 gr nautahakk
  • 2 rauðlaukar
  • 2 paprikur
  • 3 hvítkauksrif
  • 2 tómatar
  • 1 lítil sæt kartafla
  • 3 msk tacokrydd
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 krukka mild chunky salsa (350 gr)
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 l vatn
  • 2 msk rjómaostur, ég nota philadelphia light
  • 2 msk rjómi

min_IMG_5935Aðferð: Skerið rauðlauk, papriku og hvítlauk smátt. Hitið stóran pott og brúnið nautahakkið í pottinum. Bætið grænmetinu út í og látið krauma þar til það mýkist aðeins. Kryddið með tacokryddinu og setjið gróft skorna tómatana út í. Setjið salsasósuna, tómatpúrru, kjúklingatening og vatn út í og hleypið suðunni upp. Skerið sætu kartöfluna í litla teninga og bætið út í. Látið sjóða við hægan hita í 20-30 mínútur. Bætið þá rjómanum og rjómaostinum saman við og smakkið til með salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Mér finnst svo gott að stappa aðeins sætu kartöflurnar í súpunni með gamaldags kartöflustappara, áður en ég ber hana fram þá þykknar súpan aðeins. Súpan er góð strax, en enn betri daginn eftir svo það er upplagt að gera auka fyrir nestið eða í matinn seinna. Berið súpuna fram með meðlætinu góða og kreistið dálítinn límónusafa yfir hverja skál. Njótið í botn!

min_IMG_5965Meðlætið:

  • 5 tortillakökur
  • Avocado í bitum
  • Rifinn maríbó ostur
  • Smátt saxaður vorlaukur
  • Límónubátar

Page_1Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Staflið tortillakökunum upp, skerið í tvennt og svo í mjóar ræmur. Leggið á ofnplötu, dreifið örlítilli olíu yfir og sjávarsalti og blandið vel saman. Bakið í 15 mínútur og hrærið aðeins í kökunum einu sinni eða tvisvar yfir bökunartímann. Látið kólna og berið fram með súpunni. min_IMG_5955min_IMG_5963

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð súpa, kvöldmatur humgyndir, mexíkó súpa, mexíkósk súpa, Mexíkóskur matur, Ódýr matur, salsa súpa, Súpa, súpa fyrir marga, súpa fyrir veislu, taco súpa

Tælensk massaman súpa

febrúar 25, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5111…Og súpuæðið hjá undirritaðri heldur áfram. Massaman karrý er einhver besti matur sem ég veit um og undantekningarlítið verður hann massaman kallinn fyrir valinu þegar ég rek nefið inn á tælenska veitingastaði. Almennt þykir mér tælenskur matur bara alveg afskaplega góður og af hverju ég hef ekki farið til Tælands skil ég hreint ekki. Það er þó ansi ofarlega á óskalistanum og verður vonandi af því einhvern daginn. Það var svo á dögunum að ég fór í mat til vinkonu minnar sem eldaði fyrir okkur alveg dásamlega gott massaman karrý. Ég hef eiginlega verið að hugsa um það síðan svo það varð innblásturinn að þessari stórgóðu massaman karrý súpu. min_IMG_5110Ég mæli með því að næla sér í gott massaman karrý mauk, það besta væri auðvitað að búa það til sjálfur en við skulum bara vera raunsæ hérna. Ég keypti það sem ég notaði í súpuna í tælensku búðinni við Hlemm en ég veit að það fæst líka mjög gott karrýmauk í Kolaportinu og örugglega víðar. Svo er svona mauk vissulega til líka í einhverjum stórmörkuðum. En heimsókn í tælensku búðina á Hlemmi, að ég tali nú ekki um í Kolaportið er svo skemmtileg að það ætti enginn að láta það hrindra sig í að búa súpuna til. En jæja, að uppskriftinni. Eins og með svo margar súpur er um að gera að nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég átti til dæmis afgang af grilluðum kjúklingi eins og þessum hér, með bökuðum gulrótum. Svo átti ég lítið blómkálshöfuð í grænmetisskúffunni ásamt lauk og hvítlauk og kjúklingabaunadós í búrskápnum. Tiltölulega ódýr hráefni sem breyttust í þessa afar ljúffengu máltíð.

min_IMG_5101Tælensk massaman súpa (fyrir 4):

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk kókosolía eða önnur matarolía
  • 4 vænar msk massaman karrýmauk (meira ef þið viljið sterkari súpu)
  • 2 msk hrásykur
  • 2 kjúklingabringur skornar smátt eða t.d afgangur af elduðum kjúklingi
  • 1 lítið blómkálshöfuð
  • 1-2 Gulrætur eða það grænmeti sem til er
  • 2 dósir kókosmjólk + 1 l vatn (meira vatn ef þið viljið þynnri súpu)
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 msk sojasósa

