Ég veit ekki með ykkur, en ég er alltaf í leit að einhverju góðu meðlæti. Þegar kemur að svona þessari daglegu eldamennsku vefst oft fyrir mér hvað ég ætti nú að útbúa til að hafa með kjötinu, eða fiskinum eða hverju því sem á boðstólnum er. Mér finnst sérstaklega þægilegt að geta klárað að gera meðlætið áður en ég elda aðalhráefnið og þurfa ekkert að hugsa um það meir. Núna þegar sólin er farin að skína og hitastigið örlítið farið að hækka er grillið oft dregið fram hér á heimilinu og þegar grillað er á virku kvöldi þegar allir eru svangir og þreyttir þurfa hlutirnir að gerast hratt!
Ég var með grillaða kjúklingaleggi á dögunum og með þeim bar ég fram þetta einstaklega sumarlega og matarmikla salat, sem ásamt kaldri sósu, stóð alveg eitt og sér sem meðlæti með kjúklingaleggjunum. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera að flækja hlutina krakkar mínir. Þetta er nú varla hægt að kalla uppskrift heldur meira upptalning á hráefnum, en gott var það. Og kannski eru einhverjir fleiri en ég þarna úti sem vantar alltaf hugmyndir að meðlæti.. aldrei að vita. Ég verð líka að koma því að hvað jarðarber og svartur piparinn í piparostinum passa einstaklega vel saman. Prófiði bara
Sumarlegt salat með brokkolí, jarðarberjum og piparosti (Meðlæti fyrir ca. 4-5):
- 1 höfuð Lambhagasalat, frekar smátt skorið
- 1/2 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
- 1 msk hvítvínsedik
- 1 avocadó, skorið í litla teninga
- 1 lítið höfuð brokkolí, hlutað niður og skorið í litla munnbita
- 1 bakki jarðarber skorin í fjóra hluta
- 1 pakki rifinn piparostur
- Ólífuolía, svartur pipar og smá sjávarsalt
Aðferð: Byrjið á að skera rauðlaukinn í þunnar sneiðar, setjið í skál og hellið yfir hann 1 msk af hvítvínsediki og hrærið af og til í lauknum meðan restin af salatinu er útbúið. Við þetta mýkist laukurinn, verður aðeins sætari og ramma laukbragðið hverfur. Blandið öllu hinu saman í stórri salatskál og setjið laukinn síðast saman við, ásamt edikinu. Hellið smá ólífuolíu yfir og sáldið örlitlu sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar yfir.