• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Mexíkóskur matur

Fyllt tacoflétta með nautahakki og salsasósu

ágúst 12, 2015 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_7557Jæja. Ég er voða spennt að setja þessa uppskrift inn og veit að það eru nokkrir að bíða eftir henni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn á heimilinu hefur búið við almennt tannleysi, lausar tennur og auman góm og þá dramatík sem því fylgir undanfarna mánuði. Enda eðlilegur fylgifiskur þess að vera sex ára. Hér hefur því verið mikið um rétti með nautahakki, fisk, grænmetisrétti, pasta og almennt mat sem er tyggingarvænn fyrir litla manninn. Nautahakk er reyndar sérstaklega vinsælt hjá honum og hafa ýmsar útgáfur af því fengið að líta dagsins ljós. Í gær var ég semsagt með þennan rétt. Hann gjörsamlega sló í gegn og þegar þetta er skrifað er sá stutti búinn að borða réttinn þrisvar. Semsagt algjör hittari hjá sex ára strák en hann var það líka hjá fullorðna fólkinu. Þetta er frábær kvöldmatur en ég sé þetta einnig fyrir mér í saumaklúbbum, afmælum og þess háttar í stað hinna gamalgrónu (en þó ágætu) brauðrétta. Það er voða gott að bera réttinn fram með fersku heimalöguðu guacamole og góðu grænu salati (ég myndi ekki dæma ykkur þó þið hefðuð líka nachos flögur með..). Ég lofa að réttinn er einfaldara að gera en það lítur út fyrir. Þetta snýst aðallega um samsetningu hráefna og svo er um að gera að stytta sér leið með því að nota tilbúið pizzadeig. Þá tekur þetta enga stund! Ég hvet ykkur til að skoða upprunalegu uppskriftina í hlekknum hér fyrir neðan, þá sjáið þið hvernig á að flétta deigið saman. min_IMG_7547

Fyllt tacoflétta með nautahakki og salsasósu (lítillega breytt uppskrift frá: 365 Days of Baking and More)

  • 1 rúlla tilbúið pizzadeig (t.d. Wewalka, líka hægt að búa til frá grunni)
  • 6-700 gr hreint ungnautahakk
  • 1 rauðlaukur, smátt skorinn
  • 3 msk tilbúið tacokrydd úr poka
  • 1 lítil krukka salsasósa (ca. 230gr)
  • 1 límóna
  • 2-3 tómatar, skornir smátt
  • 200 gr rifinn ostur (1 poki)
  • 2 msk ólífuolía
  • Ofan á:
  • 4 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Nokkrir kirsuberjatómatar, skornir smátt
  • Sýrður rjómi

Aðferð: Fletjið deigið út þannig að það þekji eina bökunarplötu. Leggið á plötuna og hafið bökunarpappír undir. Skerið 2-3 cm rákir langsöm niður eftir deiginu en skiljið ca. 10 cm rönd eftir í miðjunni (sjá skýringarmyndir í hlekknum við hausinn á uppskriftinni). Steikið laukinn þar til glær og bætið hakkinu út á pönnuna. Brúnið vel. Bætið tacokryddinu saman við ásamt salsasósunni og safanum úr límónunni blandið vel saman og smakkið til með salti og pipar. Hellið hakkinu á miðjuna á pizzadeiginu. Stráið tómötunum þar yfir og rúmlega helmingnum af rifna ostinum. Leggið nú deigstrimlana yfir hakkblönduna eins og þið væruð að flétta (sjá aftur skýringarmynd). Penslið ólífuolíu yfir fléttuna og stráið restinni af rifna ostinum yfir. Bakið við 180 gráður í 20 mínútur eða þar til deigið er vel bakað og osturinn ofan á gullinbrúnn. Dreifið dálitlum sýrðum rjóma yfir og stráið svo smátt söxuðum tómötum og vorlauk ofan á. (Rétturinn er passlegur sem aðalréttur fyrir 5 fullorðna).  min_IMG_7556