Aðferð: Skerið grænmetið og kjúklinginn smátt.min_IMG_5086 Hitið olíu í potti og steikið laukinn og hvítlaukinn í 1-2 mínútur.min_IMG_5089 Bætið karrýmaukinu útá og steikið þar til það mýkist aðeins og byrjar að ilma vel. min_IMG_5090Stráið sykrinum yfir, bætið svo kjúklingnum og grænmetinu saman við og steikið aðeins áfram (Athugið að ef þið notið hráan kjúkling þarf ekki að elda hann áður en þið setjið hann út í súpuna, gætið þess bara að sjóða hann í súpunni þar til eldaður í gegn). min_IMG_5091Hellið kókosmjólkinni yfir ásamt einum lítra af vatni. min_IMG_5094Setjið kjúklingabaunirnar saman við ásamt kjúklingakraftinum og sojasósunni. Hleypið suðunni upp og látið sjóða rólega við vægan hita í 5 mínútur. min_IMG_5093Smakkið til með sojasósu eða sjávarsalti og e.t.v. hrásykri ef ykkur finnst þurfa meiri sætu. Berið fram rjúkandi heita. Súpan að vera braðgmikil og rífa vel í.min_IMG_5116

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta súpuuppskriftin, Góð kjúklingasúpa, Góð súpa, Góð súpa uppskrift, Góðar súpuuppskriftir, Grænmetissúpa, Kjúklingasúpa, Ódýr matur, Súpur uppskriftir, Tælensk kjúklingasúpa, Tælensk súpa

Rómantísk frönsk lauksúpa..

janúar 22, 2014 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_4377Hvernig ég gat gleymt að deila með ykkur yndislegu innbökuðu frönsku lauksúpunni sem ég eldaði fyrir Vikuna í haust, skil ég ekki. Ég hef eitthvað óvenju lítið verið í eldhúsinu undanfarna daga svo ég gladdist innilega þegar ég rakst á myndir af þessari dásemd á dögunum og er ákaflega glöð að geta nú, í uppskrifta skorti, sett inn þessa fínu uppskrift. Það eru til ótal útgáfur og tegundir af lauksúpum og nei, ég er sannarlega enginn sérfræðingur í sögu lauksúpunnar eða hversu frönsk eða upprunaleg þessi uppskrift er. Ég hef prófað mig áfram oftar en ég hef tölu á þar sem lauksúpa er eitt af því besta sem við á heimilinu borðum. Ég man líka eins og það hafi gerst í gær þegar ég smakkaði franska innbakaða lauksúpu hjá mömmu í fyrsta skiptið og þá var ekki aftur snúið. Eftir margar tilraunir og lestur hefðbundinna sem og óhefðbundinna uppskrifta að franskri lauksúpu er ég komin niður á útgáfu sem ég er bara ansi ánægð með þó ég segi sjálf frá.

min_IMG_4376Galdurinn að baki góðri lauksúpu er í fyrsta lagi að hafa næga þolinmæði til að láta laukinn malla hægt og rólega þannig að hann verði sætur, mjúkur og gullinbrúnn. Hljómar vel ekki satt? Eftirleikurinn er svo tiltölulega einfaldur og um að gera að smakka sig áfram þar til súpan er akkúrat eins og þið viljið hafa hana. Þannig verður matur auðvitað bestur. Súpan er svo borin fram rjúkandi heit með góðu rauðvínsglasi við kertaljós. Bullandi rómantík! Ég myndi ekki hika við að gera þessa á bóndadaginn..

min_IMG_4390Frönsk lauksúpa

  • 1 kg laukur, skorinn í tvennt og svo í þunnar sneiðar
  • 2 lárviðarlauf
  • 2-3 greinar ferskt timian eða 2 tsk þurrkað timian
  • 50 gr smjör
  • 2 msk hveiti
  • 1 glas hvítvín
  • 1,5 – 2 l kjötsoð (t.d vatn og nautakraftur, fer svolítið eftir því hversu þykka eða þunna þið viljið hafa súpuna)
  • Salt og pipar
  • 2-3 msk koníak (má sleppa en er virkilega gott.. og sparilegt)
  • Brauð, t.d baguette skorið í frekar stóra teninga, gott að nota dagsgamalt eða frekar þurrt brauð.
  • Rifinn Ísbúi eða annar bragðmikill ostur

Aðferð: Byrjið á að skera laukinn í sneiðar og bræða smjörið í stórum potti við meðalhita. Steikið laukinn í smjörinu og bætið timian og lárviðarlaufum út í. Kryddið með smá salti og pipar. Steikið þetta við lágan-meðalhita í u.þ.b 40 mínútur eða þar til laukurinn hefur minnkað um helming og er orðinn fallega brúnn og karamelliseraður. Bætið þá 2 msk af hveiti saman við og steikið í um 5 mínútur. Hellið þá hvítvíninu og soðinu saman við og hrærið vel í á meðan suðan er að koma upp.

