Ég fékk frábæra uppskrift að stórgóðu salati hjá henni mömmu í vikunni sem leið. Hún hafði borið það fram með grilluðum silungi og lofaði það í bak og fyrir. Hún mamma er ansi sniðug í að reka augun í eða láta sér detta í hug, nýjar uppskriftir sem hljóma kannski örlítið skringilega í fyrstu en eru svo alveg stórgóðar og fela í sér eitthvað alveg nýtt bragð og skemmtilega framsetningu. Þetta salat er einmitt svoleiðis. Lítur eiginlega út eins og kartöflusalat svona í fjarska en er svo bara alls ekkert kartöflusalat. Heldur fullt af agúrkum og tómötum, létt og gott en samt eitthvað svo rjómakennt. Ég hef sagt það áður og mun örugglega segja það aftur: þetta verðið þið að prófa, sérstaklega með grillmatnum! Bæði fljótlegt og ljúffengt. Mamma notaði basil og kóríander í salatið sitt, ég átti ekki til basil svo ég notaði steinselju í staðin og svo kóríander sem mér finnst eiginlega ómissandi. Það er alveg hægt að leika sér aðeins með kryddjurtinar eftir því hvað maður á til hverju sinni.
Hunangs gúrku og tómatasalat með sýrðum rjóma og ferskum kryddjurtum (passlegt meðlæti fyrir 2-3):
- 1 dós sýrður rjómi
- 1 msk hunang
- 1 msk hvítvínsedik
- Fínsaxað ferskt kóríander og basil eða steinselja (lítil handfylli af hvor)
- Smá salt og pipar
- 1/2 agúrka, flysjuð og skorin í teninga
- 2-3 plómutómatar (ílangir) skornir í báta
Aðferð: Sýrði rjóminn hærður út, hunangi, edik og kryddjurtir hrært saman við. Smakkað til með salt og pipar. Agúrkunni og tómötunum hrært bætt saman við. Geymt í ísskáp þar til salatið er borið fram.