Ég hef lengi átt í hálfgerðu ástar/haturs sambandi við hafragrauta. Hljómar dramatískt og er það kannski bara. En eftir áralangar tilraunir hef ég komist að því að hafragrautur og hafragrautur er ekki það sama. Ég hef undanfarna morgna verið að prófa mig áfram með hafragrauta með chiafræjum og grautardýrðin hefur náð nýjum hæðum. Ég er kannski mjög sein að fatta hluti ég geri mér grein fyrir því en þessi morgunmatur á nú hug minn allann og ég mæli eindregið með því að þið prófið þetta. Hvort sem elskið eða hatið hafragraut. Chia fræin gera hann svo léttan og góðan, næstum rjómakenndan og mér finnst skipta öllu fyrir bragð og áferð að nota grófa lífræna hafra. Eplin set ég útí eftir að ég slekk undir grautnum svo þau eru ennþá stökk og fín. Rúsínurnar, kakónibburnar (vá hvað þær eru góðar!) og hampfræin setja svo toppinn yfir i-ið.
Dásamlegur ofurfæðu morgungrautur fyrir 1:
- 1 1/2 dl (tæplega) grófir lífrænir hafrar
- 1 msk chia fræ
- Smá sjávarsalt og ca 1/2 tsk lífrænn kókospálmasykur eða önnur sæta (má líka sleppa)
- Vatn og smá mjólk/möndlumjólk/hrísmjólk
- 1/2 epli skorið í teninga
- rúsínur (ég notaði ljósar)
- 1 msk Kakónibbur
- 1 msk hampfræ
- 1/4 tsk kanill
Haframjöl og chiafræ sett í pott og vatni hellt yfir þar til það rétt flýtur yfir. Ég mæli aldrei vatnið. Suðunni hleypt upp og svo lækka ég undir og helli ég mjólk saman við meðan hann sýður þar til áferðin er eins og ég vil hafa hana nota sennilega um 1 dl af mjólk. Grauturinn er í ca. 10 mínútur að eldast. Tek pottinn svo af hitanum og bæti eplunum út í. Set grautinn í skál. Strái yfir rúsínum, kakónibbum, hampfræjum og kanil, helli smá mjólk út á og aðeins hrært saman. Nammi!