Það er frekar fyndið að setja inn aðra pæ uppskrift sem lítur næstum alveg eins út og síðasta uppskrift sem ég setti inn. En auðvitað allt öðruvísi á bragðið með allt öðru hráefni. Pæ hafa öðlast nýtt líf í eldhúsinu mínu og ég kann afskaplega vel við að útbúa svona ”röstic” (íslenskt orð óskast) pæ, hvort sem þau eru sæt eða matarmeiri. Möguleikarnir að fyllingum eru endalausir og svo þykja mér þau svo falleg, svona ófullkomin, beygluð og krúttleg. Ást mín á rabarbara er svo eitthvað sem þarf varla að ræða. Mér tekst á hverju einasta sumri að snýkja mér rabarbara úr garði góðhjartaðra ættingja eða vina og helst vill ég snýkja hann snemma því hann verður súrari eftir því sem líður á sumarið. Að þessu sinni var það elskuleg kórsystir mín sem var svo hugguleg að leyfa mér að koma í garðinn og fá hluta af dásamlega rabarbaranum hennar. Myndarlegur, eldrauður og flottur, og alls ekki svo súr, fyrsta flokks rabarbari. Takk Ásdís! Ég hvet ykkur til að prófa þessa útgáfu af rabarbarapæi, engiferið og svarti piparinn passar einstaklega vel við súrt og sætt bragðið af ávextinum. Maður tekur ekki beint eftir því þegar maður smakkar pæið en það rífur örlítið í og gefur alveg extra sérstakan keim.. Prófið bara.
Rabarbarapæ með engifer og svörtum pipar:
- Botninn:
- 3 dl spelt, ég notaði fínt og gróft til helminga
- 1/4 tsk salt
- 3 msk sykur
- 100 gr kalt smjör skorið í litla bita
- 1/2 dl vatn (sett smám saman út í, gæti þurft aðeins meira eða aðeins minna)
- Fylling:
- 1 msk smjör
- 7 dl saxaður rabarbari
- 1 dl sykur (smakkið rabarbarann, stundum þarf meira og stundum minna)
- 1/2 tsk engiferduft
- 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar
- 3 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl
- 1 egg
- 1 msk grófur demerara sykur/hrásykur
Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður og gerið botninn. Myljið smjörið saman við mjölið, sykurinn og saltið með fingrunum þar til frekar vel blandað saman og smjörið komið í litla bita, á stærð við poppbaunir. Bætið vatninu smám saman út í eftir þörfum og vinnið saman með höndunum þar til deigið loðir saman og er ekki of blautt. (Athugið að nota alls ekki allt vatnið ef deigið er komið saman). Hnoðið deigið létt saman með höndunum. Setjið deigið á smjörpappír og leggið aðra smjörpappírsörk ofan á. Fletjið út með kökukefli þar til laglegur um það bil hringur hefur myndast og fyllir nánast út í bökunarplötu. Fjarlægið efri smjörpappírsörkina af útflöttu deiginu og leggið deigið á smjörpappírnum á bökunarplötu. Geymið á meðan fyllingin er útbúin.
Bræðið smjör á pönnu við meðalhita. Bætið rabarbara, sykri, engifer, pipar og maíssterkju út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur á meðalhita eða þar til sykurinn leysist upp og vökvinn sem kemur af rabarbaranum þykknar aðeins. Hellið rabarbara blöndunni á miðjuna á deiginu og dreifið aðeins úr en gætið þess að skilja eftir smá kant. Flettið köntunum á deiginu upp á fyllinguna og athugið að þetta á ekki að vera fullkomið. Penslið kantana með eggi og stráið hrásykrinum yfir kantana og rabarbarann. Bakið neðarlega í ofni í 20-25 mínútur. Leyfið að kólna í 10-15 mínútur áður en pæið er skorið. Berið fram volgt með góðum vanilluís.