Leyfið að malla í a.m.k 30 mínútur og smakkið til með salti og pipar og ef til vill örlitlu koníaki. Takið lárviðarlaufin upp úr. Hitið grillið í ofninum á hæsta styrk. Setjið súpuna í skálar og dreifið brauðteningunum yfir og vel af rifnum osti. Bakið undir grillinu þar til osturinn er bráðnaður og aðeins farinn að dökkna. Það má líka elda súpuna í eldföstum potti, dreifa brauðinu og ostinum beint yfir súpuna í pottinum og setja hann svo undir grillið. min_IMG_4386p.s. – minni á leikinn í færslunni hér fyrir neðan….

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Frönsk innbökuð lauksúpa, Frönsk lauksúpa, Góð súpa, Gratineruð lauksúpa, Innbökuð lauksúpa, Lauksúpa uppskrift, Uppskrift að lauksúpu

Matarmikil gúllassúpa

september 9, 2013 by helenagunnarsd 23 Comments

min_IMG_4007

Þrátt fyrir að eiga hvorki frystiskáp né frystikistu eins og sönnum húsmæðrum sæmir, heldur einungis þrjár nettar frystiskúffur, tekst mér alltaf að gleyma hvað ég á í frystinum. Þessar þrjár skúffur eru eins og svarthol, taka endalaust við og einhvernveginn fer ekkert upp úr þeim sem á annað borð lendir í þeim. Kannski smá ýkjur en þetta er samt upplifunin. Ég hugsa að við gætum sleppt því að fara í matvörubúð í tvær vikur og hefðum samt nóg af kjöti, fiski og öðru góðgæti. Ég sumsé hef verið að grafa mig í gegnum frystiskúffurnar og elda úr því sem þar er til, meðal annars lumaði ég á poka af ungnautagúllasi frá Mýranauti, sem ég hafði steingleymt. Mér er ekki borgað fyrir að auglýsa Mýranaut – en ég verð bara að segja einu sinni enn hvað mér þykir nautakjötið þaðan afburðargott. Fólk með stærri frystigeymslur en ég ætti allavega íhuga að kaupa sér nautakjöt þaðan. min_IMG_3992Nú, gúllas er þannig biti að hann þolir langa eldun afskaplega vel. Ég mæli því ekki með því að elda þessa súpu í hraði og bera hana á borð hálftíma eftir að þið byrjið að elda. Fyrir mér er sjarminn við gúllassúpur lungamjúkt kjöt og bragð sem hefur fengið að malla lengi við hægan hita. Það sem mér finnst sniðugt að gera er að útbúa súpuna daginn áður en hún á að vera í matinn, leyfa henni að malla í hálftíma, slökkva svo undir henni og láta hana kólna og geyma svo í ísskáp þar til maður ætlar að nota hana. Þá er gott að hita hana upp við vægan hita og leyfa henni að malla í klukkustund. Þetta sparar allavega smá tíma ef maður getur ekki með góðu móti látið súpuna malla í þá 2-4 tíma sem hún á skilið til að verða dásamleg. Þetta þýðir samt ekki að súpan taki langan tíma í undirbúningi, ég hugsa að ég hafi staðið við eldavélina í 20 mínútur, eftir það eldar súpan sig bara sjálf. Þetta er einhver besta gúllassúpa sem ég hef smakkað, virkilega einföld og ekki of mörg hráefni að þvælast fyrir manni.

min_IMG_3978Matarmikil gúllassúpa (fyrir 4-6)

