Þessi grillaði lax sem ég var með um daginn fer beint á topp fimm yfir bestu fiskmáltíðir sem ég hef borðað. Ef ekki bara topp fimm máltíðir fyrr og síðar. Það gæti haft sitt að segja að laxinn var villtur og spriklandi ferskur, veiddur af pabba, flakaður af mömmu (ég er alveg glötuð í fiskflökun) og alveg passlega stór. Sumsé ekki of stór, mér þykja litlir laxar betri en stórir og ég þarf varla að taka það fram hvað villtur lax er miklu, miklu betri en eldislax. Marineringin er alveg stórgóð á fisk eins og lax sem þolir mikið bragð og ég mæli heilshugar og óhikað með því að þið prófið þessa marineringu og prófið að grilla lax með þessum hætti við fyrsta tækifæri. Ég er ekki frá því að marineringin myndi jafnvel virka glimrandi vel á eldislax. En notið endilega þennan villta ef þið komist yfir flak eða tvö!
Margir eru hræddir við að grilla lax beint á sjóðandi heitu grilli og eru að vesenast með einhverja grillbakka eða álpappírsvasa en það er algjör óþarfa hræðsla. Það er nauðsynlegt að hafa grillið rjúkandi heitt og leyfa laxinum að liggja óhreyfðum í 2-3 mínútur, snúa honum svo við með spaða og leyfa honum að klára að eldast á roðhliðinni í 2-3 mínútur í viðbót. Ég viðurkenni alveg að hann getur átt það til að festast aðeins við grillið en á meðan hann er á roðinu er engin hætta á að hann detti í sundur. Gott er að vera vopnaður góðum spaða og þá er ekkert mál að ná honum svo beint af roðinu sem verður eftir á grillinu og færa hann upp á fat. Það er líka algjört grundvallaratriði að ofelda ekki svona fiskmeti því þá er nú eiginlega ekkert varið í það lengur. Takið laxinn því af grillinu rétt áður en þið haldið að hann sé tilbúinn og leyfið honum að jafna sig á diski í 5-10 mínútur áður en hann er borinn fram.
- 2 msk dijon sinnep
- 1 msk hunang
- 4 msk sojasósa
- 6 msk ólífuolía
- 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
- Lax – ég var með tvö frekar lítil flök og dugði marineringin vel á þau
- Saxaður vorlaukur til að strá yfir að lokinni eldun
Aðferð: Breinhreinsið laxaflökin og skerið þau í passlega bita. Hrærið öllu innihaldinu í marineringuna saman og hellið helmingnum af marineringunni yfir laxinn. Látið standa í 10 mínútur og grillið svo á vel heitu grilli, fyrst á fiskhliðinni, snúið honum við eftir 2-3 mínútur og klárið að elda á roðhliðinni. Takið laxinn af roðinu og berið fram með restinni af marineringunni, söxuðum vorlauk og t.d einföldu fersku salati.