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Barnaafmæli, Brauðréttir, Einfaldur matur, Fléttubrauð, Hakkréttir, Heitir brauðréttir, Heitir réttir, Mexíkóskur matur, Nautahakk uppskriftir, Partýmatur, Salsa sósa, Saumaklúbbaréttir, Tacoflétta

Taco súpa

júní 12, 2014 by helenagunnarsd 20 Comments

min_IMG_5953Ef ég hef einhvern tímann sagt að súpur séu kjörinn vetrarmatur, sem ég hef örugglega gert, þá tek ég það til baka. Ég er hrifin af súpum allt árið um kring og fæ ekki nóg af að prófa nýjar útgáfur. Mér þykir þessi súpa meira að segja bara þræl sumarleg með þessum fallegu grænu og rauðu litum og ilmandi límónubátum. Þetta er svona maturinn sem ég elda þegar ég er kannski pínulítið stressuð og langar að slaka á í eldhúsinu og elda eitthvað rólegt og fallegt. Jafnast á við bestu íhugun að standa yfir gómsætri súpu, sjá hana umbreytast úr nokkrum hráefnum úr ísskápnum, smá kryddi og vatni yfir í þessa dásamlegu máltíð. Þessi tiltekna súpa er svona ”slá í gegn súpa”. Kjörin veislusúpa sem er auðvelt að gera mikið magn af og meðlætið gerir hana svo sparilega og sérstaka. Svo er hún auðvitað líka bara upplögð heima súpa fyrir fjölskylduna. Prófið þessa og leyfið mér að vita hvernig ykkur líkaði. Ég mæli innilega með henni!min_IMG_5961

Taco súpa:

  • 500 gr nautahakk
  • 2 rauðlaukar
  • 2 paprikur
  • 3 hvítkauksrif
  • 2 tómatar
  • 1 lítil sæt kartafla
  • 3 msk tacokrydd
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 krukka mild chunky salsa (350 gr)
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 l vatn
  • 2 msk rjómaostur, ég nota philadelphia light
  • 2 msk rjómi

min_IMG_5935Aðferð: Skerið rauðlauk, papriku og hvítlauk smátt. Hitið stóran pott og brúnið nautahakkið í pottinum. Bætið grænmetinu út í og látið krauma þar til það mýkist aðeins. Kryddið með tacokryddinu og setjið gróft skorna tómatana út í. Setjið salsasósuna, tómatpúrru, kjúklingatening og vatn út í og hleypið suðunni upp. Skerið sætu kartöfluna í litla teninga og bætið út í. Látið sjóða við hægan hita í 20-30 mínútur. Bætið þá rjómanum og rjómaostinum saman við og smakkið til með salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Mér finnst svo gott að stappa aðeins sætu kartöflurnar í súpunni með gamaldags kartöflustappara, áður en ég ber hana fram þá þykknar súpan aðeins. Súpan er góð strax, en enn betri daginn eftir svo það er upplagt að gera auka fyrir nestið eða í matinn seinna. Berið súpuna fram með meðlætinu góða og kreistið dálítinn límónusafa yfir hverja skál. Njótið í botn!

min_IMG_5965Meðlætið:

  • 5 tortillakökur
  • Avocado í bitum
  • Rifinn maríbó ostur
  • Smátt saxaður vorlaukur
  • Límónubátar

Page_1Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Staflið tortillakökunum upp, skerið í tvennt og svo í mjóar ræmur. Leggið á ofnplötu, dreifið örlítilli olíu yfir og sjávarsalti og blandið vel saman. Bakið í 15 mínútur og hrærið aðeins í kökunum einu sinni eða tvisvar yfir bökunartímann. Látið kólna og berið fram með súpunni. min_IMG_5955min_IMG_5963

