Var með þessa ljúffengu og bragðmiklu böku í kvöldmatinn í gær. Ég hef ekki verið mikið í svona bökugerð sjálf en þykja bökur af ýmsu tagi alveg einstaklega góðar og skemmtilegur matur. Þessi baka er ef til vill frábrugðin mörgum öðrum grænmetisbökum að því leyti að í henni eru engin egg og bökubotninn er tiltölulega einfaldur í framkvæmd. Það sem hefur kannski hrætt mig mest frá bökugerð er einmitt þessi viðkvæmi botn sem þarf að fletja út, kæla og þar fram eftir götunum. Þessi botn er mjög góður og einfaldur, unnin saman með höndunum í skál og svo bara þrýst í formið, getur varla verið einfaldara.
Uppskrift
Bökubotn:
- 200 grömm gróft spelt eða heilhveiti
- Salt á hnífsoddi og smá pipar
- 80 grömm smjör, skorið í litla teninga
- 1/2 dl heitt vatn
Fylling:
- 1-2 msk dijon sinnep
- Handfylli af ólífum, smátt söxuðum
- 1 poki rifinn mozarella
- 2-3 msk graslaukur, smátt saxaður (hér má líka nota vorlauk)
- 1 væn lúka spínat, aðeins skorið niður
- 5 tómatar, skornir í frekar þunnar sneiðar og þerraðir með eldhúspappír svo að mest allur vökvinn og fræin fari í pappírinn.
- Nokkur basilblöð, skorin í strimla
- 1 dós sýrður rjómi
- 2-3 msk rifinn parmesan ostur
- Salt og pipar
Aðferð:
Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Allt innihaldið í bökubotninn sett í skál og unnið saman með höndunum. Þegar það er komið saman er því þrýst í botninn og aðeins upp með hliðunum á eldföstu hringlaga formi. Þetta er svo bakað í 10 mínútur. Tekið úr ofninum og leyft að kólna í 30 mínútur eða á meðan fyllingin í bökuna er undirbúin. Hitinn á ofninum lækkaður í 160-170 gráður (fer eftir ofnum, minn er t.d mjög heitur)
Þegar bökubotninn hefur kólnað aðeins er fyllingunni komið fyrir. Dijon sinnepi smurt í þunnu lagi á botninn (þetta er alls ekki yfirgnæfandi, en ofboðslega gott). Ólífum stráð þar yfir. Því næst helmingnum af rifna mozarella ostinum og graslauknum.
Þá er spínatið sett yfir og tómötunum raðað þar ofan á ásamt basil, hér er gott að salta og pipra dálítið. Örlítið af rifnum osti stráð yfir, svo er sýrðum rjóma, restinni af rifna ostinum og parmesan ostinum blandað saman í skál og því svo smurt yfir bökuna og. Bakan er svo bökuð við 160-170 gráður í 45 mínútur. Það er gott að leyfa bökunni að jafna sig við stofuhita eftir bakstur, í 15-20 mínútur áður en hún er skorin.
Ég stráði smá söxuðum basil yfir bökuna og bar hana fram með gúrkustrimlum, spínati og sýrðum rjóma.