Það er nú meira hvað litlir ómerkilegir hlutir geta glatt mann. Lítið gleður vesæla eins og maðurinn sagði.. Ég ráfaði í rælni inn í Smáralindina um daginn, ein, svo ég gat staðið og skoðað og snert fullt af fínu dóti í nokkrum skemmtilegum búðum. Ég rakst til dæmis á þessar ofur fallegu pastellituðu löngu teskeiðar í Söstrene Grene. Ég gat ekki ákveðið hvaða litur mér þótti fallegastur svo ég tók sex stykki, eina í hverjum lit. Þær voru á 96 krónur stykkið. Það voru líka til skeiðar í skærum litum.. þessir pastellitir ásamt svörtum og hvítum áttu þó hug minn allann. Ég sé þær fyrir mér í deserta og sultur og ég er alveg pínu spennt að nota þessu gulu einhverntímann í lemon curd.. Já ég er voða veik fyrir löngum skeiðum. Þær eru svo praktískar! 😉
Skálina fékk ég í Kitchen Library sem er tiltölulega ný verslun í Smáralindinni. Ekki það ný samt að ég hef að minnsta kosti tvisvar gleymt stund og stað þarna inni. Skálin kostaði eitthvað um 600 kall. Nokkuð gott 🙂
Könnuna fékk ég líka í Kitchen library fyrir lítinn pening. Vantaði einmitt svona könnu fyrir súkkulaðisósu eða bara undir mjólk með kaffinu hversdags þegar sparistellið er ekki í notkun.
Já það er ekkert flókið að eyða og spreða. En það þarf nú ekki alltaf að vera dýrt til að gleðja mann:)
En ég ætla að setja hérna inn svindl snúða uppskriftina mína. Þetta er samt eiginlega ekki uppskrift heldur meira svona samsetning hráefna. Snúðarnir slá í alltaf gegn hjá stráknum mínum en hann kallar þá samt bollur einhverra hluta vegna… Snúðana er upplagt að baka og skella svo í frysti, taka út eftir þörfum og velgja aðeins í ofni. Þeir eru líka æðislegir á hvers kyns smárétta hlaðborði, svo litlir og sætir.
Einfaldir skinkusnúðar:
- 2 pakkar frosið smjördeig (ég notaði Findus)
- 1 stór pakki góð skinka, skorin í smáa teninga (ég nota Ali)
- 1 poki rifinn pizza ostur
- 4 msk dijon sinnep
Aðferð: Látið smjördeigið þiðna í ískáp yfir nótt eða á borði í 2 klst. Hitið ofn í 200 gráður með blæstri. Takið deigið úr öðrum pakkanum og leggið plöturnar saman hlið við hlið (á lengri hliðina) á hveitistráð borð. Ýtið deiginu saman með fingrunum þannig að plöturnar festist saman. Fletjið deigið svo þunnt út og smyrjið með 2 msk af dijon sinnepi. Stráið helmingnum af skinkunni og ostinum yfir. Rúllið upp og skerið í ca. 1 cm þykkar sneiðar. Leggið á pappírsklædda bökunarplötu og bakið við 200 gráður í 12 mínútur. Endurtakið við hinn pakkann af smjördeiginu.
Guðrún Þórbjarnardóttir
Ætla að prófa þessa.
helenagunnarsd
Verður ekki svikin, ægilega einfaldir og góðir 🙂
Inga
Líst vel á þessa, er í lagi að frysta þá?
helenagunnarsd
Já það er sko í fínu lagi 🙂