Það er ýmislegt í minni eldamennsku sem ég á alls ekki erfitt með að viðurkenna og það kinnroðalaust. Til dæmis nota ég oft grænmetis- eða kjöt kraft í formi teninga eða dufts sem ég veit að sumir fá svima af. Og mér þykir það bara allt í lagi, ekki sviminn sko heldur að nota teningana. Ég reyni oftast að kaupa góða teninga eða kraft sem inniheldur ekki MSG og fjárfesti stundum í lífrænum krafti. En ef ég finn það ekki notast ég við gamaldags Knorr kraft og það með góðum árangri. Ég veit að það hljómar æðislega rómantískt að búa til sitt eigið soð, leyfa kjöti eða grænmeti að malla við hæga suðu þar til það sýður niður og eitthvað töfrandi gómsætt gerist. Það er jú vissulega stundum staður og stund fyrir það. En eldamennska af þessum toga er kannski ekki eitthvað sem maður er að malla heima hjá sér svona dags daglega.
Fleira sem ég skammast mín ekki fyrir að nota tilbúið er t.d satay sósa, pestó, hummus og curry paste tilbúið úr krukku. Þar gildir hið gamalkunna að reyna að finna góða tegund sem manni líkar vel og svo er sjálfsagt að hressa aðeins upp á innihaldið með nokkrum leynivopnum úr ísskápnum. Allt þetta má þó vel útbúa heima hjá sér frá grunni sem er virkilega gaman svona inn á milli. Satay kjúklingaspjótin sem ég gerði í gær eru einmitt marineruð úr tilbúinni satay sósu sem ég hressti aðeins upp á. Flljótlegur matur sem er tilvalinn á grillið og virkilega ljúffengur.
Satay kjúklingaspjót (fyrir 3):
- 2-3 vænar kjúklingabringur
- 1 krukka satay sósa (Ég nota Blue Dragon satay sósu úr glerkrukku)
- 1 msk sojasósa
- 1 hvítlauksrif, smátt saxað eða rifið
- Sítróna, skorin í tvennt
- 1/2 kjúklingateningur
- Krydd t.d Pasta Rossa eða Chilli explosion (Ég notaði bæði)
Aðferð: Byrjið á að skera kjúklingabringurnar í litla bita. Ég sker bringuna í tvennt á langveginn og sker hana svo í átta jafna bita. Setjið kjúklingabitana í skál. Hellið helmingnum af satay sósunni yfir kjúklinginn ásamt sojasósunni, hvítlauknum og safanum úr hálfri sítrónu. Blandið þessu vel saman og þræðið upp á teina og kryddið svo. Grillið á vel heitu grilli í 10-15 mínútur og snúið nokkuð oft. Afganginn af satay sósunni hita ég rólega upp í potti ásamt 1 dl af vatni, 1/2 kjúklingatening og safanum úr hálfri sítrónu og ber fram með kjúklingaspjótunum. Ég bar spjótin fram með kúskús og salati ásamt satay sósunni sem ég hitaði upp.
[…] Þessi satay kjúklingaspjót eru ekki síðri en lambaspjótin. Sumarleg og dásamlega bragðgóð. Grillaður Halloumi ostur á salatbeði með jarðarberjum og smá chilli. Getur verið meðlæti, smáréttur eða forréttur. Bara gott.Jarðarber í salati eru yndilslega góð. Hérna fá þau að leika sér við rifinn piparost og grænmeti. Frábært og einfalt salat! […]