Kjúklingur er á mínu heimili, ansi oft á borðum og þykist ég vita að svo sé á mörgum öðrum heimilum. Það er eiginlega takmarkalaust hvað hægt að gera við kjúkling og sennilega þess vegna sem erfitt er að fá leið á honum – matreiðslu möguleikarnir eru nánast endalausir. Svo oft sem áður átti ég bakka af kjúklingabringum í ísskápnum en var eitthvað heldur óviss um hvað ég ætti eiginlega að búa til úr þeim. Langaði auðvitað (eins og næstum alltaf) að gera eitthvað nýtt. Bæði fyrir okkur og svo auðvitað fyrir bloggið. Það er svo gaman að elda góðan mat og dunda við að gera hann það góðan að hann verði hæfur til birtingar hér inni.
Eins og ég hef talað um áður er mamma mín ansi sniðug í eldhúsinu og ég þakka henni hér með fyrir hugmyndina að þessum kjúklingabollum sem eru hreint stórgóðar! Ég notaði í þær það sem ég átti enda ákvörðunin tekin í skyndi, sólþurrkaðir tómatar og paprikan gerðu þær alveg dásamlega bragðgóðar og eftir smá grúsk á netinu stóðst ég ekki mátið að pensla þær með svona tómat gljáa frá henni Berglindi sem heldur úti síðunni Gulur Rauður Grænn og Salt. Kom hreint ótrúlega vel út og verða þessar án efa gerðar marg oft í viðbót. Bollurnar er afar einfalt að gera, sérstaklega ef maður er vopnaður matvinnsluvél. Ég gæti vel ímyndað mér að sniðugt væri að gera enn minni bollur úr uppskriftinni og bera fram sem fingramat eða smárétt í veislum, gómsætt!
Ofnbakaðar kjúklingabollur með sólþurrkuðum tómötum og papriku:
- 1 frekar lítil rauð paprika skorin gróft
- 1 hvítlauksrif, marið
- Handfylli fersk steinselja
- 4-5 sólþurrkaðir tómatar
- 1 msk tómatpúrra
- 1-2 tsk sambal oelek chilimauk (fer eftir því hvað þið vijið hafa þetta sterkt)
- 800 grömm kjúklingabringur
- 1 egg
- 3 msk rjómi eða mjólk
- 3-4 msk góður brauðraspur
- 1/2 tsk sjávarsalt og nýmalaður pipar
Tómatgljái:
- 2 msk tómatpúrra,
- 1 msk balsamikedik
- 1 msk hunang
- 2 msk ólífuolía
Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður eða 180 með blæstri. Setjið paprikuna, hvítlauksrifið, sólþurrkuðu tómatana, sambal oelek, tómatpúrru og steinselju í matvinnsluvél. Maukið létt þar til blandan hefur samlagast vel og þið eruð með frekar grófa blöndu. Setjið kryddblönduna í skál.Skerið kjúklingabringurnar í grófa bita og maukið niður í matvinnsluvélinni þar til þið eruð komin með kjúklingahakk. Setjið kjúklingahakkið í skálina með kryddblöndunni, bætið salti, pipar, eggi, brauðraspi og mjólk eða rjóma út í og blandið vel saman.
Ef ykkur finnst blandan of blaut, bætið þá aðeins brauðraspi saman við, mjólk ef ykkur finnst blandan of þurr. Búið til bollur úr hakkinu og setjið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Hrærið öllu innihaldinu í tómatgljáann saman, penslið ofan á bollurnar og bakið í um það bil 20 mínútur, bökunartími fer þó vissulega eftir stærð á bollunum. Berið fram t.d með salati, hrísgrjónum og kaldri jógúrtsósu.