Ég hef eytt undanförnum dögum í Stokkhólmi þar sem ég átti alveg frábæran tíma með yndislegum vinkonum og goðinu til margra ára, Justin nokkrum, Timberlake. Fullkomin helgi í alla staði sem saman stóð af eintómri gleði, dekri, huggulegheitum og fyndnum uppákomum. Hápunktur helgarinnar var án efa á laugardagskvöldið þegar langþráður draumur okkar vinkvenna um að bera meistara JT augum, varð að veruleika. Tónleikarnir voru ólýsanlega flottir og stóðust fyllilega væntingar mínar og gott betur. Svo náði ég meira að segja ansi ágætum myndum. Ef einhver hefur einhverntímann efast um Justin ætti sá hinn sami að skella sér á tónleika og borða hattinn sinn á eftir. Ég get svo ekki beðið eftir að fara á ögn smærri JT tónleika í sveitinni minni í ágúst og fá að sjá þetta snilldar show aftur. Er jafnvel að hugsa um að bjóða honum í grill á pallinum hjá okkur á undan tónleikunum.. eða jafnvel á eftir. Þið látið það bara berast ef hann er laus..En nóg um Justin í bili og að bökunni. Þessi baka er bæði fljótleg og einföld og hana ættu allir að geta gert. Galdurinn við bökur eins og þessa er að nota það sem hendi er næst. Týna afganga úr ísskápnum af kjöti eða grænmeti, eða hvorutveggja og raða í hana því sem manni þykir sjálfum best. Ég kaupi iðulega tvo heila kjúklinga einu sinni í viku, elda þá báða, hef annan í matinn en geymi hinn fyrir nesti, salöt, súpur, kvöldmat og hvaðeina fyrir næstu daga á eftir. Það góða við bökuna er að hún þarf ekki að vera fullkomin heldur er aðferðin svolítið bara eins og að baka pizzu með mikilli fyllingu og lokuðum kanti en deigið er stökkt og gott eins og bökudeig á að vera. Prófið bara!
Kjúklingabaka með osti og púrrulauk (fyrir 3-4 fullorðna):
- 2,5 dl grófmalað spelt
- 4 msk ólífuolía
- 1/2-1 dl heitt vatn (setjið smám saman út í)
- 2 msk dijon sinnep
- 3 msk sýrður rjómi
- 2 eldaðar kjúklingabringur eða annað eldað kjúklingakjöt, rifið niður eða smátt skorið
- 1/2 – 1 púrrulaukur, smátt saxaðaður
- 1 góð handfylli af söxuðu íslensku grænkáli, líka hægt að nota saxað spínat
- 3 msk kotasæla
- 2 egg
- 1 dl rifinn parmesan og 1 dl rifinn mozarella eða annar mildur ostur
- Sjávarsalt og nýmalaður pipar
Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri, annars 200 gráður. Blandið saman, með sleif eða venjulegri skeið, í skál, spelti og ólífuolíu, bætið heitu vatni þar til þið eruð komin með deig sem loðir saman og er ekki of blautt. Hellið deiginu á hveitistráð borð og hnoðið aðeins saman með höndunum. Fletjið deigið út þar til það fyllir nánast út í ofnplötu og er um það bil hringlaga (þarf ekki að vera fullkomið muniði!). Leggið deigið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Dreifið úr dijon sinnepinu og sýrða rjómanum á botninn en skiljið ca. 3 cm kant eftir. Dreifið kjúklingnum yfir ásamt púrrulauknum og helmingnum af grænkálinu eða spínatinu. Leggið kantana á bökudeiginu upp á fyllinguna eins og þið sjáið á myndunum. Hrærið saman kotasælu, eggjum og rifnum osti, kryddið með salti og pipar og hellið yfir fyllinguna, stráið restinni af grænkálinu eða spínatinu yfir. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til baka er tilbúin og osturinn gullinbrúnn. Berið fram t.d með góðu salati og sýrðum rjóma.