Jambalaya er náfrændi hinnar spænsku paellu sem svo margir kannast við. Þetta er réttur sem á uppruna sinn að rekja til karabísku eyjanna og er undir áhrifum frá franski og spænskri matarhefð en er oftast kenndur við svokallaða kreóla matargerðarlist. Ef þið hafið horft á Seinfeld þættina munið þið kannski eftir því þegar Newman keypti sér Jambalaya hjá The Soup Nazi. Ef ekki þá er það allt í lagi, það hafa ekki allir horft á Seinfeld fjórtán sinnum eins og ég. En það eru til nokkur afbrigði af þessum skemmtilega rétti. Eins og með svo margar uppskriftir sem eiga sér langa sögu þá er það hráefni notað sem hendi er næst eða það sem til er hverju sinni. Segja sumir að orðið Jambalaya þýði ”taktu til í eldhússkápunum”. Þetta er ofboðslega bragðgóður og skemmtilegur matur og mikið fannst mér gaman að elda hann. Það tekur smá tíma að skera allt niður en útkoman er sannarlega þess virði.
Ég sá uppskriftina að þessu jambalaya hjá henni Inu Garten fyrir nokkuð löngu síðan og hefur mig lengi langað til að prófa hann. Ég gerði mér ferð í Pylsumeistarann við Laugalæk þar sem ég fjárfesti í afar gómsætum chorizo grillpylsum ásamt smá lúxus skinkubita til að nota í réttinn. Fyrst ég var nú komin á Laugalækinn valhoppaði ég yfir götuna til hennar Frú Laugu þar sem ég keypti það grænmeti sem mig vantaði upp á, tómata, paprikur og steinselju. Allt íslenskt, nýupptekið og dásamlegt. Ég hellti mér því rauðvíni í glas í rigningunni síðastliðinn laugardagsseinnipart, kveikti á kertum, setti á mig svuntu og naut þess að dunda mér í eldhúsinu við þessa ilmandi matargerð.
Jambalaya (breytt uppskrift frá Ina Garten):
- 2-3 chorizo grillpylsur eða aðrar bragðmiklar pylsur
- 150 gr góð skinka skorin í teninga (líka hægt að nota t.d kjúkling í staðinn)
- 2 gulrætur
- 1 rauð og 1 græn paprika
- 1 stór rauðlaukur
- 4-5 hvítlauksrif
- 5 sveppir
- 1 stór rauður chillipipar (fræhreinsið ef þið viljið ekki hafa þetta mjög sterkt)
- 4 tómatar
- 2 msk tómatpaste
- 1 tsk þurrkað timian og 2 tsk þurrkuð steinselja
- 1 kjúklingateningur og 1 grænmetisteningur
- 2 1/2 bolli hrísgrjón og tæplega 5 bollar vatn (Ég notaði Tilda Basmati)
- 3 lárviðarlauf
- Dass af tabasco sósu (6-8 dropar)
- Fersk steinselja
- Sítróna
- 2-3 vorlaukar
- Ólífuolía, smjör, salt og pipar
Aðferð: Byrjið á að skera niður skinkuna og pylsuna í fremur litla bita. Skerið því næst allt grænmetið niður í svipað stóra bita og saxið hvítlaukinn smátt. Hitið 2 msk af ólífuolíu í stórum potti og steikið kjötið þar til það er vel brúnað og færið það svo yfir á disk. Setjið svo 1 msk af smjöri í pottinn og steikið allt grænmetið nema tómatana og hvítlaukinn þar til mjúkt. Kryddið með ca. 1/2 tsk af sjávarsalti og svörtum pipar. Bætið tómötunum, kjötinu og hvítlauknum út í ásamt tómatpaste, timían og steinselju. steikið aðeins áfram. Hellið þá hrísgrjónunum út í ásamt vatninu, teningunum og lárviðarlaufunum. Hleypið suðunni upp, lækkið svo undir, setjið lokið á pottinn og leyfið þessu að sjóða í 20 mínútur. Takið þá lokið af. Saxið steinselju og vorlauk og stráið yfir og kreistið safa úr hálfri sítrónu yfir. Smakkið til með salt og pipar er þurfa þykir og berið fram með sítrónubátum.
Kristín Gróa
Vá hvað þetta er æðislega girnilegt! Ég man eftir þættinum þegar Ina og vinkona hennar gerðu jambalaya og mig hefur langað til að prófa síðan en ekki látið vaða enn.
helenagunnarsd
Já.. þetta var nefnilega ansi girnilegur þáttur. En þetta er ótrúlega einfaldur réttur og alls ekki svo tímafrekur.