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð súpa, kvöldmatur humgyndir, mexíkó súpa, mexíkósk súpa, Mexíkóskur matur, Ódýr matur, salsa súpa, Súpa, súpa fyrir marga, súpa fyrir veislu, taco súpa

Kjúklinga taco salat

október 24, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4422Ég ætlaði svo innilega að ná að gera þetta salat tilbúið áður en myrkrið skall á í kvöld. Á öðru hundraðinu lenti Bónuspokinn á eldhúsborðinu, kveikt á barnaefninu á RÚV, pönnu skellt á eldavélina, kveikt undir, kápunni hent á stól og vörurnar eiginlega rifnar upp úr innkaupapokanum. Kjúklingabringur klofnar í tvennt, kryddaðar og dúndrað á sjóðandi heita pönnuna á meðan var restin af hráefnunum í salatið týnd til. Jú ég var enn dálítið vongóð. Birtan á pallinum alveg sæmileg og ég myndi sennilega ná þessu. Byrjaði að skola grænmeti, skera niður, náði í stóran disk og hálfpartin forðaðist að horfa á myrkrið hægt og rólega síga yfir eldhúsgluggann. Opnaði ostinn, reyndi að ná ostinum úr án þess að rífa pokana, það gekk ekki vel. Þeir sem þekkja mig geta ef til vill reynt að sjá fyrir sér pirringinn þegar ég í mikilli bræði stappaði niður fótunum yfir ostinum pikkföstum í !#%# pokunum. Það gæti skemmt einhverjum.

min_IMG_4429Jæja osturinn kominn á brettið, rifjárnið rifið upp og í millitíðinni hugað að kjúklingabringunum á pönnunni. Þetta var allt að smella. Bara eftir að setja salatið saman og búa til chillidressingu. Tíminn hefur sennilega liðið hraðar en ég gerði mér grein fyrir því á þessum tímapunkti voru táknmálsfréttirnar teknar við af barnaefninu og hið óhjákvæmilega hafði gerst. Það var komið svo mikið myrkur að ég sá ekki einu sinni köttinn sem mjálmaði á pallinum. Það mátti reyna en ég hefði sennilega aldrei náð þessu. Kannski næst. Ég skipti því yfir í lægri gír og kláraði salatið í ögn hægari takti sem ég kann svo mikið betur við í eldhúsinu og það færðist ró yfir heimilið. Salatið var myndað undir eldhúsljósunum. Útkoman bragðlega séð var alveg dásamleg svo ljósin skiptu minna máli. Samsetningin snarvirkaði.. gott salat er bara svo gott!

min_IMG_4433Kjúklinga taco salat (fyrir 3):

  • 2 kjúklingabringur
  • Gott bragðmikið krydd, t.d Chilli explosion og kjúklingakrydd
  • 1 höfuð lambhagasalat
  • 3 vænir eldrauðir tómatar
  • 1 – 2 lárperur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 gul paprika
  • Ferskt kóríander eftir smekk
  • 2-3 dl rifinn góður ostur, ég notaði Maríbó og Óðalsost
  • Nokkrar nachosflögur muldar yfir. Ég notaði Blue corn chips sem ég fann í Bónus og gefa skemmtilegan lit.
  • 1 límóna

Chillidressing:

  • 1 msk majónes
  • 1 dl ab mjólk eða hrein jógúrt
  • 3 – 4 tsk chillimauk t.d Sambal Oelek, Sriracha sósa eða bæði
  • 1 tsk hunang
  • 2 tsk hvítvínsedik
  • Safi úr 1/2 límónu
  • Salt eftir smekk
  • Þynnt með smá vatni ca. 1-2 msk

