Ég ætlaði að nota titilinn ”Glútenlausar hnetusmjörskökur með sultutoppi” en hætti snarlega við því ég var svo hrædd um að þá héldu allir að þetta væru vondar kökur. Sem þær eru ekki. Orð sem enda á –skert eða –laust hljóma bara ekki vel. Samanber fituskert, sykurskert, fitulaust, hveitilaust, hef þó aldrei heyrt um hveitiskert bakkelsi, það væri nýtt. Nei þessi orð eiga það sameiginlegt að vera bara alls ekkert freistandi. Þó að desember sé kannski ekki sá tími sem fólk er mikið að spá í hvort að smákökur séu hveiti- sykur, mjöllausar eða skertar þá getur það varla verið annað en gott þegar kökur sem eru svona dásamlega góðar og auðveldar séu líka t.d með öllu lausar við hveiti og annað mjöl og lítið mál að skipta sykrinum út fyrir sætuefni. Möguleikarnir eru endalausir! Svo hlýtur það líka að vera plús að þurfa ekkert nema litla skál og matskeið til að búa þær til. Svoleiðis uppskriftir falla alltaf vel í kramið hjá mér og eru eiginlega alveg að slá í gegn núna á aðventunni, má ég minna á Nutella kökurnar?? Ef þið eruð hrifin af hnetusmjöri mæli ég með því að þið prófið þessar kökur hið snarasta. Fylgist vel með þeim í ofninum og passið bara að ofbaka þær ekki. Verið svo ekkert að spara sultuna ofan á. Namm.
Hnetusmjörskökur með sultutoppi:
- 200 gr hreint hnetusmjör (t.d frá Sollu)
- 2 egg
- 1/2 tsk matarsódi
- 2 msk púðursykur (eða önnur sætuefni)
- 2 msk hrásykur (eða önnu sætuefni)
- 1 tsk vanilluextract eða 1/2 tsk vanilludropar
- Góð sulta, ég notaði jarðarberjasultu.
Í staðin fyrir sultu mætti vel nota t.d Nutella… Um að gera að prófa sig áfram.
Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri annars 180. Hrærið saman hnetusmjöri, eggjum, matarsóda, púðursykri, hrásykri og vanillu. Athugið að fyrst um sinn er auðvelt að hræra deigið, þegar það kemur saman verður erfiðara að hræra það og deigið mun virka þurrt og skrýtið. Það er eðlilegt. Hrærið bara þar til allt er komið saman. Mótið kúlur úr 1 msk af deiginu og setjið á bökunarplötu (ég nota svona litla ísskeið við verkið). Gerið holu í hverja köku t.d með vísifingri, gott að dýfa fingrinum í vatn eða smá olíu svo deigið festist ekki við. Bakið í 8 mínútur. Takið út og ýtið aðeins aftur í holuna t.d með endanum á sleif. Setjið eina góða teskeið af sultu í hverja köku.Bakið áfram í 3 mínútur en fylgist vel með kökunum og passið að taka þær út áður en sultan fer að sjóða því þá lekur hún upp úr. Kælið á grind og njótið!