  • 600 gr smátt skorið ungnautagúllas
  • 2 msk smjör
  • 2-3 laukar, skornir í tvennt og svo sneiðar
  • 1/2 chillialdin, fræhreinsaður og skorinn í sneiðar
  • Krydd: 1 tsk paprikuduft, 1 tsk timían, 1 tsk cummin
  • 1 krukka tómatpassata (Frá Sollu)
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 msk hunang eða önnur sæta
  • 1 l vatn – (fer þó aðeins eftir smekk)
  • 2 teningar nautakraftur
  • 1 stór bökunarkartafla, skorin í teninga
  • 1/2 sæt kartafla, skorin í teninga
  • 1,5 dl rjómi
  • Salt og pipar og fersk steinselja til að strá yfir í lokin

min_IMG_3965Aðferð: Byrjið á að skera gúllasið í litla bita, mér þykir gúllas oftast í of stórum bitum fyrir svona súpur. Þerrið kjötið vel og kryddið með salti og pipar.min_IMG_3963 Hitið stóran pott við háann hita og bræðið smjörið. Steikið kjötið þannig að það brúnist vel. Færið kjötið svo upp á disk og lækkið hitann. Steikið laukinn í 10-15 mínútur, þannig að hann mýkist vel og taki á sig smá lit. min_IMG_3966Bætið kjötinu aftur út í ásamt chilli og kryddum og steikið aðeins áfram. min_IMG_3967Setjið tómatpaste-ið saman við ásamt, kraftinum, tómötunum, hunangi og vatni og hleypið suðunni upp. min_IMG_3969Flysjið kartöflurnar á meðan suðan er að koma upp og bætið þeim svo út í. min_IMG_3974Leyfið súpunni að sjóða í 30 mínútur. Lækkið þá hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Mér þykir gott að hafa svona súpur dálítið þykkar svo ég stappaði aðeins kartöflurnar í súpunni með kartöflustappara, þannig að sumar voru í bitum og sumar vel stappaðar og þykkja þá súpuna. min_IMG_3978Leyfið súpunni að malla við vægan hita með loki í 2-4 tíma. Því lengur því betra. min_IMG_4004

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góð súpa, Góðar súpuuppskriftir, Gúllassúpa, Matarmikil súpa, Ódýr matur, Súpa fyrir veislur, Súpu uppskriftir

Blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk

apríl 28, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2187Syni mínum þykir blómkálssúpa hinn mesti hátíðarmatur og hoppar hæð sína af gleði í hvert sinn sem ég verð að ósk hans og elda þann góða rétt. Það sem mér þykir þó sennilega mesta syndin varðandi alla þessa blómkálsaðdáun barnsins er að honum þóttu hefðbundnar hveitiuppbakaðar saltstappaðar blómakálspakkasúpur alveg dásamlegar. En það þótti móður hans ekki, verandi þó talsverður blómkálssúpuaðdáandi sjálf. Það er nefnilega svo einfalt, gott og ódýrt að útbúa sjálfur dáfínar súpur frá grunni. Ég þarf svo varla að sannfæra ykkur um hvað útkoman verður margfalt betri. Sá stutti drakk allavega , já drakk, súpuna úr skálinni þar til hann gat ekki meira og var eitt stórt alsælt blómkálsbros á eftir.

Með því að rista blómkálið í pottinum áður en vökvanum er bætt út í kemur smá hnetukeimur af því og súpan fer á aðeins hærra plan en gamla pakkasúpan. Sýrði rjóminn og laukurinn gefa svo þessari súpu alveg einstaklega gott bragð sem smellpassar við blómkálið og gerir súpuna svolítið sparilega.

min_IMG_2182Ristuð blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk (fyrir 4-5):

  • 1 stór eða 2 litlir skallottulaukar, smátt saxaðir
  • 2 msk smjör
  • 1 stórt blómkálshöfuð, gróft skorið
  • 1 l vatn (má vera aðeins meira, þá verður súpan örlítið þynnri)
  • 2-3 tsk góður grænmetiskraftur (eða 2 góðir teningar)
  • 1 peli rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Salt og pipar

Page_1Bræðið smjörið í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann mýkist. Bætið blómkálinu þá út í og hækkið hitann. Steikið þar til blómkálið hefur aðeins brúnast. Bætið þá vatni, rjóma og grænmetiskraftinum út í. Látið suðuna koma upp og leyfið að malla í um 10 mínútur eða þar til blómkálið hefur mýkst. Bætið þá vorlauknum út í og maukið súpuna með töfrasprota. Smakkið til með salt og pipar.Page_2Ef ykkur finnst hún of þykk má þynna hana með smá vatni ef of þunn þá má þykkja hana  með smá maizena mjöli. Þetta fer nú allt eftir smekk. Hrærið sýrða rjómanum út í súpuna í pottinum með písk og berið hana fram með söxuðum vorlauk og góðu nýbökuðu brauði, til dæmis þessum ljúffengu ostabollum, uppskriftina má finna hér.min_IMG_2178

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Blómkálssúpa, Einföld súpa, Fljótlegur matur, Góð súpa, Grænmetissúpa, LKL súpa, LKL uppskrift, Ódýr matur

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme