Ég á orðið ágætis safn matreiðslubóka, svona á minn mælikvarða allavega. Nokkrar þeirra eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég veit að ég get gripið til þeirra ef enga áhættu á að taka og útkoman þarf að vera fullkomin. Bók Nigellu Lawson, How to be a domestic goddess, er sannarlega ein þeirra, enda titillinn einn og sér einstaklega aðlaðandi. Hver vill ekki vera gyðja í eldhúsinu eins og Nigella? Ég hef ekki búið til mjög margar uppskriftir úr henni en þær sem ég hef prófað eru dásamlegar og oftast þannig að þær hafa verið gerðar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ein þeirra uppskriftin hennar af brúnkum (brownies). Nigella byrjar uppskriftina á því að lýsa yfir furðu sinni á því af hverju í ósköpunum fólk er ekki bara alltaf að baka brúnkur, svo auðveldar og gómsætar séu þær… Sennilegasta ástæða þess að fólk er ekki alltaf að baka hennar útgáfu af brúnkum er samt trúlega sú að í uppskriftinni er sko ekki skorið við nögl! Frekar en í öðrum uppskriftum frá Nigellu. En maður minn hvað brúnkurnar eru líka góðar og mega líka vera það miðað við innihaldið. Sex egg, 375 grömm súkkulaði og jafn mikið af smjöri og já HÁLFT kíló af sykri vill hún að við setjum í herlegheitin. Ég get alveg fyrirgefið henni ýmislegt en ég gat ómögulega fengið það af mér að setja hálft kíló af sykri í kökurnar svo ég minnkaði magnið umtalsvert en þær voru samt mjög sætar.. já og góðar já já.Nigella tileinkar súkkulaði heilan kafla í bókinni sinni og byrjar þann kafla á fróðlegum upplýsingum um þessar guðaveigar á gylltum dásamlegum blaðsíðum, allt súkkulaðinu til heiðurs.
Uppskriftin sem um ræðir er mjög stór og auðveldlega hægt að helminga hana. Það nást alveg 48 meðalstórir brúnkubitar úr henni. Uppskriftin passar vel í venjulegt skúffukökuform og galdurinn er að baka kökuna alls ekki of lengi. Mín var sennilega svona þremur mínútum of lengi í ofninum og örlítið brennd í köntunum, ég skar kantana af og setti súkkulaðikrem ofan á, sem er auðvitað bara bruðl en alveg ofsalega gott. Ég get þó alveg sagt kinnroðalaust að þetta ERU bestu brúnkur sem ég hef smakkað, Nigella kann svona lagað.
Uppskrift: (Aðeins breytt uppskrift frá Nigellu)
- 375 grömm dökkt súkkulaði
- 375 grömm smjör
- 6 egg
- 350 grömm hrásykur
- 1 msk vanilluextract
- 225 grömm fínt spelt eða hveiti
- 1/2 tsk salt
- 300 grömm grófsaxaðar valhnetur (þessu má líka sleppa eða skipta út fyrir öðruvísi hnetur, mér finnst valhneturnar samt eiginlega ómissandi..) 🙂
Súkkulaðikrem:
Aðferð:
Ofn hitaður í 170 gráður með blæstri. Smjör og súkkulaði brætt saman við vægan hita í potti. Egg, sykur og vanilla hrærð létt saman með þeytara í frekar stórri skál, (ekki rafmagnsþeytara, þetta á ekki að verða létt og ljóst). Súkkulaðibráðinni leyft að kólna aðeins og svo blandað saman við með þeytaranum. Hveitinu, saltinu blandað saman við með sleif og síðast hnetunum. Hellt í smurt skúffukökuform með bökunarpappír á botninum sem nær upp með hliðunum, þá er hægt að kippa kökunni auðveldlega upp úr mótinu þegar hún er tilbúin. Bakað í um það bil 25 mínútur. Ég bakaði mína óvart í 30 mínútur og fannst það of mikið, ekki vera eins og ég. Hún á að vera blaut í miðjunni. Kakan þarf að kólna nánast alveg áður en hún er skorin, a.m.k í klukkutíma. Þegar kakan er kólnuð er innihaldið í kremið brætt við vægan hita í potti og því svo smurt yfir kökuna.
Marta Rós
Mmmmmm hvað þær eru girnilegar 🙂 Elska matarbloggið þitt Helena! Heimir er heppinn 😉
helenagunnarsd
Takk fyrir það Marta 🙂
Harpa
Guð minn góður!!! Þessar verða bakaðar…jafnvel bara á morgun 😉
helenagunnarsd
Það líst mér vel á Harpa 🙂 Baksturinn hlýtur að koma einhverju af stað hjá þér, ég bakaði einmitt súkkulaðiköku daginn áður GÞ fæddist 😉
Katrín Sigurðardóttir
Örugglega gott að hafa krem á þeim, prufa það næst 🙂