Það er auðvitað mesti misskilningur að skýra þessa köku ”brownie”. Fyrir utan það að málfarsráðunautar og íslenskufræðingar fái andarteppu yfir enskuslettri nafngiftinni þá er kakan alls ekkert brún og það er alls ekkert súkkulaði í henni. Þvert á móti er hún ljósgul og dásamleg eins og sól í kökuformi og bragðast eins og sæt sítróna. Titlinum var einungis ætlað að reyna með einhverjum hætti að lýsa hvers konar tegund af köku þetta er. Hún er semsagt blaut eins og brownies eiga það til að vera og samsetning hráefna er ekki ósvipuð, nema að jú, það er ekki notað kakó eða súkkulaði heldur er sítróna notuð til að bragbæta deigið. Gott að þetta er komið á hreint. Þetta er dýrindis kaka sem tekur enga stund að henda í og að sjálfsögðu get ég ekki annað en mælt með að þið prófið!
Sítrónu ”brownie” kaka:
- 150 gr. ósaltað smjör
- 2 stór egg
- 2,5 dl hrásykur
- 1 tsk vanilluextract
- 1/2 tsk salt
- 1 sítróna
- 1,5 dl hveiti eða fínmalað spelt
Aðferð: Hitið ofn í 150 gráður með blæstri. Byrjið á að bræða smjörið í potti og leyfið því að kólna aðeins. Rífið börkinn af sítrónunni með fínu rifjárni, athugið að taka einungis gula hlutann af hýðinu. Kreistið safann úr sítrónunni og setjið til hliðar. Þeytið saman egg, sykur og vanillu þar til létt og ljós. Lækkið hraðann og bætið salti, sítrónuskræli og safa út í ásamt smjörinu. Sigtið hveitið út í og blandið varlega saman við með sleikju. Hellið í smurt form, ca. 20 cm í þvermál og bakið í 35 mínútur. Kælið í forminu, setjið á kökudisk, stráið flórsykri yfir og skreytið t.d með rifsberjum.