• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Grilluð bleikja

Grilluð bleikja með rjómabökuðu blómkáli og pikkluðu epla- fennelsalati

júlí 8, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3154Einn af uppáhalds veitingastöðum okkar Heimis í Reykjavík og þó víðar væri leitað er Fiskmarkaðurinn. Það eru komin þó nokkuð mörg ár síðan við fórum þangað fyrst og eftir það var hreinlega ekki aftur snúið. Höfum eiginlega farið vandræðalega oft út að borða þangað síðan og aldrei orðið fyrir vonbrigðum, sama hvað við pöntum. Eftir að Grillmarkaðurinn opnaði höfum við líka farið nokkrum sinnum þangað og það er sama sagan þar. Alltaf góður matur og bara allt gott svei mér þá. Fiskmarkaðurinn er samt algjörlega staðurinn okkar og alltaf pottþéttur ef okkur langar að eiga virkilega góða kvöldstund. Það má eiginlega segja að við höfum lært að meta góða fiskrétti og sushi eftir allar heimsóknir okkar á staðinn og einnig hvað það skiptir gríðarlega miklu máli að fiskur sé nýr. Spriklandi nýr! Það er næstum því hálf fáránlegt að fiskistaður sé minn uppáhalds veitingastaður þar sem ég hef alls ekki verið mikill fiskiaðdáandi í gegnum tíðina. En fiskur á Fiskmarkaðnum er einfaldlega bara settur á annað plan, aldrei ofeldaður eða þurr og bragðið alltaf svo ótrúlega gott að maður skilur ekki hvað í ósköpunum þeir gera í eldhúsinu til að framkalla það.

Einn af réttunum á Fiskmarkaðnum er robata grillaður lax sem er meðal annars borinn fram með epla- og fennel salati. Laxinn er grillaður á sérstöku robata grilli en í því eru japönsk kol sem brenna við 1200 gráður í stað 600 gráða eins og venjuleg kol. Einn af göldrunum (held ég) við laxinn er sumsé að grilla hann snöggt við mjög, mjög háan hita og leyfa honum svo að jafna sig aðeins áður en hann er borðaður. Þannig verður fiskurinn fullkomlega eldaður og aldrei þurr. En jæja, undir áhrifum frá Fiskmarkaðnum, en án robata grills, ákvað ég í auðmýkt minni að elda bleikju hérna heima síðasta föstudagskvöld. Þó þetta hafi nú ekki verið nein Fiskmarkaðs bleikja var maturinn stórgóður. Bragðið af eilítið súrsætu og stökku epla- og fennel salatinu, rjómakenndu blómkálinu og grillaðri bleikjunni smell passaði saman. Með þessu drukkum við ítalskt Prosecco freyðivín, Santero Prosecco Craze. Okkur fannst það ofsalega gott með, en við höfum annars ekki hundsvit á hvaða vín passa með hvaða mat, öðruvísi en bara að smakka og athuga hvort okkur finnist það gott. Ég mæli alveg innilega með þessum rétti!

(Í þetta sinn fylgja óvenju fáar myndir með uppskriftinni þar sem myndavélin var eitthvað að stríða mér.)

Magnið sem ég gef upp er miðað fyrir 2-3 manneskjur.

Rjómabakað blómkál

  • 1 lítll blómkálshaus eða 1/2 stór (ég vigtaði ekki blómkálið)
  • 1 laukur
  • Nokkrir piccolo tómatar eða kirsuberjatómatar
  • 1,5 dl rjómi
  • Rifinn parmesan ostur
  • 1 msk Ólífuolía, salt og pipar

Aðferð: Allt skorið í hæfilega bita og sett í eldfast mót. Velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Rjómanum hellt yfir og vel af rifnum parmesan osti stráð yfir. Bakað við 200 gráður í 20 mínútur. (Á meðan restin af réttinum er útbúin)

Pikklað epla- og fennelsalat

  • 1 epli
  • 1 fennelhöfuð
  • 1 dl hvítvínsedik
  • 2 msk sykur (eða önnur sæta)
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð: Eplið og fennelið er skorið í frekar litla teninga og sett í skál. Edikið hitað í potti ásamt sykrinum þar til hann leysist upp (ekki sjóða edikið). Edikblöndunni hellt yfir eplið og fennelið og blandað vel saman. Kryddað með smá salti og pipar. Ef fennelið hefur falleg blöð er upplagt að nota dálítið af þeim með. Gefa gott bragð og eru falleg. Geymið við stofuhita á meðan bleikjan er grilluð.

Bleikjan

  • Tvö væn glæný bleikjuflök skorin í tvennt (samtals 550 gr)
  • Ólífuolía, sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Aðferð: Hreinsið bleikjuna, beinhreinsið hana og skerið hvort flak í tvennt. Þerrið hana vel með eldhúspappír, penslið með ólífuolíu og kryddið með salti og pipar báðum megin. Hitið grill eða grillpönnu á hæsta mögulega styrk þar til fer að rjúka. Grillið bleikjuna í 1-2 mínútur á fiskihliðinni og snúið henni svo við og grillið í 2 mínútur á roðhliðinni áfram á hæsta styrk. Slökkvið undir og leyfið bleikjunni að jafna sig í 5-10 mínútur. Berið fram með rjómabakaða blómkálinu og setjið vel af epla- og fennel salatinu yfir bleikjuna. min_IMG_3156

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góð fiskuppskrift, Grillaður silungur, Grilluð bleikja, LKL, LKL fiskur, LKL meðlæti

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme