Mér finnast sterkar, léttar og bragðmiklar súpur í austurlenskum stíl alveg ofboðslega góðar. Í minningunni eru einhverjar bestu súpur sem ég hef smakkað frá kínverskum eða tælenskum veitingastöðum í útlöndum með foreldrum mínum.. Þegar ég var örugglega einkennilega ung miðað við hrifningu mína á þessháttar súpum sem voru bornar fram með skrýtinni skeið í lítilli djúpri skál. Allavega þá þykja mér svona súpur mjög góðar og hef oft reynt með ágætis árangri að reyna að endurskapa þessa stemmningu hérna heima við. Í roki í rigningu eins og þegar þetta er skrifað langaði mig akkúrat ekki í neitt annað í kvöldmatinn en þessa bragðmiklu léttu súpu og mig langaði í kókos, lime og engifer bragð af henni. Hún er virkilega góð og fljótleg og svei mér þá ef hún náði ekki bara að rifja upp minningar frá einhverjum frábærum tælenskum veitingastað í fyrndinni.
Svona súpur eiga það reyndar til að vera með mjög langann innihaldslista en þessi er þrátt fyrir það, mjög fljótleg og hráefnið fæst allt í venjulegri matvörubúð 🙂
Uppskrift:
- 1 Rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
- 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 3-4 vorlaukar, skornir í sneiðar
- 3 cm bútur engifer, smátt skorinn (þumalstærð af engifer)
- 1 tsk chillimauk, (t.d Sambal Oelek sem fæst í Bónus)
- 1 msk kókosolía eða venjuleg matarolía (kókosolían gefur mjög gott bragð)
- 1,5 l vatn
- 2 kjúklingateningar
- 1 tsk turmerik
- 1 msk sojasósa
- 1 tsk fiskisósa (má sleppa)
- 1 – 2 lime (fer eftir stærð)
- 2 tsk hunang
- 2 fernur kókosmjólk (eða 1 dós)
- 1/2 búnt kóríander, saxað
- 3 kjúklingabringur
Aðferð:
Kókosolían brædd við frekar háan hita í súpupottinum. Rauðlaukur, vorlaukur, hvítlaukur, engifer og chillimaukið steikt í pottinum í stutta stund.
Svo er vatninu hellt yfir ásamt kjúklingateningum, turmerikinu, sojasósu, fiskisósunni, kókosmjólkinni, safanum úr lime-inu, ásamt skrælinu röspuðu af öðru þeirra og hunanginu. Meðan suðan kemur upp er kjúklingurinn skorinn í litla teninga og settur út í sjóðandi súpuna, ásamt kóríander.
Látið sjóða í um það bil 10 – 12 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borin fram rjúkandi heit með smá söxuðu kóríander.
Verði ykkur að góðu !
Guðrún Björg
Takk fyrir að pósta þessu. Ég eldaði súpuna í kvöld og hún er verulega góð.
helenagunnarsd
En gaman að vita það! Verði þér bara að góðu 🙂 þessi súpa er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Ingibjörg Fríða
Hvað myndir þú áætla að ein uppskrift sé fyrir marga?
helenagunnarsd
Sæl Ingibjörg
Ég myndi halda að hún dygði vel og rúmlega það sem aðalréttur fyrir 4 fullorðna.
Kata Jóns
Svakalega góð þessi, eða eins og Maggi sagði svo réttilega í kvöld, “þessi uppskrift er keep-er” 😉
helenagunnarsd
Glæsilegt 🙂 Gaman að vita.
Magnea
Of mikið vatn. Myndi næst aðeins hafa kókosmjólk. En samsetningin er góð.
helenagunnarsd
Takk fyrir það Magnea. Já svona er smekkurinn misjafn, um að gera að breyta uppskriftum eftir smekk. Mér þykja einmitt svona þunnar, nánast tærar austurlenskar súpur svo góðar, en sjálfsagt að minnka vökvann aðeins 🙂
aðalheiður
Góð súpa, ég prófaði svo seinna að setja fiskitenig , lúðu og rækjur í staðinn fyrir kjúklingatening og kjúkling og það er líka svaka gott
.
helenagunnarsd
Frábært, já ég get vel trúað að það hafi verið gott! Takk fyrir að deila því með mér 🙂
Anna
Umm gerði þessa i kvöld og öllum i fjölskyldunni fannst hún æði 🙂
helenagunnarsd
En gaman ad vita 🙂
Kim
Geggjuð súpa, i staðin fyrir vatnið notaði eg organic chichen broth Og ein Bolla af Chardonnay eins Og við seigum her it’s a keeper 😉
helenagunnarsd
Gaman að vita! Takk fyrir kveðjuna 😉
Kær kveðja, Helena
Nafnlaust
.. smá galli að geta ekki prentað út; bara uppskriftina; en hún er æðisleg.
helenagunnarsd
Æj ég veit. Þetta er allt í vinnslu. er að reyna að finna út hvernig er best að hafa þessi prentmál. Kemst vonandi á hreint sem fyrst 🙂
Kær kveðja, Helena
álfhildur
þessi er ÆÐI! líka svo einföld 🙂