Hef haft aðeins of mikið að gera undanfarnar vikur. Ansi hreint mikið að gera í skólanum, kennslu, kórastarfi og öðru skemmtilegu. Þessar bollur eru því alveg í stíl við annríkið sem hefur verið á mér þar sem það tekur aðeins um 5 mínútur að hræra í þær og 20 mínútur að baka þær. Þær verða alveg ótrúlega léttar og góðar og miklu, miklu betri en rúnstykki úr Bakaríi, heimatilbúið er bara næstum alltaf betra. Ég bauð upp á þessar bollur í morgunkaffi sem ég var með um síðustu helgi. Hrærði í þær rétt áður en gestirnir komu og bar þær svo fram með eggjum, ostum og hinu ýmsasta áleggi. Afganginn bar ég svo fram með súpunni sem ég eldaði seinna í vikunni.
Uppskriftin er mjög svipuð og sú af kotasælubollunum. Í staðin fyrir kotasæluna er bara notast við rifinn ost. Svo er alveg nauðsynlegt að setja rifinn ost ofan á þær til að fá ekta bakarís-ostarúnstykkja útlit á bollurnar.
- 5 dl spelt (Ég notaði 2 dl fínt og 3 dl gróft)
- 3 tsk vínsteinslyftiduft (eða 2 tsk venjulegt lyftiduft)
- 3 msk sesamfræ
- 1 tsk sjávarsalt
- 3 dl rifinn ostur
- 2 dl ab mjólk eða hrein jógúrt
- 1 msk ólífuolía
- 2-2,5 dl sjóðandi heitt vatn (Setjið fyrst 1-2 dl og sjáið svo hvort það þurfi meira vatn þar sem mjöl tekur misvel við vökva)
Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Þurrefnum blandað saman í skál. 2 dl af rifnum osti, ab mjólk og olíu bætt út í og vatninu svo bætt út í. Gott getur verið að bæta vatninu smám saman við en ekki öllu í einu. Það getur verið að þið þurfið ekki allt vatnið. Áferðin á deiginu á að vera eins og þykkur hafragrautur og klístrast við sleifina. Alls ekki hræra lengi.
Búið til 9 stærri eða 12 minni bollur með tveimur matskeiðum og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Dreifið restinni af rifna ostinum yfir hverja bollu. Þær stækka ekki það mikið að 12 bollur eiga vel að komast fyrir á einni plötu. Bakað í 18-20 mínútur.