Eftir endalausar kræsingar og stórsteikur finnst mér alltaf gott að útbúa eitthvað létt og gott í maga. Þetta salat kom upp í hugann í dag þegar ég var að reyna að ákveða hvað ætti að vera í matinn, langaði í eitthvað létt en bragðgott og smám saman týndist í hausinn á mér innihaldið í þetta fína salat. Samsetningin á þessu salati er í smá Miðjarðarhafsgír og smellur allt mjög vel saman, t.d sterkur chiili piparinn, fetaosturinn og döðlurnar sem er að mínu mati dásamlegt saman.
Það er sannarlega ekki auðvelt að ná góðum myndum af mat í þessu myrkri en við látum okkur hafa það.
Kínóa er í raun ekki korntegund heldur kemur það úr jurtaríkinu og hérna má lesa skemmtilegan fróðleik um það. Þess má geta að það er stútfullt af próteini og góðum fitusýrum og getur því vel komið í staðin fyrir kjöt eða fisk og stendur alveg fyrir sér sem máltið eitt og sér. Eins og ég gerði í þessum rétti 🙂 Það má í raun nota kínóa á ýmsan máta, t.d sem morgungraut eða í staðin fyrir kúskús eða hrísgrjón sem meðlæti. Kínóa er soðið í hlutföllunum 1 hluti kínóa á móti 2 hlutum af vatni og það er mikilvægt að skola það fyrir suðu. Það er frekar hlutlaust á bragðið og gengur nánast með hverju sem er, svipað og kúskús.
Kínóa salat – fyrir 3-4
- 1 bolli ósoðið kínóa.
- 1 lítill kúrbítur, skorinn í sneiðar
- 3 vorlaukar, smátt skornir
- 1 rauður chillipipar, fræhreinsaður og frekar smátt skorinn. (Ég hafði bitana frekar stóra svo auðvelt væri að taka þá frá fyrir þann 4 ára)
- Handfylli söxuð steinselja
- Aðeins minni handfylli söxuð mynta (má sleppa, ég átti hana bara til og hún kom mjög vel út)
- 4 msk ristaðar furuhnetur
- 1 krukka salat feti, vatnið sigtað frá.
- 1 box piccolo tómatar, eða 1/2 askja kirsuberjatómatar. Skornir í tvennt.
- Ca. 6 döðlur saxaðar smátt
Byrjið á að skola kínóað og sjóða það í 2 bollum af vatni. Suðan tekur um 15 mínútur.
Hinir yndislegu íslensku piccolo tómatar, bestu tómatar sem við höfum smakkað! ég fékk þá í Bónus.
Kúrbíturinn grillaður á grillpönnu og svo ristaði ég furuhneturnar á pönnunni þegar kúrbíturinn var tilbúinn.
Allt hitt skorið niður á meðan kínóað sýður og kúrbíturinn grillast, ég skar kúrbítinn svo aðeins smærra niður.
Þegar kínóað er soðið er það sett í skál og mesta hitanum leyft að rjúka úr því, það lítur um það bil svona út þegar það er tilbúið.
svo er bara öllu blandað saman og dressingunni hellt yfir að lokum.
Dressing:
Safi úr einni sítrónu kreist í glas, jafn mikið af ólífuolíu hellt samanvið, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk pipar, 1 tsk hunang. Öllu blandað vel saman og hellt yfir salatið.
Salatið er alveg rosalega gott og bragðmikið og manni líður alveg einstaklega vel eftir að hafa borðað svona fallegan og góðan mat 🙂 Það geymist alveg ágætlega og væri t.d hægt að undirbúa daginn áður og bera fram í saumaklúbbi eða taka með sér í nesti. Ljúffengt !
Skildu eftir svar