Mikið er nú langt síðan ég hef gefið mér tíma til að setjast við tölvuna og skella inn uppskrift. Þær reyndar bíða nú nokkrar birtingar en vegna anna hefur ekki gefist tími til að setja þær inn. Við fórum til Dublin um helgina og eyddum þar fjórum ljúfum dögum. Ráfuðum um götur, versluðum smá og borðuðum góðan mat. Ég hef lagt það í vana minn að kíkja á tripadvisor.com áður en við förum og frí og velja þar góða staði til að skoða sem og spennandi veitingastaði og kaffihús. Mæli sannarlega með því, það er fátt eins leiðinlegt eins og að fara inn á lélegan veitingastað og borga stórfé fyrir vondan eða óspennandi mat. Við urðum allavega aldrei fyrir vonbrigðum með staðina sem urðu fyrir valinu og fengum alveg stórgóðan mat!
En að uppskrift dagsins. Þessar bollakökur voru á óskalistanum fyrir fimm ára afmæli hér á heimilinu í síðustu viku. Kökurnar eru virkilega mjúkar og bragðgóðar með góðu vanillubragði, vanillu smjörkremið setur auðvitað alveg punktið yfir i-ið. Það er fátt jafn mikið við hæfi eins og að skoða bollakökuuppskrift á mánudögum og láta sig aðeins dreyma..
Vanillubollakökur (24 stk, auðveldlega hægt að helminga):
- 225 gr smjör við stofuhita
- 250 gr hrásykur
- 1 msk hreint vanilluextract
- 4 egg
- 350 gr fínmalað spelt eða hveiti
- 1 msk vínsteinslyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 2,5 dl nýmjólk
Smjörkrem:
- 300 gr mjúkt smjör
- 400 gr flórsykur
- 2 tsk vanilluextract
- 2-3 msk mjólk
- Nokkrir dropar blár og grænn matarlitur eða sá litur sem þið viljið, líka hægt að hafa kremið hvítt.
Athugið að ef öll hráefni í kökurnar eru við stofuhita verður útkoman enn betri. Ég mæli með að taka smjörið, eggin og mjólkina úr ísskáp a.m.k 2 klst áður en bakstur hefst. Ef ekki gefst tími og smjörið er mjög hart getur verið gott að skera það í sneiðar og leggja á disk, þá mýkist það fyrr.
Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Þeytið smjör, sykur og vanillu í 3-5 mínútur eða þar til blandan er vel ljós og létt. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Blandið saman hveitinu, salti og lyftidufti og pískið vel saman eða sigtið. Bætið hveitinu og mjólkinni saman við deigið til skiptis, endið á hveitinu og blandið vel saman þannig að deigið sé silkimjúkt, en varist þó að hræra of lengi. Skiptið deiginu í bollakökuform og bakið í ca. 18 mínútur. Varist að ofbaka, fylgist með kökunum eftir um 16 mínútur og athugið hvort þær séu tilbúnar með því að stinga tannstöngli í miðja köku. Ef hann er blautur bakið í 1-2 mínútur í viðbót og athugið þá aftur. Takið úr ofninum um leið og tannstöngullinn kemur þurr upp. Kælið kökurnar á grind.
Krem: Þeytið smjörið í 3-5 mínútur eða þar til það verður ljóst og létt. Bætið flórsykrinum saman við og þeytið í 3 mínútur til viðbótar, bætið mjólkinni smám saman út í ásamt vanillunni þar til kremið er létt og meðfærilegt. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á kökurnar. Ég notaði stút nr. 2D frá Wilton. Formin og sjóræningjafánana fékk ég í Kosti.
Skildu eftir svar