Syni mínum þykir blómkálssúpa hinn mesti hátíðarmatur og hoppar hæð sína af gleði í hvert sinn sem ég verð að ósk hans og elda þann góða rétt. Það sem mér þykir þó sennilega mesta syndin varðandi alla þessa blómkálsaðdáun barnsins er að honum þóttu hefðbundnar hveitiuppbakaðar saltstappaðar blómakálspakkasúpur alveg dásamlegar. En það þótti móður hans ekki, verandi þó talsverður blómkálssúpuaðdáandi sjálf. Það er nefnilega svo einfalt, gott og ódýrt að útbúa sjálfur dáfínar súpur frá grunni. Ég þarf svo varla að sannfæra ykkur um hvað útkoman verður margfalt betri. Sá stutti drakk allavega , já drakk, súpuna úr skálinni þar til hann gat ekki meira og var eitt stórt alsælt blómkálsbros á eftir.
Með því að rista blómkálið í pottinum áður en vökvanum er bætt út í kemur smá hnetukeimur af því og súpan fer á aðeins hærra plan en gamla pakkasúpan. Sýrði rjóminn og laukurinn gefa svo þessari súpu alveg einstaklega gott bragð sem smellpassar við blómkálið og gerir súpuna svolítið sparilega.
Ristuð blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk (fyrir 4-5):
- 1 stór eða 2 litlir skallottulaukar, smátt saxaðir
- 2 msk smjör
- 1 stórt blómkálshöfuð, gróft skorið
- 1 l vatn (má vera aðeins meira, þá verður súpan örlítið þynnri)
- 2-3 tsk góður grænmetiskraftur (eða 2 góðir teningar)
- 1 peli rjómi
- 1 dós sýrður rjómi
- 3 vorlaukar, smátt saxaðir
- Salt og pipar
Bræðið smjörið í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann mýkist. Bætið blómkálinu þá út í og hækkið hitann. Steikið þar til blómkálið hefur aðeins brúnast. Bætið þá vatni, rjóma og grænmetiskraftinum út í. Látið suðuna koma upp og leyfið að malla í um 10 mínútur eða þar til blómkálið hefur mýkst. Bætið þá vorlauknum út í og maukið súpuna með töfrasprota. Smakkið til með salt og pipar.Ef ykkur finnst hún of þykk má þynna hana með smá vatni ef of þunn þá má þykkja hana með smá maizena mjöli. Þetta fer nú allt eftir smekk. Hrærið sýrða rjómanum út í súpuna í pottinum með písk og berið hana fram með söxuðum vorlauk og góðu nýbökuðu brauði, til dæmis þessum ljúffengu ostabollum, uppskriftina má finna hér.
[…] og bar þær svo fram með eggjum, ostum og hinu ýmsasta áleggi. Afganginn bar ég svo fram með súpunni sem ég eldaði seinna í […]