Á dögunum blés Nói Siríus til uppskriftasamkeppni. Þar auglýstu þeir eftir uppskriftum sem hægt væri að birta í uppskriftabæklingi sem þeir gefa út fyrir hver jól. Ég var ekki lengi að hugsa mig um þegar ég mundi eftir uppskrift að alveg einstaklega (og þá meina ég einstaklega) góðum súkkulaðibitakökum sem ég bakaði fyrir síðustu jól. Í alvöru krakkar, þá er þetta með þeim bestu smákökum sem ég hef bakað og þær eru ólíkar öllum súkkulaðibitakökum sem ég hef smakkað. Nýbakaðar minna þær dálítið á pínulitlar franskar súkkulaðikökur eða brownies. Þær eru stökkar að utan og mjúkar inn í og haldast þannig í nokkra daga séu þær geymdar í lokuðu íláti. Það er mikið súkkulaði í þeim og uppskriftin og aðferðin er einföld, byrjar og endar á súkkulaði svo útkoman er dásamleg. Nói Siríus var allavega sammála mér og ég var svo heppin, ásamt þremur öðrum að hljóta í verðlaun fyrir uppskriftina, veglega gjafakörfu fulla af góðgæti og bökunarvörum frá Nóa Siríus. Uppskriftin mun þó ekki birtast í bökunarbæklingnum fyrir jólin en það var girnileg súkkulaðikaka með Pipp bananakremi frá Eldhússögum sem hlaut þann heiður. Það er því þeim mun meiri þörf á að birta uppskriftina að súkkulaðibitakökunum hér 🙂Aldeilis ekki ónýtt að fá svona fínerí og ég er ansi hrædd um að jólabaksturinn eigi eftir að innihalda ýmislegt úr þessari girnilegu körfu. En hér kemur uppskriftin. Endilega prófið og njótið, alveg voða vel.
Svívirðilegar súkkulaðibitakökur (ca. 20 kökur):
- 200 gr 56% súkkulaði
- 50 gr ósaltað smjör
- 80 gr hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 2 egg
- 150 gr ljós púðursykur
- 1 tsk vanilluextract
- 300 gr suðusúkkulaði
Aðferð: Hitið ofn í 160 gráður með blæstri annars 180. Byrjið á að bræða 56% súkkulaði og smjör í potti yfir vægum hita. Takið af hitanum og leyfið að kólna/ná stofuhita. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti og setjið til hliðar. Setjið 300 gr af suðusúkkulaði í plastpoka og berjið með hamri eða kökukefni svo súkkulaðið brotni í grófa misstóra mola, það má líka saxa súkkulaðið gróft með hnífi.
Þeytið eggin og púðursykurinn ásamt vanillu vel og lengi saman þar til ljóst og létt. Hellið brædda súkkulaðinu rólega út í eggjablönduna og hrærið varlega saman við. Setjið því næst hveitiblönduna út í og blandið varlega saman við, ekki þeyta á þessum tímapunkti, bara rétt hræra saman. Hellið súkkulaðibrotunum út í og blandið saman við með sleikju. Setjið eina vel fulla matskeið af deiginu á bökunarpappírsklædda plötu og hafið gott bil á milli. Athugið að deigið er dálítið blautt. Stingið tveimur til þremur súkkulaðimolum ofan á hverja köku. Bakið í 12-14 mínútur og leyfið kökunum að kólna á grind. Athugið að kökurnar eiga að vera blautar í miðjunni svo alls ekki baka þær of lengi.