• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Ódýr matur

Taco súpa

júní 12, 2014 by helenagunnarsd 20 Comments

min_IMG_5953Ef ég hef einhvern tímann sagt að súpur séu kjörinn vetrarmatur, sem ég hef örugglega gert, þá tek ég það til baka. Ég er hrifin af súpum allt árið um kring og fæ ekki nóg af að prófa nýjar útgáfur. Mér þykir þessi súpa meira að segja bara þræl sumarleg með þessum fallegu grænu og rauðu litum og ilmandi límónubátum. Þetta er svona maturinn sem ég elda þegar ég er kannski pínulítið stressuð og langar að slaka á í eldhúsinu og elda eitthvað rólegt og fallegt. Jafnast á við bestu íhugun að standa yfir gómsætri súpu, sjá hana umbreytast úr nokkrum hráefnum úr ísskápnum, smá kryddi og vatni yfir í þessa dásamlegu máltíð. Þessi tiltekna súpa er svona ”slá í gegn súpa”. Kjörin veislusúpa sem er auðvelt að gera mikið magn af og meðlætið gerir hana svo sparilega og sérstaka. Svo er hún auðvitað líka bara upplögð heima súpa fyrir fjölskylduna. Prófið þessa og leyfið mér að vita hvernig ykkur líkaði. Ég mæli innilega með henni!min_IMG_5961

Taco súpa:

  • 500 gr nautahakk
  • 2 rauðlaukar
  • 2 paprikur
  • 3 hvítkauksrif
  • 2 tómatar
  • 1 lítil sæt kartafla
  • 3 msk tacokrydd
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 krukka mild chunky salsa (350 gr)
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 l vatn
  • 2 msk rjómaostur, ég nota philadelphia light
  • 2 msk rjómi

min_IMG_5935Aðferð: Skerið rauðlauk, papriku og hvítlauk smátt. Hitið stóran pott og brúnið nautahakkið í pottinum. Bætið grænmetinu út í og látið krauma þar til það mýkist aðeins. Kryddið með tacokryddinu og setjið gróft skorna tómatana út í. Setjið salsasósuna, tómatpúrru, kjúklingatening og vatn út í og hleypið suðunni upp. Skerið sætu kartöfluna í litla teninga og bætið út í. Látið sjóða við hægan hita í 20-30 mínútur. Bætið þá rjómanum og rjómaostinum saman við og smakkið til með salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Mér finnst svo gott að stappa aðeins sætu kartöflurnar í súpunni með gamaldags kartöflustappara, áður en ég ber hana fram þá þykknar súpan aðeins. Súpan er góð strax, en enn betri daginn eftir svo það er upplagt að gera auka fyrir nestið eða í matinn seinna. Berið súpuna fram með meðlætinu góða og kreistið dálítinn límónusafa yfir hverja skál. Njótið í botn!

min_IMG_5965Meðlætið:

  • 5 tortillakökur
  • Avocado í bitum
  • Rifinn maríbó ostur
  • Smátt saxaður vorlaukur
  • Límónubátar

Page_1Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Staflið tortillakökunum upp, skerið í tvennt og svo í mjóar ræmur. Leggið á ofnplötu, dreifið örlítilli olíu yfir og sjávarsalti og blandið vel saman. Bakið í 15 mínútur og hrærið aðeins í kökunum einu sinni eða tvisvar yfir bökunartímann. Látið kólna og berið fram með súpunni. min_IMG_5955min_IMG_5963

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð súpa, kvöldmatur humgyndir, mexíkó súpa, mexíkósk súpa, Mexíkóskur matur, Ódýr matur, salsa súpa, Súpa, súpa fyrir marga, súpa fyrir veislu, taco súpa

Tælensk massaman súpa

febrúar 25, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5111…Og súpuæðið hjá undirritaðri heldur áfram. Massaman karrý er einhver besti matur sem ég veit um og undantekningarlítið verður hann massaman kallinn fyrir valinu þegar ég rek nefið inn á tælenska veitingastaði. Almennt þykir mér tælenskur matur bara alveg afskaplega góður og af hverju ég hef ekki farið til Tælands skil ég hreint ekki. Það er þó ansi ofarlega á óskalistanum og verður vonandi af því einhvern daginn. Það var svo á dögunum að ég fór í mat til vinkonu minnar sem eldaði fyrir okkur alveg dásamlega gott massaman karrý. Ég hef eiginlega verið að hugsa um það síðan svo það varð innblásturinn að þessari stórgóðu massaman karrý súpu. min_IMG_5110Ég mæli með því að næla sér í gott massaman karrý mauk, það besta væri auðvitað að búa það til sjálfur en við skulum bara vera raunsæ hérna. Ég keypti það sem ég notaði í súpuna í tælensku búðinni við Hlemm en ég veit að það fæst líka mjög gott karrýmauk í Kolaportinu og örugglega víðar. Svo er svona mauk vissulega til líka í einhverjum stórmörkuðum. En heimsókn í tælensku búðina á Hlemmi, að ég tali nú ekki um í Kolaportið er svo skemmtileg að það ætti enginn að láta það hrindra sig í að búa súpuna til. En jæja, að uppskriftinni. Eins og með svo margar súpur er um að gera að nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég átti til dæmis afgang af grilluðum kjúklingi eins og þessum hér, með bökuðum gulrótum. Svo átti ég lítið blómkálshöfuð í grænmetisskúffunni ásamt lauk og hvítlauk og kjúklingabaunadós í búrskápnum. Tiltölulega ódýr hráefni sem breyttust í þessa afar ljúffengu máltíð.

min_IMG_5101Tælensk massaman súpa (fyrir 4):

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk kókosolía eða önnur matarolía
  • 4 vænar msk massaman karrýmauk (meira ef þið viljið sterkari súpu)
  • 2 msk hrásykur
  • 2 kjúklingabringur skornar smátt eða t.d afgangur af elduðum kjúklingi
  • 1 lítið blómkálshöfuð
  • 1-2 Gulrætur eða það grænmeti sem til er
  • 2 dósir kókosmjólk + 1 l vatn (meira vatn ef þið viljið þynnri súpu)
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 msk sojasósa

Aðferð: Skerið grænmetið og kjúklinginn smátt.min_IMG_5086 Hitið olíu í potti og steikið laukinn og hvítlaukinn í 1-2 mínútur.min_IMG_5089 Bætið karrýmaukinu útá og steikið þar til það mýkist aðeins og byrjar að ilma vel. min_IMG_5090Stráið sykrinum yfir, bætið svo kjúklingnum og grænmetinu saman við og steikið aðeins áfram (Athugið að ef þið notið hráan kjúkling þarf ekki að elda hann áður en þið setjið hann út í súpuna, gætið þess bara að sjóða hann í súpunni þar til eldaður í gegn). min_IMG_5091Hellið kókosmjólkinni yfir ásamt einum lítra af vatni. min_IMG_5094Setjið kjúklingabaunirnar saman við ásamt kjúklingakraftinum og sojasósunni. Hleypið suðunni upp og látið sjóða rólega við vægan hita í 5 mínútur. min_IMG_5093Smakkið til með sojasósu eða sjávarsalti og e.t.v. hrásykri ef ykkur finnst þurfa meiri sætu. Berið fram rjúkandi heita. Súpan að vera braðgmikil og rífa vel í.min_IMG_5116

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta súpuuppskriftin, Góð kjúklingasúpa, Góð súpa, Góð súpa uppskrift, Góðar súpuuppskriftir, Grænmetissúpa, Kjúklingasúpa, Ódýr matur, Súpur uppskriftir, Tælensk kjúklingasúpa, Tælensk súpa

Matarmikil gúllassúpa

september 9, 2013 by helenagunnarsd 23 Comments

min_IMG_4007

Þrátt fyrir að eiga hvorki frystiskáp né frystikistu eins og sönnum húsmæðrum sæmir, heldur einungis þrjár nettar frystiskúffur, tekst mér alltaf að gleyma hvað ég á í frystinum. Þessar þrjár skúffur eru eins og svarthol, taka endalaust við og einhvernveginn fer ekkert upp úr þeim sem á annað borð lendir í þeim. Kannski smá ýkjur en þetta er samt upplifunin. Ég hugsa að við gætum sleppt því að fara í matvörubúð í tvær vikur og hefðum samt nóg af kjöti, fiski og öðru góðgæti. Ég sumsé hef verið að grafa mig í gegnum frystiskúffurnar og elda úr því sem þar er til, meðal annars lumaði ég á poka af ungnautagúllasi frá Mýranauti, sem ég hafði steingleymt. Mér er ekki borgað fyrir að auglýsa Mýranaut – en ég verð bara að segja einu sinni enn hvað mér þykir nautakjötið þaðan afburðargott. Fólk með stærri frystigeymslur en ég ætti allavega íhuga að kaupa sér nautakjöt þaðan. min_IMG_3992Nú, gúllas er þannig biti að hann þolir langa eldun afskaplega vel. Ég mæli því ekki með því að elda þessa súpu í hraði og bera hana á borð hálftíma eftir að þið byrjið að elda. Fyrir mér er sjarminn við gúllassúpur lungamjúkt kjöt og bragð sem hefur fengið að malla lengi við hægan hita. Það sem mér finnst sniðugt að gera er að útbúa súpuna daginn áður en hún á að vera í matinn, leyfa henni að malla í hálftíma, slökkva svo undir henni og láta hana kólna og geyma svo í ísskáp þar til maður ætlar að nota hana. Þá er gott að hita hana upp við vægan hita og leyfa henni að malla í klukkustund. Þetta sparar allavega smá tíma ef maður getur ekki með góðu móti látið súpuna malla í þá 2-4 tíma sem hún á skilið til að verða dásamleg. Þetta þýðir samt ekki að súpan taki langan tíma í undirbúningi, ég hugsa að ég hafi staðið við eldavélina í 20 mínútur, eftir það eldar súpan sig bara sjálf. Þetta er einhver besta gúllassúpa sem ég hef smakkað, virkilega einföld og ekki of mörg hráefni að þvælast fyrir manni.

min_IMG_3978Matarmikil gúllassúpa (fyrir 4-6)

  • 600 gr smátt skorið ungnautagúllas
  • 2 msk smjör
  • 2-3 laukar, skornir í tvennt og svo sneiðar
  • 1/2 chillialdin, fræhreinsaður og skorinn í sneiðar
  • Krydd: 1 tsk paprikuduft, 1 tsk timían, 1 tsk cummin
  • 1 krukka tómatpassata (Frá Sollu)
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 msk hunang eða önnur sæta
  • 1 l vatn – (fer þó aðeins eftir smekk)
  • 2 teningar nautakraftur
  • 1 stór bökunarkartafla, skorin í teninga
  • 1/2 sæt kartafla, skorin í teninga
  • 1,5 dl rjómi
  • Salt og pipar og fersk steinselja til að strá yfir í lokin

min_IMG_3965Aðferð: Byrjið á að skera gúllasið í litla bita, mér þykir gúllas oftast í of stórum bitum fyrir svona súpur. Þerrið kjötið vel og kryddið með salti og pipar.min_IMG_3963 Hitið stóran pott við háann hita og bræðið smjörið. Steikið kjötið þannig að það brúnist vel. Færið kjötið svo upp á disk og lækkið hitann. Steikið laukinn í 10-15 mínútur, þannig að hann mýkist vel og taki á sig smá lit. min_IMG_3966Bætið kjötinu aftur út í ásamt chilli og kryddum og steikið aðeins áfram. min_IMG_3967Setjið tómatpaste-ið saman við ásamt, kraftinum, tómötunum, hunangi og vatni og hleypið suðunni upp. min_IMG_3969Flysjið kartöflurnar á meðan suðan er að koma upp og bætið þeim svo út í. min_IMG_3974Leyfið súpunni að sjóða í 30 mínútur. Lækkið þá hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Mér þykir gott að hafa svona súpur dálítið þykkar svo ég stappaði aðeins kartöflurnar í súpunni með kartöflustappara, þannig að sumar voru í bitum og sumar vel stappaðar og þykkja þá súpuna. min_IMG_3978Leyfið súpunni að malla við vægan hita með loki í 2-4 tíma. Því lengur því betra. min_IMG_4004

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góð súpa, Góðar súpuuppskriftir, Gúllassúpa, Matarmikil súpa, Ódýr matur, Súpa fyrir veislur, Súpu uppskriftir

Tagliatelle alla carbonara

ágúst 25, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_3836Pasta hefur ekki verið á borðum hér á heimilinu í langan tíma. Það koma þó tímar þegar pasta er það eina sem virkar og virðist einhvernveginn vera það eina rétta í stöðunni. Svona tími var einmitt í gær. Það var rigning, laugardagskvöld, heimilisfólkið dálítið þreytt og eldhús nennan ekkert sérstaklega mikil. Maðurinn minn hefur alveg einstaklega einfaldan smekk þegar kemur að mat og lengi vel var pasta carbonara uppáhaldsmaturinn hans. Ég hef þó ekki eldað carbonara í mjög, mjög langan tíma, sennilega ekki í tvö eða þrjú ár. Enda hefur matarsmekkurinn breyst og maður og kona geta bara ekki borðað pasta í öll mál. Þetta var því dálítið nostalgískt endurkoma carbonara inn á heimilið. Ég mæli eindregið með því að þið prófið að elda þennan einfalda en stórgóða rétt.

min_IMG_3842Tagliatelle alla carbonara (fyrir 3-4):

  • 400 grömm tagliatelle eða spaghetti
  • 1 egg og 4 eggjarauður
  • 100 gr rifinn parmesan ostur
  • 1 dl rjómi
  • Beikon – 1 bréf, ca. 150-200gr, skorið í litla bita
  • 1/4 tsk múskat
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar (ég nota hvítan pipar í þennan rétt)
  • Handfylli fersk steinselja, söxuð

Aðferð: Byrjið á að sjóða vatn í stórum potti og setjið pastað útí. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum þar til pastað er al dente. Á meðan pastað sýður, hitið frekar stóra pönnu og steikið beikonið þar til það er stökkt. Hrærið eggið, eggjarauðurnar, rjómann, parmesan (skiljið smá eftir til að strá yfir í lokin), múskat og pipar saman í skál. Þegar pastað er tilbúið, takið þá einn bolla frá af pastavatninu og hellið vatninu svo af pastanu.

Slökkvið undir beikonpönnunni, hellið pastanu yfir beikonið og því næst eggjablöndunni. Passið að taka pönnuna af hitanum og blandið öllu vel saman. Þynnið sósuna með pastavatninu eftir smekk. Kryddið með salti ef þarf, nýmöluðum pipar og stráið yfir steinselju og meiri parmesan osti. Mér finnst ansi frískandi að bera réttinn fram með sítrónubátum og kreista smá yfir pastað, lyftir bragðinu upp á aðeins hærra plan. Njótið með góðu rauðvínsglasi og kertaljósi!min_IMG_3838

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Carbonara, Carbonara sósa, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, Ítalskur matur, Ódýr matur, Pasta carbonara, pasta uppskrift, Spaghetti carbonara

Blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk

apríl 28, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2187Syni mínum þykir blómkálssúpa hinn mesti hátíðarmatur og hoppar hæð sína af gleði í hvert sinn sem ég verð að ósk hans og elda þann góða rétt. Það sem mér þykir þó sennilega mesta syndin varðandi alla þessa blómkálsaðdáun barnsins er að honum þóttu hefðbundnar hveitiuppbakaðar saltstappaðar blómakálspakkasúpur alveg dásamlegar. En það þótti móður hans ekki, verandi þó talsverður blómkálssúpuaðdáandi sjálf. Það er nefnilega svo einfalt, gott og ódýrt að útbúa sjálfur dáfínar súpur frá grunni. Ég þarf svo varla að sannfæra ykkur um hvað útkoman verður margfalt betri. Sá stutti drakk allavega , já drakk, súpuna úr skálinni þar til hann gat ekki meira og var eitt stórt alsælt blómkálsbros á eftir.

Með því að rista blómkálið í pottinum áður en vökvanum er bætt út í kemur smá hnetukeimur af því og súpan fer á aðeins hærra plan en gamla pakkasúpan. Sýrði rjóminn og laukurinn gefa svo þessari súpu alveg einstaklega gott bragð sem smellpassar við blómkálið og gerir súpuna svolítið sparilega.

min_IMG_2182Ristuð blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk (fyrir 4-5):

  • 1 stór eða 2 litlir skallottulaukar, smátt saxaðir
  • 2 msk smjör
  • 1 stórt blómkálshöfuð, gróft skorið
  • 1 l vatn (má vera aðeins meira, þá verður súpan örlítið þynnri)
  • 2-3 tsk góður grænmetiskraftur (eða 2 góðir teningar)
  • 1 peli rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Salt og pipar

Page_1Bræðið smjörið í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann mýkist. Bætið blómkálinu þá út í og hækkið hitann. Steikið þar til blómkálið hefur aðeins brúnast. Bætið þá vatni, rjóma og grænmetiskraftinum út í. Látið suðuna koma upp og leyfið að malla í um 10 mínútur eða þar til blómkálið hefur mýkst. Bætið þá vorlauknum út í og maukið súpuna með töfrasprota. Smakkið til með salt og pipar.Page_2Ef ykkur finnst hún of þykk má þynna hana með smá vatni ef of þunn þá má þykkja hana  með smá maizena mjöli. Þetta fer nú allt eftir smekk. Hrærið sýrða rjómanum út í súpuna í pottinum með písk og berið hana fram með söxuðum vorlauk og góðu nýbökuðu brauði, til dæmis þessum ljúffengu ostabollum, uppskriftina má finna hér.min_IMG_2178

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Blómkálssúpa, Einföld súpa, Fljótlegur matur, Góð súpa, Grænmetissúpa, LKL súpa, LKL uppskrift, Ódýr matur

Chili con carne

apríl 14, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_2050Stundum finnst mér alveg óhemju erfitt að finna íslensk nöfn á hinar ýmsu uppskriftir og rétti sem ég set hingað inn. Þetta gæti hugsanlega litast vegna þess hversu mikið af matartengdu efni sem ég nálgast er á ensku. Flestar uppskriftasíður, tímarit og matreiðsluþættir sem ég horfi á eru jú á ensku. Og maður minn hvað það virðist alltaf auðvelt fyrir enskumælandi fólk að búa til sniðug, girnileg og lýsandi heiti yfir hina ýmsu rétti. Sumir réttir eru bara varla til á íslensku. Ég tek sem dæmi ”Banana bread french toast”. Hvað heitir french toast til dæmis á íslensku? Veit það einhver? Varla eggjabrauð? Ég gæti ímyndað mér að þessi réttur gæti verið kallaður: Frönsk rist úr bananabrauði..? Hljómar bara ekki nógu vel samt!

En talandi um þetta ætla ég að segja ykkur frá rétti dagsins. Ég lenti einmitt í svona klípu þegar ég hafði eldað þetta og fór svo að hugsa hvað í ósköpunum ég gæti kallað þetta. Í Ameríku væri sennilega hægt að kalla þetta ”Chili with toppings” En þar í landi er nafnið ”Chili” notað yfir ýmsar útgáfur af bragðmiklum kjötkássum, gjarnan með baunum, chilipipar, nautakjöti og ýmsu góðgæti. Þetta er oftast borðað úr skál og ofan á eru sett hin ýmsu ”toppings”. Tortillaflögur, ostur, avocado, sýrður rjómi, laukur o.s.frv. Hér á landi hafa svona kássur oft gengist undir nafninu Chili con Carne (Chili með kjöti), sem er sennilega hægt að rekja til mexíkósks uppruna réttarins. Ef hann er þá mexíkóskur? Burtséð frá þessu öllu saman þá er þetta alveg æðislega góður réttur, ”toppings-ið” gerir alveg útslagið og vel hægt að leika sér svolítið með það. Þetta er mjög einfalt og fljótlegt að útbúa en voða gott að leyfa þessu að malla í góðan tíma. Þetta er svona réttur sem verður bara betri daginn eftir.

Chili con Carne (fyrir 5):

  • 1 kg hreint ungnautahakk
  • 1 rauðlaukur, smátt saxaður
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 1 stór rauð paprika, smátt skorin
  • 2-3 hvítlauksrif, smátt skorin eða rifin
  • 1 krukka tómatpassata
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 msk sambal oelec chillimauk, má vera minna (úr krukku, fæst t.d í Bónus)
  • 1 msk hunangs dijon sinnep
  • 2 msk Worchestershire sósa
  • Salt og pipar og límónusafi eftir smekk

min_IMG_2036Ofaná:

  • Sýrður rjómi
  • Rifinn ostur (ég notaði maribó og sterkan gouda)
  • 2 Avocado, skorin í teninga
  • 4-5 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Ferskt kóríander
  • Límónu bátar

Aðferð:

Steikið laukinn og hvítlaukinn í stórum potti við meðalhita þar til laukurinn verður glær, kryddið með salt og pipar. Bætið þá paprikunni út í og steikið áfram. Hækkið hitann og bætið hakkinu út á. Steikið vel þar til hakkið hefur brúnast. Bætið þá út í tómatpaste og steikið aðeins áfram. Page_1Setjið svo worchestersósu, tómatpassata, chillimauk og sinnep saman við og smakkið aðeins til með salti, pipar og límónusafa. Page_2Setjið lok á og leyfið þessu að malla í a.m.k 30 mínútur við hægan hita. Allt í lagi að láta það malla styttra en þeim mun lengur, því betri verður rétturinn. Ef ykkur finnst sósa of þykk má alveg bæta smá vatni út í. min_IMG_2029Berið fram með meðlætinu í litlum skálum til hliðar svo hver og einn geti valið sér meðlæti. min_IMG_2042

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Chili con carne, Einfaldur matur, Hakkréttir, Nautahakk uppskriftir, Ódýr matur

Pestó prestó pizzu frittata

mars 21, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1651Suma daga þegar ég nenni engan veginn að elda kvöldmat, (já það gerist) þá langar mig eiginlega heldur engan veginn að kaupa tilbúinn mat. Það eru allavega ekki margir ”take away” staðir sem heilla mig þessa dagana. Ef það er eitthvað, þá er það helst tælenskur eða indverskur matur sem stundum læðist tilbúinn hingað inn á heimilið. Eftir að hafa smakkað besta tælenska mat utan Tælands lætur maður ekki bjóða sér hvaða tælenska mat sem er. Við erum að tala um Gamla Síam á Laugarveginum, sannarlega í miklu uppáhaldi og þrátt fyrir að búa langt ofan snjólínu í nágrenni Litlu kaffistofunnar kemur fyrir að við gerum okkur ferð niður af fjallinu til að kaupa þann dásamlega tælenska mat. Hann er engum líkur! Mæli sérstaklega með núðlusúpunni (extra spicy) og Massaman Karrý með kjúkling, þetta er æði.

En þessi pestó prestó eggjapizza/frittata er einmitt svona matur sem gott er að grípa til þegar enginn nennir neinu. Það þarf varla að elda þetta og tekur bara um 5 mínútur að mixa þetta saman. En útkoman er bara dáfín, sæmilega holl og börn sem fullorðnir geta vel kallað þetta kvöldmat ef þau eru bara með opinn huga. Á mínu heimili þykir gott að hafa kotasælu með pizzum, ég geri mér grein fyrir að það þykir ekki fínt svona almennt. Þetta er nú bara tilkomið vegna móðurömmu minnar sem þótti ekkert sérstaklega varið í pizzur en taldi þær öllu skárri ef kotasælu, sem hún kunni afar vel að meta, var smurt ofan á. Hér er því oftast kotasæla borin fram með pizzum og syni mínum þykir það alveg afbragðsgott og ómissandi.. Mér finnst svo alveg ótrúlega gott að setja Sriracha sósu yfir svona eggjakökur og toppa þær svo með smá baunaspírum. Í þetta sinn notaði ég alveg æðislega góðar íslenskar blaðlauksspírur sem ég fékk í Hagkaup.

IMG_1649Pizzu pestó frittata (fyrir tvo):

  • 4 egg
  • Salt, pipar og óreganó
  • 2 msk grænt pestó
  • Nokkrar sneiðar silkiskorin hunangsskinka
  • Nokkrar ostsneiðar eða rifinn ostur
  • Ofaná: Sriracha sósa, kotasæla og spírur

Aðferð: Kveikið á grillinu í bakarofni. Hærið eggin saman með örlitlu vatni. Kryddið með salti, pipar og óreganó. Hitið smá olíu á pönnu við háan/meðalhita og hellið eggjunum á pönnuna. Þegar þau eru næstum elduð í gegn smyrjið þá pestóinu ofan á, raðið svo skinkunni og ostinum yfir. Kryddið með aðeins meira óreganó. Stingið þessu aðeins undir grillið í ofnum þar til osturinn er farinn að bakast. (Líka hægt að setja lok á pönnuna og bíða þar til osturinn bráðnar). IMG_1652Hellið eggjakökunni af pönnunni, skerið í sneiðar og berið fram með kotasælu, sriracha og spírum. Veriði svo bara ánægð með að það sé kvöldmatur sem þið elduðuð á matarborðinu en ekki eitthvað keypt.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Eggjakaka, Eggjakaka uppskrift, Fljótlegur matur, Frittata uppskrift, Ódýr matur, Pizza úr eggjum

Lumaconi Rigati Grande al Forno (Ofnbakaðar pastaskeljar)

mars 16, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1480Mikið sem það er gaman að slá um sig með ítölskum matarorðum. Manni líður ósjálfrátt eins og ítalskan alveg steinliggi fyrir manni. En svo gott er það nú víst ekki þó það væri óskandi. Lumatoni Rigati Grande al Forno hljómar bara svo miklu betur heldur en ofnbakaðar pastaskeljar. Þessi réttur er einstaklega fljótlegur og góður að ég tali nú ekki um hversu barnvænn hann er. Þar sem hráefnið er einfalt og frekar ódýrt mæli ég eindregið með að splæsa í góða niðursoðna tómata í réttinn. Mér hafa fundist tómatarnir frá Sollu í glerkrukkunum mjög góðir, ég fæ þá t.d í Bónus. Eins eru til virkilega góðir ítalskir tómatar í dósum í sumum verslunum. Það jafnast engir niðursoðnir tómatar á við ítalska tómata að mínu mati, þeir kunna þetta þarna suðurfrá. IMG_1468

Lumatoni Rigati Grande al Forno (fyrir 4-6):

  • 500 gr. pastaskeljar
  • Góð ólífuolía
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 2 hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 1 tsk þurrkað rósmarín
  • 2 dl hvítvín (eða vatn og smá sítrónusafi)
  • 2 krukkur hakkaðir tómatar (lífrænir í glerkrukku frá Sollu, eða 3 dósir)
  • 2 msk tómatpaste
  • 2 msk rjómi (má sleppa)
  • Salt, pipar og örlítið hunang eða önnur sæta
  • 1 kúla ferskur mozarella ostur
  • Rifinn parmesan ostur eftir smekk

Aðferð: Hitið ofn í 220 gráður með blæstri. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Ég notaði þessar stóru skeljar (Lumaconi Rigati Grande) sem ég fékk í Hagkaup í Garðabæ. Það væri líka gott að nota t.d penne, gnocchi skeljar eða skrúfur.IMG_1470

Á meðan pastað er að sjóða: Hitið ólífuolíu á pönnu og leyfið lauknum og hvítlauknum að malla í olíunni við meðalhita í um 5 mínútur. Kryddið með rósmarín, salti og pipar. Hellið hvítvíninu eða vatninu út á og leyfið að sjóða niður um helming. Bætið þá tómötunum og tómatpaste út á ásamt rjóma. Smakkið til með salti og pipar. Ef tómatarnir eru mjög súrir getur verið gott að setja smá sætu líka, t.d hunang. Leyfið þessu að malla í ca. 10 mínútur. Hellið vatninu af pastanu. Setjið það í eldfast mót. Hellið tómatasósunni yfir og blandið saman. Klípið mozarella ostinn í litla bita yfir pastað og rífið smá parmesan ost. Bakið í 10 mínútur. Berið fram með góðu salati og rifnum parmesan osti. IMG_1490

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur pastaréttur, Fljótlegur matur, Grænmetisréttur, Ódýr matur, Ofnbakað pasta, Pasta í tómatsósu, Pastaskeljar

Rösti ..

mars 13, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1404Rösti (borið fram: rrosscchhtí) er upprunalega svissneskur réttur sem samanstendur af rifnum kartöflum. Hann er oft borinn fram með góðum osti, kjöti, grænmeti eða t.d spældu eggi. Ég smakkaði þennan rétt fyrst í Sviss þegar ég var lítil stelpa. Ég er kannski með óeðlilega gott minni þegar kemur að mat, en ég man nánast eins og það hafi gerst í gær þegar við fjölskyldan fóru á svissneskan veitingastað í fallegum smábæ í Sviss sem leit út eins og á póstkorti, og fengum þar ómótstæðilega gott rösti. Síðan þá hef ég bara ekki fengið jafn gott rösti. Það er nefnilega smá kúnst að gera þennan kartöflurétt almennilega.. eftir smá rannsóknarvinnu ákvað ég að gera tilraun heima sem heppnaðist mjög vel. Ég myndi halda eftir þetta grúsk mitt, að lykillinn að því að gera gott rösti sé að léttsjóða kartöflurnar og leyfa þeim að kólna áður en þær eru rifnar niður og steiktar, og já eins og galdurinn að flestu sem er gott, steikja þær upp úr smjöri.

IMG_1406Ég sit einmitt oft uppi með kartöflur sem ég veit ekki hvað ég á að gera við vegna þess að við erum ekkert svo mikið kartöflufólk. Sonur minn er hins vegar forfallinn kartöflu aðdáandi og þess vegna elda ég þær handa honum af og til. Ég verð þó að viðurkenna að ég þarf oftar en ekki að henda kartöflum, sérstaklega ef ég kaupi heilan poka sem inniheldur tvö kíló af blessuðum jarðeplunum. Þetta er því alveg upplögð uppskrift ef þið eigið kartöflur í ísskápnum sem liggja undir skemmdum. Ég er allavega ekki hissa á vinsældum þessa réttar í Sviss og það er langt síðan ég hef eldað jafn ódýran og einfaldan mat sem naut jafn mikilla vinsælda og þessi réttur gerði! Hann sló algerlega í gegn á heimilinu og stendur vel fyrir sér sem kvöldmatur með góðu salati. Það má svo vel skipta kjötinu og ananasnum út fyrir hvaða grænmeti eða annað kjöt sem er. Þetta fer bara eftir því hvað er til í ísskápnum, um að gera að nota það sem til er.

Rösti (fyrir 3 sem aðalréttur):

  • 6 meðalstórar kartöflur
  • 1/2 laukur
  • 2 msk smjör, salt og pipar
  • Góð skinka, t.d niðursneiddur hamborgarhryggur.
  • Ananashringir
  • Rifinn bragðmikill ostur, svissneskur gruyére væri sennilega mest viðeigandi en þar sem erfitt er að fá hann notaði ég íslenska ostinn Tind. Mæli með honum.

IMG_1387Aðferð: Kartöflur settar í kalt léttsaltað vatn og suðan látin koma upp. Ég sauð kartöflurnar í sjö mínútur eftir að suðann kom upp (fer svolítið eftir stærð, þær eiga að vera næstum því mjúkar í gegn, samt ekki alveg). Þá eru þær settar á disk og leyft að kólna alveg. (Þetta er sniðugt að gera t.d að morgni og skella kartöflunum svo inn í ísskáp). Þegar kartöflurnar eru kaldar er ofn hitaður í 200 gráður. Kartöflurnar flysjaðar og svo rifnar með grófu rifjárni. Laukurinn er svo rifinn saman við. Saltað og piprað vel. Bræðið um 1 msk af smjöri á pönnu og hellið kartöflunum á pönnuna.

IMG_1390Mótið köku úr kartöflunum og leyfið að steikjast á meðalhita í um 10 mínútur. Alls ekki hafa of háan hita. Setjið því næst disk ofan á pönnuna og hvolfið kartöflukökunni á diskinn. Setjið aðeins meira smjör, ca. 1 tsk á pönnuna og leyfið að bráðna. Hellið kökunni svo aftur á pönnuna og steikið á hinni hliðinni. Raðið skinkunni, ananas og rifnum osti ofan á og stingið inn í ofn í u.þ.b 10 mínútur. Borið fram með góðu grænu salati og ef til vill smátt söxuðum vorlauk.IMG_1409

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur matur, Kartöflu uppskriftir, Kartöflur, Ódýr matur, Rifnar kartöflur, Rösti, Rösti uppskrift

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme