Ég hef verið að renna í gegnum gamlar myndir á tölvunni. Einhverra óskiljanlegra ástæðna vegna hef ég alveg gleymt að setja hingað inn myndir af svona eiginlega uppáhaldsmatnum mínum og margra í stórfjölskyldunni minni. Grilluðum lambahrygg. Ég mæli eindregið með því að þið prófið þessa aðferð næst þegar þið ætlið að elda lambahrygg. Þarna blandast saman lungamjúkt bragðmikið kjöt sem kemur af því að elda hrygginn við frekar hægan hita í langan tíma. Á sama tíma kemur alveg dásamlegt grillbragð af hryggnum. Það má eiginlega segja að þetta sé einkennisréttur foreldra minna en þau, þá sérstaklega grillsnillingurinn pabbi minn, hefur masterað tæknina við að grilla hinn fullkomna lambahrygg eftir áratuga reynslu (bak)við grillið. Þau grilla í hvaða veðri sem er, hvenær árs sem er. Sennilega eina fólkið sem hefur grillað jólasteikina á aðfangadagskvöld. Pabbi er svo mikill grillari að mamma þarf stundum að laumast til að elda því annars er pabbi búinn að skella nánast hverju sem á að vera í matinn, á grillið.
En aftur að hryggnum. Pabbi er löngu kominn á það stig að notast ekki við álpappír undir hrygginn heldur er grilltæknin þvílík að engin hjálpartæki eru þörf. Ég mæli þó með því að í fyrstu skiptin sem hryggur er grillaður sé notast við Heavy Duty álpappír undir hryggin til að varna því að fitan leki af kjötinu ofan í grillið og hringja þurfi í Samma brunavörð. Ég ætla að láta það óskrifað hvort slíkar aðstæður hafi komið upp á mínum bæ.
Þetta er því varla uppskrift heldur meira lýsing á aðferð. En svona berum við okkur að:
- 1 vænn lambahryggur, snyrtur og skorið vel ofan í fituna eins og sést á myndinni.
- Kryddaður vel með sjávarsalti (Maldon), nýmöluðum svörtum pipar og rósmarín
- Hryggnum leyft að standa við stofuhita í 1 – 2 klst. Þannig verður kjötið mun mýkra og betra. Ég mæli ekki með að það sé sett beint úr ísskápnum á grillið.
- Okkur finnst langbest að hafa kryddið einfalt á hryggnum. Salt, pipar og rósmarín verður því oftast fyrir valinu með ljúffengri útkomu. Stundum höfum við líka smurt dijon sinnepi yfir hrygginn og stráð svo yfir áðurnefndum kryddum. Hvorutveggja er mjög gott.
Grillið hitað. Ef um þriggja brennara grill ræðir, kveikið þá á báðum hliðarbrennurum og hafið slökkt á miðjubrennurum. Hafið kjötið allan tímann yfir óbeinum hita. Hitastigið á mælinum á grillinu á að sýna ca. 170 – 190 gráður. Við erum með Weber grill þar sem mælirinn er í lokinu. En þetta er mjög mismunandi eftir grillum svo það er ágætt að prófa sig aðeins áfram. Ekki fara mikið yfir þetta hitastig allavega. Setjið hrygginn á álpappírsbút þannig að fitan leki ekki ofan í grillið, leggið á grillið, þannig að fituhliðin snúi upp og hafið grillið lokað. Það þarf ekki að brúna fituhliðina áður. Hún bakast bara eins og ef hryggurinn væri í bakarofni. Nema hvað að þessi bakarofn er með grillbragði inniföldu, hversu slæmt getur það verið? Best er að stinga hitamæli í kjötið og leyfa því að malla á grillinu þar til réttu hitastigi er náð. Okkur finnst fínt að leyfa hitanum að fara upp í 65 gráður. Það fer þó bara eftir smekk. Þegar réttu hitastigi er náð er kjötið tekið af grillinu og leyft að jafna sig í um 20 mínútur áður en það er skorið.