Gerði ansi hreint fljótlegt og ljúffengt spínatlasagna í kvöld. Þetta átti reyndar upphaflega að verða spínatfyllt canelloni, en þar sem ég fór í tvær búðir að leita að ferskum lasagna plötum sem hægt væri að rúlla upp og fann þær ekki, breyttist rétturinn í lasagna með hefðbundnum þurrkuðum lasagnaplötum. Útkoman var ekki síðri. Ég fékk hugmyndina að þessum rétti í Jamie Oliver matreiðsluþætti fyrir mörgum árum síðan, þá gerir hann svipaða útgáfu af canelloni. Rétturinn hefur svo breyst og þróast gegnum árin hjá mér og okkur finnst hann alltaf mjög góður. Þetta er allavega mjög góð leið til að fá krakka til að borða helling af spínati, þar sem heill stór spínatpoki fer í réttinn. Það tekur bara um 10 mínútur að undirbúa lasagnað og svo er það í 30 mínútur í ofninum svo þetta er fljótgert.
Spínatlasagna – fyrir 4
- 2 hvítlauksrif, smátt söxuð
- 2 msk ólífuolía
- Salt, pipar og hálfur kjúklinga eða grænmetisteningur
- 1 stór poki af spínati
- 1 stór dós kotasæla
- 1 dós 10% sýrður rjómi
- 3 msk rifinn parmesan ostur
- 1 krukka hakkaðir tómatar (ég notaði lífræna í krukku frá Sollu)
- Lasagnaplötur
- Rifinn ostur
Aðferð:
Ofn hitaður í 170 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Hvítlaukur steiktur uppúr olíunni við frekar vægan hita þar til hann mýkist, saltað og piprað og teningurinn mulinn yfir. Hitinn hækkaður aðeins og spínatinu bætt á pönnuna. Steikið spínatið þar til það hefur linast. Takin pönnuna af hitanum og bætið kotasælu, parmesan og sýrðum rjóma saman við. Salt og pipar eftir smekk. Lasagnað er svo sett saman þannig að neðst í eldfast mót fer örlítil ólífuolía og smá tómatmauk. Svo koma lasagnaplötur, spínatblanda, tómatamauk. Ég endurtók þetta þrisvar, endaði á spínatblöndu og tómatamauki. Stráði osti yfir og bakað í 30 mínútur. Lesið samt á pakkann á lasagnaplötunum, það stóð á mínum Barilla pakka að eldunartíminn á plötunum væru 20 mínútur, á sumum stendur þó alveg 30 – 40 mínútur.
Ég bar þetta fram með piccolotómötum og parmesan osti.
Skildu eftir svar