Mikið sem það er gaman að slá um sig með ítölskum matarorðum. Manni líður ósjálfrátt eins og ítalskan alveg steinliggi fyrir manni. En svo gott er það nú víst ekki þó það væri óskandi. Lumatoni Rigati Grande al Forno hljómar bara svo miklu betur heldur en ofnbakaðar pastaskeljar. Þessi réttur er einstaklega fljótlegur og góður að ég tali nú ekki um hversu barnvænn hann er. Þar sem hráefnið er einfalt og frekar ódýrt mæli ég eindregið með að splæsa í góða niðursoðna tómata í réttinn. Mér hafa fundist tómatarnir frá Sollu í glerkrukkunum mjög góðir, ég fæ þá t.d í Bónus. Eins eru til virkilega góðir ítalskir tómatar í dósum í sumum verslunum. Það jafnast engir niðursoðnir tómatar á við ítalska tómata að mínu mati, þeir kunna þetta þarna suðurfrá.
Lumatoni Rigati Grande al Forno (fyrir 4-6):
- 500 gr. pastaskeljar
- Góð ólífuolía
- 1 laukur, smátt saxaður
- 2 hvítlauksrif, smátt söxuð
- 1 tsk þurrkað rósmarín
- 2 dl hvítvín (eða vatn og smá sítrónusafi)
- 2 krukkur hakkaðir tómatar (lífrænir í glerkrukku frá Sollu, eða 3 dósir)
- 2 msk tómatpaste
- 2 msk rjómi (má sleppa)
- Salt, pipar og örlítið hunang eða önnur sæta
- 1 kúla ferskur mozarella ostur
- Rifinn parmesan ostur eftir smekk
Aðferð: Hitið ofn í 220 gráður með blæstri. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Ég notaði þessar stóru skeljar (Lumaconi Rigati Grande) sem ég fékk í Hagkaup í Garðabæ. Það væri líka gott að nota t.d penne, gnocchi skeljar eða skrúfur.
Á meðan pastað er að sjóða: Hitið ólífuolíu á pönnu og leyfið lauknum og hvítlauknum að malla í olíunni við meðalhita í um 5 mínútur. Kryddið með rósmarín, salti og pipar. Hellið hvítvíninu eða vatninu út á og leyfið að sjóða niður um helming. Bætið þá tómötunum og tómatpaste út á ásamt rjóma. Smakkið til með salti og pipar. Ef tómatarnir eru mjög súrir getur verið gott að setja smá sætu líka, t.d hunang. Leyfið þessu að malla í ca. 10 mínútur. Hellið vatninu af pastanu. Setjið það í eldfast mót. Hellið tómatasósunni yfir og blandið saman. Klípið mozarella ostinn í litla bita yfir pastað og rífið smá parmesan ost. Bakið í 10 mínútur. Berið fram með góðu salati og rifnum parmesan osti.