Aðferð: Byrjið á að skera kjúklingabringurnar í tvennt á þykktina. Kryddið vel báðum megin og steikið þar til eldaðar í gegn. Takið þá af pönnunni og skerið í strimla. Skerið salatið niður og setjið á fat eða stóran disk. Skerið tómata, papriku, lárperu og lauk niður og stráið yfir ásamt helmingnum af rifna ostinum. Setjið kjúklingastrimlana ofan á. Stráið restinni af ostinum yfir ásamt nachosflögum og kóríander. Hellið smá chillidressingu yfir. Berið fram með chillidressingunni og límónubátum.min_IMG_4428

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Gott salat, Hugmyndir fyrir matarboð, Kjúklingasalat, Léttir réttir, Mexikóskt kjúklinga salat, Mexíkóskur matur, salat

Fylltar ofnbakaðar tortillarúllur

júní 20, 2013 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_2901Svei mér þá ef sumarið er ekki bara komið. Ég ætla að leyfa mér að segja það. Sonur minn spyr mig nánast daglega hvenær sumarið komi og skilur illa útskýringar mínar um að stundum rigni á sumrin. ”Getum við þá ekki farið í útilegu?”.. Fyrir honum er sumarið sól, ís á palli, stuttbuxur, gras, grillaðar pylsur og frisbídiskur. Ég sit allavega úti á palli í þessum skrifuðu orðum í smá hádegishléi frá lestri fræðibóka og almennum lokaritgerðarhugleiðingum, sólin skín í heiði og það er pottur á pallinum. Mig langar að deila með ykkur mikilli uppáhaldsuppskrift sem er í senn einföld og sérstaklega góð. Þessar rúllur hafa fylgt mér lengi og þróast aðeins með árunum þó að vissulega séu nú engin geimvísindi á bakvið þær. Mér þykir þetta upplagður föstudags- eða laugardagsmatur þegar alla langar í eitthvað gott að borða og vilja gera vel við sig án mikillar fyrirhafnar.

min_IMG_2908Fylltar ofnbakaðar tortillarúllur (fyrir 4):

  • 500-600 gr hreint ungnautahakk (einn góður bakki)
  • 1 krukka salsa sósa (ég nota milda)
  • 1-2 dl vatn
  • Krydd t.d reykt paprika, cumin, hvítlauksduft og Krydd lífsins
  • Ferskt kóríander (má sleppa)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1 lítil dós hreinn rjómaostur
  • 6 heilhveiti tortilla kökur (minni gerðin)
  • 1 poki rifinn ostur (t.d pizzaostur)
  • 1 box piccolo tómatar skornir í fernt
  • 5 vorlaukar saxaðir smátt
  • 1 rauð paprika smátt söxuð
  • 2 avocado skorin í sneiðar

Aðferð: Hitið ofninn í 200 gráður. Byrjið á að saxa niður grænmetið. min_IMG_2879Steikið kjötið svo vel og kryddið það eftir smekk.min_IMG_2868Þegar kjötið er brúnað hellið salsasósunni yfir ásamt vatni og leyfið þessu að sjóða í ca. 5 mínútur. min_IMG_2875Takið þá af hitanum og bætið smá söxuðu kóríander saman við. min_IMG_2884Leggið tortillaköku fyrir framan ykkur. Smyrjið á hana 1 msk af rjómaosti. min_IMG_2886Setjið því næst 1/6 af hakkinu ofaná ásamt ca. matskeið af rifnum osti. min_IMG_2888Rúllið kökunni upp og leggið í eldfast mót.min_IMG_2890Endurtakið þar til allar kökurnar eru fylltar. min_IMG_2894Setjið sýrðan rjóma hér og þar yfir kökurnar.min_IMG_2895 Stráið því næst söxuðu grænmetinu yfir og restinni af rifna ostinum. min_IMG_2896Bakið við 200 gráður í 15 mínútur. Berið fram með avocadosneiðum og brosi á vör 🙂min_IMG_2915

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur matur, Fljótlegur matur, Fylltar tortillur, Hakkréttir, Mexíkóskt lasagna, Mexíkóskur matur, Piccolo tómatar, Tortilla uppskrift, Tortillur

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme